Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 218. máls.
130. löggjafarþing 2003–2004.
Þskj. 393  —  218. mál.




Svar



heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra við fyrirspurn Ástu R. Jóhannesdóttur um samræmda slysaskráningu.

     1.      Hvenær hófst samræmd slysaskráning á öllum slysum hér á landi?
    Landlæknisembættið og slysavarnaráð hafa haft frumkvæði að samræmdri slysaskráningu með smíði Slysaskrár Íslands. Til varð miðlægur gagnabanki þar sem ólíkir aðilar skrá slys sem verða á Íslandi. Markmið Slysaskrár Íslands er að samræma skráningu og úrvinnslu upplýsinga um slys sem verða hér á landi. Verkefnið Slysaskrá Íslands er þróunarverkefni sem byggist á þverfaglegri samvinnu og framlagi margra. Slysaskrá Íslands mun í framtíðinni ná til allra sem meðhöndla upplýsingar um slys á fólki og eignatjón í umferðaróhöppum.
    Hönnun Slysaskrár Íslands var lokið vorið 2000 og allri tæknilegri vinnu var lokið haustið 2001. Tilraunaskráning í Slysaskrá Íslands hófst 11. september 2001 en formleg skráning 1. apríl 2002. Fyrstu mánuðina var skráning takmörkuð við fjóra, þ.e. slysadeild Landspítala – háskólasjúkrahúss, Vinnueftirlit ríkisins, ríkislögreglustjóra og Tryggingamiðstöðina. Fjölgun skráningaraðila hefur verið undirbúin.
    Birtar hafa verið upplýsingar úr Slysaskrá Íslands frá apríl 2002 til september 2003. Þær má m.a. finna á heimasíðu landlæknisembættisins www.landlaeknir.is, undir heilbrigðistölfræði, slys. Á heimasíðunni er einnig hægt að nálgast frekari upplýsingar um Slysaskrá Íslands.

     2.      Liggja fyrir tölur um fjölda slysa frá því að lög um slysavarnaráð, nr. 33/1994, voru sett?
    Ekki eru til heildstæðar tölur um fjölda allra slysa fyrir tilkomu Slysaskrár Íslands enda er henni ætlað að bæta úr því. Ýmsir hafa þó haldið utan um tölur um tiltekin slys. Sem dæmi má nefna að Slysavarnafélag Íslands hefur gefið út árbók um langt skeið og þar kemur fram fjöldi banaslysa á hverju ári. Slysadeild Landspítala – háskólasjúkrahúss í Fossvogi hefur skráð nákvæmar upplýsingar um slys í mörg ár og áætlaður heildarfjöldi slysa á ári hefur verið unnin út frá þeim tölum (um 50–60 þúsund slys á ári). Einnig hafa slysavarnaráð og landlæknisembættið staðið að ýmsum úttektum sem m.a. hafa verið birtar sem fylgirit við heilbrigðisskýrslur. Þar má sem dæmi nefna: Vinnuslys á sjó frá 1995, Áhættuslys, 1998, Kostnaður vegna umferðarslysa á Íslandi, 1998 og Kostnaður vegna sjóslysa á Íslandi, 1998.

     3.      Hversu mörg slys hafa verið skráð árlega í gagnabankann Slysaskrá Íslands?

    Á 12 mánuðum, frá frá 1. apríl 2002 til 31. mars 2003, voru skráð um 25.500 slys í Slysaskrá Íslands.

     4.      Hafa öll sjúkrahús, heilsugæslustöðvar og heilbrigðisstofnanir sinnt skráningu?
    Enn skal ítrekað að Slysaskrá Íslands er þróunarverkefni og gert er ráð fyrir að þeim sem skrá slys fjölgi smám saman á næstu tveimur til þremur árum. Slysadeild Landspítala – háskólasjúkrahúss í Fossvogi var valin til þess að taka þátt í verkefninu frá upphafi og er enn sem komið er eina heilbrigðisstofnunin sem skráir slys í Slysaskrá Íslands.
    Til þess að heilsugæslustöðvar gætu tekið þátt í skráningu í Slysaskrá Íslands þurfti að ákveða hvernig best væri tæknilega að varpa gögnunum í gagnabankann. Sumarið 2003 var gefin út ný útgáfa af kerfi fyrir skráningu, sem heitir Saga 3.1. Í því hefur verkefnisstjórn slysaskráninnar látið útbúa samskiptaseðil sem tengist beint við gagnabanka Slysaskrár Íslands. Heilsugæslustöðvar eru nú að taka upp þetta kerfi hver af annarri og á næstu mánuðum geta þær því byrjað að skrá í Slysaskrá Íslands.
    Dagana 12. og 13. nóvember voru haldnir kynningarfundir um Slysaskrá Íslands á vegum landlæknisembættisins fyrir Austurland og Norðurland. Tilgangurinn var að kynna Slysaskrá Íslands á sjúkrahúsum og heilsugæslustöðvum þar og fá stofnanirnar til að taka þátt í verkefninu og hefja skráningu í slysaskrána.

     5.      Hversu margar slysaskráningar hafa borist frá hverri stofnun á ári, þ.e. sjúkrahúsum, heilsugæslustöðvum og heilbrigðisstofnunum?

    Slysadeild Landspítala – háskólasjúkrahúss skráði um 20.500 slys frá 1. apríl 2002 til 31. mars 2003 í Slysaskrá Íslands.

     6.      Hversu margar skráningar hafa borist frá
                  a.      Vinnueftirliti,
                  b.      lögreglu,
                  c.      tryggingafélögum?

    Vinnueftirlitið skráði um 1.100 slys í Slysaskrá Íslands frá 1. apríl 2002 til 31. mars 2003.
    Lögreglan hóf skráningu í Slysaskrá Íslands í lok árs 2002. Aðlögun skráningar lögreglu að Slysaskrá Íslands hefur tekið nokkurn tíma enda er hér um flóknari vinnu að ræða en aðlögun skráningar heilbrigðisstofnana. Unnið hefur verið jafnt og þétt að þessari aðlögun og sér brátt fyrir endann á henni.
    Gögn frá lögreglunni hafa enn sem komið er eingöngu að litlu leyti verið notuð í úrvinnslu úr Slysaskrá Íslands. Þegar gögn frá lögreglunni skila sér að fullu í skrána má gera ráð fyrir 4.000–5.000 nýskráningum.
    Eitt tryggingafélag, Tryggingamiðstöðin, hefur frá upphafi skráð slys í Slysaskrá Íslands. VÍS og Sjóvá – Almennar eru nú að huga að tengingu við skrána með vörpun úr kerfum sínum, en sú vinna er enn á frumstigi. Vonast er til að þau geti tengst Slysaskrá Íslands á næsta ári. Tryggingamiðstöðin skráði um 3.900 slys í Slysaskrá Íslands frá 1. apríl 2002 til 31. mars 2003.

     7.      Eru einhverjar stofnanir sem ættu að sinna skráningu en gera það ekki?

    Eins og áður segir er unnið að því að gera heilsugæslustöðvum og öðrum heilbrigðisstofnunum á landsbyggðinni kleift að taka þátt í skráningu í Slysaskrá Íslands á næstu mánuðum.