Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 215. máls.
130. löggjafarþing 2003–2004.
Þskj. 385  —  215. mál.




Svar



menntamálaráðherra við fyrirspurn Össurar Skarphéðinssonar um fjöldatakmarkanir í Háskóla Íslands.

    Fyrirspurnin hljóðar svo:
     1.      Í hvaða deildum Háskóla Íslands tíðkast fjöldatakmarkanir og með hvaða hætti eru þær framkvæmdar?
     2.      Hvaða skýringar eru á nauðsyn fjöldatakmarkana í viðkomandi deildum?
     3.      Hvaða breytingar hafa orðið á fjöldatakmörkunum í skólanum sl. tíu ár?
     4.      Eru fyrirsjáanlegar breytingar á takmörkunum á fjölda stúdenta í einhverjum deildum eða eru áform um að leggja þær af í einhverjum tilvikum?


    Í sambandi við fyrirspurnina er mikilvægt að hafa í huga að eitt af meginmarkmiðum með setningu gildandi laga um Háskóla Íslands var að auka sjálfstæði skólans í samræmi við lög um háskóla, nr. 136/1997. Í 2. mgr. 13. gr. laga um Háskóla Íslands er háskólaráði veitt heimild til að takmarka fjölda stúdenta í grunn- og framahaldsnámi, að fenginni tillögu deildar. Í athugasemdum við frumvarp það sem varð að lögum um Háskóla Íslands segir að heimild hafi verið í eldri lögum til takmörkunar á fjölda stúdenta á 1. námsári vegna skorts á aðstöðu til kennslu. Auk þessa sé ljóst að háskólinn geti vegna skorts á aðstöðu þurft að takmarka fjölda þeirra sem hann tekur til framhaldsnáms að loknu grunnnámi til fyrstu háskólagráðu, en heimildir til þess hafi ekki verið nægilega skýrar samkvæmt þeim lögum sem í gildi voru á umræddum tíma. Hugmyndin með núgildandi ákvæðum var því að heimildirnar yrðu skýrðar. Aftur á móti var ekki við það miðað að fjöldatakmörkunum yrði beitt í ríkari mæli en verið hefði, enda er tilgangur fjöldatakmörkunar ekki að fækka þeim sem ljúka námi, heldur að skapa aðstæður til að sinna nemendum betur og gera nám þeirra árangursríkara.
    Í samræmi við heimildir Háskóla Íslands til fjöldatakmarkana samkvæmt lögum leitaði ráðuneytið eftir upplýsingum frá skólanum vegna fyrirspurnarinnar.
    Samkeppnispróf eru haldin í Háskólanum í hjúkrunarfræði og tannlæknisfræði við lok haustmissiris þar sem allir sem uppfylla inntökuskilyrði Háskólans fá að sitja fyrsta missirið og spreyta sig í prófum að því loknu. Í læknisfræði og sjúkraþjálfun eru sérstök inntökupróf í júní þar sem þeir sem uppfylla inntökuskilyrði Háskólans geta reynt sig og ræður röð einkunna því hverjir fá að hefja nám að hausti. Fjöldi þeirra sem öðlast rétt til að hefja nám er eftirfarandi: 75 í hjúkrunarfræði, 6 í tannlæknisfræði, 48 í læknisfræði og 20 í sjúkraþjálfun.
    Jafnframt er fjöldi takmarkaður í nokkrum greinum og er þá miðað við árangur í fyrra námi: 10 eru innritaðir í ljósmóðurfræði, 20 í hagnýta fjölmiðlun, 18 í námsráðgjöf, 22 í félagsráðgjöf, 60 í kennslufræði til kennsluréttinda og 15 í cand. psych. nám.
    Háskóli Íslands gefur þær skýringar á beitingu heimilda til fjöldatakmarkana í skólann að í öllum tilvikum séu takmarkanirnar til komnar vegna skorts á aðstöðu til kennslu fleiri stúdenta, einkum sé viðunandi aðstaða til verklegs náms bundin tilteknum stofnunum eða takmörkuðum hópi þeirra sem sinnt geta handleiðslu í verklegu námi. Ákvörðun um fjöldatakmarkanir er tekin af háskólaráði á hverju ári að fengnum tillögum viðkomandi háskóladeilda. Haft er samráð við Landspítala – háskólasjúkrahús vegna aðstöðu á sjúkrahúsinu og margvíslegrar samvinnu um námið á grunni samstarfssamninga. Sömuleiðis er haft samráð við aðrar heilbrigðisstofnanir, svo sem Fjórðungssjúkrahúsið á Akureyri og heilsugæsluna á höfuðborgarsvæðinu.
    Fjöldatakmörkunum var beitt á háskólaárinu 2003–2004 í eftirfarandi greinum en til samanburðar er einnig birtur fjöldi í sama námi 1993–1994.

2003–04 1993–94
Læknisfræði til kandídatsprófs 48 30
Sjúkraþjálfun til BS-prófs 20 20
Hjúkrunarfræði til BS-prófs 75 60
Ljósmóðurfræði til kandídatsprófs 10
Tannlæknisfræði til kandídatsprófs 6 6
Hagnýt fjölmiðlun 20 15
Námsráðgjöf 18 12
Félagsráðgjöf 22 15
Kennslufræði til kennsluréttinda 60 *70
Sálfræði til cand. psych. prófs **15
Uppeldis- og menntunarfræði til MA-prófs 30
* Þar af voru 50 í fullu námi en 20 í hálfu námi.
** 12 þegar náminu var hleypt af stokkunum árið 1999.

    Helsta breytingin milli skólaáranna 2002–2003 og 2003–2004 er að nú er í fyrsta sinn beitt fjöldatakmörkun í MA-nám í uppeldis- og menntunarfræði en nám í þessari grein til meistaraprófs hófst 1996. Aðrar breytingar eru þær að fjölgað var í hjúkrunarfæði um tíu, í námsráðgjöf um tvo, í félagsráðgjöf um fjóra, í kennslufræði til kennsluréttinda um tíu, en á móti kemur að aflögð er fjarkennsla, og í cand. psych. námi í sálfræði um þrjá, sem fyrr greinir. Þá ber að geta þess að beitt var fjöldatakmörkunum í lyfjafræði á árunum 1997–2001.
    Í svari Háskóla Íslands til ráðuneytisins við 4. lið fyrirspurnarinnar segir að nauðsyn á því að takmarka frekar fjölda stúdenta í grunn- og framhaldsnámi í fleiri fræðigreinum ráðist fyrst og fremst af því hver verði niðurstaða samninga við stjórnvöld um fjárframlög til kennslu og rannsókna næstu árin. Enn fremur sé fjöldi stúdenta kominn að mörkum þess sem húsnæði og önnur aðstaða og aðbúnaður þoli. Gildandi kennslusamningur rennur út 31. desember nk. en unnið er að gerð nýs samnings til þriggja ára. Það segir sig sjálft að Háskólinn getur ekki tekið við fleiri nemendum en fjárveitingar duga fyrir og því verður að grípa til aðgerða ef ekki fást framlög til að mæta kostnaði. Augljós möguleiki í því efni er aðgangstakmörkun. Í umsögn HÍ segir að það þrengi að skólastarfinu vegna skorts á aðstöðu, húsrými og búnaði og að í sumum tilvikum sé komið að þolmörkum í því efni. Þær þrengingar geta einnig leitt til þess að takmarkanir verði nauðsynlegar.
    Vegna upplýsinganna frá Háskóla Íslands skal áréttað að menntamálaráðherra hefur áður, í svari við munnlegri fyrirspurn, sbr. 273. mál á 128. löggjafarþingi, bent á að eitt af meginmarkmiðum með setningu þeirra laga um Háskóla Íslands sem nú eru í gildi hafi verið að auka sjálfstæði skólans. Það hafi verið í fullu samræmi við almenn lög um háskóla, nr. 136/1997. Í 2. mgr. 13. gr. laga um Háskóla Íslands er háskólaráði veitt heimild til að takmarka fjölda stúdenta í grunn- og framhaldsnámi að fenginni tillögu deildar. Ekki er vilji til þess af hálfu ráðherra að afnema eða takmarka sjálfstæði ríkisháskólanna frá því sem er í gildandi lögum. Sjálfsagt og eðlilegt er að þeir ákveði sjálfir innan gildandi lagaramma hvernig og hvort þeir takmarka fjölda stúdenta í einstökum deildum þeirra. Óhjákvæmilegt er að þegar teknar eru ákvarðanir um slíkt sé tekið mið af fjárveitingum til skólans á fjárlögum hverju sinni. Hún hlýtur einnig að taka mið af áætlunum og forgangsröðun skólans, sem er nauðsynleg til að tryggt sé að þeir fjármunir sem honum eru veittir nýtist starfsemi hans sem best.