Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 305. máls.
130. löggjafarþing 2003–2004.
Þskj. 350  —  305. mál.




Frumvarp til laga



um breytingu á lögum nr. 78/2002, um niðurgreiðslur húshitunarkostnaðar.

(Lagt fyrir Alþingi á 130. löggjafarþingi 2003–2004.)



1. gr.

    Í stað 1. málsl. 12. gr. laganna koma fjórir nýir málsliðir er orðast svo: Styrkur til hverrar hitaveitu getur numið allt að átta ára áætluðum niðurgreiðslum á rafmagni eða olíu til húshitunar á orkuveitusvæði viðkomandi hitaveitu miðað við meðalnotkun til húshitunar næstu fimm ár á undan. Greiðsla stofnstyrks til nýrrar hitaveitu eða vegna stækkunar hitaveitu skal miðuð við tímamarkið þegar hitaveitan tekur til starfa eða stækkun er tekin í notkun. Af fjárveitingu hvers árs til niðurgreiðslu á orku til húshitunar og stofnstyrkja hitaveitna skal styrkveiting til nýrra hitaveitna þó aldrei vera meiri en 20% heildarfjárveitingar. Árlega getur hver einstök hitaveita að hámarki fengið styrk er nemur 15% árlegrar heildarfjárveitingar til niðurgreiðslu á húshitunarkostnaði og nýrra hitaveitna.

2. gr.

     a.      Á eftir 15. gr. laganna kemur ný grein, svohljóðandi, og breytist greinatala samkvæmt því:
             Ráðherra er heimilt að ákveða að sérstakt jarðhitaleitarátak á köldum svæðum fái allt að 5% af árlegri fjárveitingu til niðurgreiðslu á húshitunarorku og nýrra hitaveitna. Beiðnir um styrki skulu sendar iðnaðarráðuneytinu ásamt greinargerð Orkustofnunar um fyrirhugaða jarðhitaleit.
     b.      Fyrirsögn greinarinnar orðast svo: Fjárveiting til jarðhitaleitar.

3. gr.

    Lög þessi taka gildi 1. janúar 2004.

Athugasemdir við lagafrumvarp þetta.


    Á 128. löggjafarþingi voru samþykkt lög nr. 78/2002, um niðurgreiðslur húshitunarkostnaðar. Frumvarpið var samið af nefnd sem iðnaðarráðherra skipaði og voru þau að meginstofni til lögfesting á framkvæmd sem gilt hafði um langa hríð. Áður en lögin voru sett var niðurgreiðslum háttað þannig að í fjárlögum hvers árs var veitt ákveðin fjárhæð til niðurgreiðslna en skipting fjárins fór eftir vinnureglum sem mótast höfðu í iðnaðarráðuneytinu með aðstoð Orkustofnunar. Setning laga nr. 78/2002 var til verulegra bóta og hefur skýrt mjög réttindi og skyldur hvað þetta málefni varðar.
    Í frumvarpi þessu eru lagðar til breytingar sem falla innan þeirrar meginstefnu sem mörkuð var með setningu laga nr. 78/2002 en horfa til bóta í ljósi reynslunnar af framkvæmd laganna. Skýrt skal tekið fram að ekki er hróflað við núverandi fyrirkomulagi þar sem heildarfjárhæðin sem varið er til þessa málaflokks er ákveðin í fjárlögum hvers árs.

Athugasemdir við einstakar greinar frumvarpsins.


Um 1. gr.

    Í greininni er mælt fyrir um hækkun á hámarki stofnstyrkja til hitaveitna. Í stað þess að miða hámark stofnstyrks við upphæð fimm ára niðurgreiðslna að frádregnum öðrum beinum eða óbeinum stuðningi ríkis við viðkomandi hitaveitu er lagt til að miðað verði við átta ára niðurgreiðslur að hámarki. Er þá miðað við meðalnotkun rafhitunar næstu fimm ár þar á undan. Þessi breyting er lögð til vegna þess að æskilegt er talið að stuðla að aukinni nýtingu jarðvarma til húshitunar eins víða um land og hagkvæmt þykir. Stefna stjórnvalda hefur verið að fjölga hitaveitum á landinu og er hin ráðgerða breyting hluti af þeirri stefnu. Komið hefur í ljós að á ákveðnum stöðum þar sem kannað hefur verið hvort stofna eigi hitaveitu og hverfa frá rafhitun hefur hitaveita ekki verið samkeppnisfær við niðurgreidda rafhitun. Einhugur er um að niðurgreiða rafhitun á þeim stöðum sem ekki eiga kost á öðrum leiðum til húshitunar. Jafnframt er ljóst að niðurgreiðslur til húshitunar mega ekki standa í vegi fyrir þróun og uppbyggingu kerfis til húshitunar með jarðhita. Einnig er bent á að þó að þessi hækkaða viðmiðun styrks til einstakra hitaveitna leiði til aukinna útgjalda ríkissjóðs til einstakra hitaveitna í upphafi, er breytingin til þess fallin að draga úr heildarkostnaði við niðurgreiðslu húshitunar þegar til lengri tíma er litið. Í greininni felst að hin hækkaða viðmiðun tekur einungis til hitaveitna sem taka til starfa eftir að lagabreytingin kemur til framkvæmda. Um það hvenær hitaveita telst hafa tekið til starfa eða stækkun hennar verið tekin í gagnið ræður úrslitum hvenær notendur hennar eru tengdir og byrja að njóta þjónustu hitaveitunnar. Eftir að hitaveita hefur verið tengd eiga notendur hennar ekki lengur rétt á niðurgreiðslum til húshitunar og þær eiga því að hafa fallið niður.
    Greininni er einnig breytt á þann veg að heimilt verður að miða við niðurgreiðslur til olíuhitunar þegar metnir eru stofnstyrkir til nýrrar hitaveitu eða vegna stækkunar hitaveitu. Rétt þykir að gera þessa breytingu nú til þess að gæta jafnræðis milli þeirra er hita með rafmagni og þeirra sem hita með olíu ef til þess kemur að fyrirhuguð er hitaveita á svæði sem nær til aðila sem nota báða þessa orkugjafa til húshitunar.
    Í frumvarpinu er að finna nýtt ákvæði um fjárveitingar til stofnstyrkja hitaveitna. Samkvæmt ákvæðinu verður ráðherra heimilt að ráðstafa til þeirra allt að 20% þess fjár sem Alþingi ákveður í fjárlögum hvers árs að ráðstafa samtals til niðurgreiðslna á húshitunarkostnaði og til stofnstyrkja hitaveitna. Þá er og kveðið á um að einstök hitaveita geti ekki fengið hærri stofnstyrki árlega en 15% af því fé sem Alþingi ákveður í fjárlögum hvers árs að ráðstafa samtals til niðurgreiðslna á húshitunarkostnaði og til stofnstyrkja hitaveitna. Hitaveita sem ætti í heild rétt á hærri stofnstyrk en sem nemur hámarki hvers árs fyrir einstaka hitaveitu yrði að sæta því að fá stofnstyrkinn greiddan á tveimur árum eða lengri tíma ef um verulegar fjárhæðir væri að ræða.

Um 2. gr.

    Árið 1998 var komið á laggirnar á vegum iðnaðarráðuneytisins sérstöku átaki til jarðhitaleitar á svokölluðum köldum svæðum, þar sem rafmagn er notað til húshitunar. Hefur þessu átaksverkefni verið fram haldið frá 1998. Aðilar að því hafa verið iðnaðarráðuneytið, Byggðastofnun og Orkusjóður. Engin sérstök fjárveiting hefur verið á fjárlögum til þessa verkefnis og því er talið eðlilegt að marka því sérstakan tekjustofn.
    Á undanförnum árum hefur tækni til borana og jarðhitaleitar fleygt mjög fram og kostnaður farið hlutfallslega lækkandi. Hins vegar er kostnaður við borun á rannsóknarholum á köldum svæðum mjög mikill þar eð mun dýpra þarf að bora á slíkum svæðum en annars staðar. Með þessu átaki hefur tekist að auka hlutdeild jarðhitaveitna í húshitun á landsbyggðinni, en talið er að víða sé unnt að afla jarðhita fyrir þéttbýli sem ekki býr við hitaveitu.
    Jarðhitaleitarátakinu er ætlað að verða hvati og upphaf að frekari aðgerðum. Þannig beinist það einkum að frumstigum leitar, en sveitarfélögum og orkufyrirtækjum er ætlað að taka við verkefnunum, finnist jarðhiti sem hagkvæmt er að nýta. Að lokinni leit taka sveitarfélög og orkufyrirtækin síðan við og standa undir frekari kostnaði. Vinna á vegum jarðhitaleitarátaksins hefur einkum beinst að þéttbýlisstöðum og þau svæði verið látin ganga fyrir þar sem dreifing raforku til húshitunar kann að vera ótrygg.

Um 3. gr.

    Greinin þarfnast ekki skýringa.


Fylgiskjal.


Fjármálaráðuneyti,
fjárlagaskrifstofa:


Umsögn um frumvarp til laga um breytingu á lögum nr. 78/2002,
um niðurgreiðslur húshitunarkostnaðar.

    Með frumvarpinu er lögð til hækkun á hámarki stofnstyrkja til hitaveitna. Í gildandi lögum er hámark stofnstyrkja miðað við fimm ára niðurgreiðslu á rafmagni að frádregnum öðrum beinum og óbeinum stuðningi ríkisins við viðkomandi hitaveitu, en með frumvarpinu er lagt til að miðað verði við átta ára niðurgreiðslur að hámarki. Jafnframt er lagt til að veitt verði heimild til að miða einnig við niðurgreiðslur til olíuhitunar þegar metnir eru stofnstyrkir til nýrra hitaveitna. Loks er með frumvarpinu lagt til að iðnaðarráðherra verði veitt heimild til að verja allt að 5% af árlegri fjárveitingu til niðurgreiðslu á húshitunarorku og til nýrra hitaveitna til sérstaks jarðhitaleitarátaks á köldum svæðum. Að meðaltali hafa verið veittar u.þ.b. 40 m.kr. á ári í stofnstyrki til hitaveitna á undanförnum fimm árum. Gera má ráð fyrir að styrkirnir hækki nokkuð þar sem hámarksviðmið hækkar úr fimm árum í átta eða um 60%. Á móti kemur að meiri hvati verður til að leggja af rafhitun og niðurgreiðslur sparast til lengri litið.
    Samkvæmt frumvarpi til fjárlaga fyrir árið 2004 er gert ráð fyrir að niðurgreiðslur á rafhitun nemi 868 m.kr. Gert er ráð fyrir að ákvarðanir um stofnstyrki, niðurgreiðslur og eftirlit verði teknar með tilliti til þeirra fjárveitinga sem til ráðstöfunar eru samkvæmt fjárlögum hverju sinni.