Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 281. máls.
130. löggjafarþing 2003–2004.
Þskj. 424  —  281. mál.




Svar



félagsmálaráðherra við fyrirspurn Brynju Magnúsdóttur um framlög úr Jöfnunarsjóði sveitarfélaga.

    Fyrirspurnin hljóðar svo:
    Hversu margar beiðnir hafa borist um framlög úr Jöfnunarsjóði sveitarfélaga vegna fatlaðra barna í grunnskóla? Hversu mörgum beiðnum hefur verið hafnað, af hvaða ástæðu og í hvaða sveitarfélögum?

    Ráðuneytið leitaði til Jöfnunarsjóðs sveitarfélaga um svör við fyrirspurninni og byggist eftirfarandi á upplýsingum þaðan.
    Borist hafa umsóknir um framlög úr Jöfnunarsjóði sveitarfélaga frá 75 sveitarfélögum vegna sérþarfa fatlaðra nemenda það sem af er árinu. Þetta eru beiðnir vegna 1.045 nemenda. Sem komið er hafa 625 beiðnir af þessum 1.045 ekki hlotið jákvæða afgreiðslu sjóðsins.
    Nauðsynlegt er að hafa nokkurn aðdraganda að því að svara af hvaða ástæðum beiðnum hefur verið hafnað. Ráðherra skipaði 14. febrúar 2001 nefnd til að endurskoða III. kafla laga um tekjustofna sveitarfélaga, nr. 4/1995, með síðari breytingum, en kaflinn fjallar um Jöfnunarsjóð sveitarfélaga. Nefndinni var jafnframt ætlað að endurskoða reglugerðir sem byggðar eru á ákvæðum þessa kafla laganna. Nefndin lauk störfum haustið 2002 og skilaði skýrslu til ráðherra.
    Í áfangaskýrslu nefndarinnar í febrúar 2002 voru lagðar til breytingar á reglugerð um jöfnunarframlög Jöfnunarsjóðs sveitarfélaga vegna reksturs grunnskóla, nr. 653/1997, með síðari breytingum, meðal annars til að einfalda útreikninga framlaganna, gera úthlutun þeirra almennari og draga úr eyrnamerkingum eins og hægt væri.
    Með vísan til þessa var skipaður sérstakur starfshópur til að útfæra nánar vinnu- og viðmiðunarreglur fyrir úthlutanir á framlögum úr Jöfnunarsjóði sveitarfélaga vegna sérþarfa fatlaðra nemenda, sbr. 4. gr. reglugerðar um jöfnunarframlög Jöfnunarsjóðs sveitarfélaga vegna reksturs grunnskóla, nr. 351/2002. Ráðgjafarnefnd Jöfnunarsjóðs sveitarfélaga samþykkti tillögur starfshópsins og 1. janúar 2003 tóku gildi nýjar vinnu- og viðmiðunarreglur við úthlutun og útreikninga.
    Tillögur starfshópsins voru þær helstar að 3. viðmiðunarstig í öllum skilgreindum fötlunarflokkum yrði fellt niður og að þyngri tilvik þessara flokka yrðu færð undir 2. viðmiðunarstig. Tillögurnar fela í sér að framlög vegna þessara einstaklinga hækka en fjármagn er í öðrum tilvikum fært undir almenn jöfnunarframlög skv. 3. gr. reglugerðar nr. 351/2002. Í öllum viðmiðunarflokkum er nú gert ráð fyrir að nemandi hafi notið þjónustu svæðisskrifstofu eða að röskun hafi leitt til vistunar á sérhæfðri greiningarstofnun.
    Þetta er fyrsta árið sem nýju viðmiðunarreglurnar eru í gildi og því ekki komin full reynsla á þær. Jafnframt skal tekið fram að framlög vegna sérþarfa fatlaðra nemenda eru einungis viðbótarframlög sem greidd eru til þeirra sveitarfélaga þar sem kostnaður vegna þjónustuþarfar við fatlaða nemendur er verulega íþyngjandi. Framlögin eru ekki eyrnamerkt einstökum nemendum. Nú nemur þetta viðbótarframlag á nemanda 1.700.000 kr. á grundvelli 1. viðmiðunarstigs reglnanna, sjá fylgiskjal, en 880.000 kr. á grundvelli 2. viðmiðunarstigs.
    Það sem af er þessu ári hafa 489 beiðnir um framlög ekki fallið undir nýjar viðmiðunarreglur Jöfnunarsjóðs samkvæmt fyrirliggjandi greiningargögnum hjá þeim sem annast greiningu á landsvísu, sbr. 4. gr. reglugerðar nr. 351/2002. Sveitarfélög hafa þó möguleika á að senda inn athugasemdir að því tilskildu að ný greiningargögn liggi fyrir.
    Fjörtíu og átta beiðnum var hafnað af þeirri ástæðu að greiningargögn voru ekki fyrirliggjandi hjá greiningaraðilum. Sveitarfélögum er gefinn kostur á að skila inn gögnum og verða þá beiðnir teknar til endurskoðunar.
    Fjórum beiðnum var hafnað vegna þess að nemendur voru komnir af grunnskólaaldri.
    Fimm beiðnum var hafnað vegna þess að nemendur áttu ekki lögheimili í sveitarfélaginu sem sótti um framlagið. Samkvæmt ákvæðum í reglugerð verður nemandinn að eiga lögheimili í því sveitarfélagi sem sækir um framlagið og hafa því viðkomandi sveitarfélög enn möguleika á að sækja um fyrir sína nemendur.
    Sjötíu og níu beiðnum var hafnað af þeirri ástæðu að upplýsingar um færni og þarfir nemandans lágu ekki fyrir hjá greiningaraðilum á landsvísu. Sveitarfélögin eiga þess kost að skila inn ítarlegri gögnum.
         Fjárhagsárið 2003 sóttu 75 sveitarfélög um framlög vegna sérþarfa fatlaðra nemenda, samtals voru þetta 1.045 beiðnir. Öllum umsóknum sjö sveitarfélaga var hafnað, samtals 23 beiðnum, en hluta beiðna 53 sveitarfélaga, eða 602 beiðnum. Nú þegar hafa 420 beiðnir verið teknar til greina.
    Öllum beiðnum eftirtalinna sjö sveitarfélaga hefur verið synjað: Kjósarhrepps, Hólmavíkurhrepps, Akrahrepps, Arnarneshrepps, Svalbarðsstrandarhrepps, Raufarhafnarhrepps og Grímsnes- og Grafningshrepps.








Fylgiskjal.



Jöfnunarsjóður sveitarfélaga:

Vinnureglur I. Viðmiðunarstig fatlana vegna greiðslna úr Jöfnunarsjóði sveitarfélaga.
(Miðað við alþjóðlega skilgreiningu á viðkomandi fötlun og að viðkomandi falli undir lög um málefni fatlaðra og sé skráður hjá Greiningarstöð, sbr. 16. gr. laga um málefni fatlaðra, nr. 49/1992 með breytingum.)

Flokkur


I.

II.

III.

IV.

V.

VI.
Hreyfihamlanir Þroskahamlanir Málhamlanir Gagntækar þroskaraskanir Skynhamlanir I Skynhamlanir II.

1

Alvarleg hreyfihömlun, bundin(n) hjólastól, háð(ur) öðrum um ferli, athafnir daglegs lífs og tjáskipti. Notkun fjölbreyttra hjálpartækja, aðlögun á húsnæði og aðstöðu, auk sérkennslu. Þörf á sérhæfðri ráðgjöf.
Hefur notið þjónustu svæðisskrifstofu.
Alvarleg þroskahömlun, mikil aðstoð í athöfnum daglegs lífs, þjálfun í daglegri færni og aðlögun, mikið eftirlit eða stýring, atferlismeðferð, auk sérkennslu. Þörf á sérhæfðri ráðgjöf.
Hefur notið þjónustu svæðisskrifstofu.
Einhverfa og ódæmigerð einhverfa, alvarleg einkenni, auk þroskahömlunar. Mikil aðstoð og eftirlit í daglegu lífi, sérhæfð einstaklingsbundin þjálfun og meðferð vegna einhverfu, mikið eftirlit utan skólastofu, auk sérkennslu. Þörf á sérhæfðri ráðgjöf.
Hefur notið þjónustu svæðisskrifstofu.
Blinda. Aðstoð við ferlismál, umferli í skóla og við ýmsar athafnir daglegs lífs. Sérhæfð sérkennsla og kennsluráðgjöf, blindraletur, umtalsverður kostnaður vegna hjálpartækja. Þörf á sérhæfðri ráðgjöf.
Hefur notið þjónustu svæðisskrifstofu.
Alvarleg heyrnarskerðing. Táknmál í samskiptum. Veruleg sérhæfð sérkennsla. Reglulegt sérfræðilegt mat á námslegri/félagslegri stöðu og ráðstafanir samkæmt því. Hjálpartæki við kennslu. Aðlögun skólaumhverfis.

2

Miðlungs hreyfihömlun, stafir eða hækjur, háar spelkur. Umtalsverð aðstoð við athafnir daglegs lífs (klæðnað, þrif) og við daglegt ferli, aðlögun á vinnuaðstöðu og húsnæði, nokkur aðstoð utan skólastofu, auk sérkennslu. Þörf á sérhæfðri ráðgjöf.
Hefur notið þjónustu svæðisskrifstofu.
Væg til miðlungsalvarleg þroskahömlun, talsverð aðstoð við margar athafnir daglegs lífs, þjálfun í félagsfærni og í aðlögunarfærni, umtalsverð stýring í hóp, atferlisvandi, aðstoð í frímínútum, auk sérkennslu. Þörf á sérhæfðri ráðgjöf.
Hefur notið þjónustu svæðisskrifstofu.
Alvarleg málhömlun, málleg greindarvísitala eins og um þroskahömlun sé að ræða (yrt greindarvísitala <70), þörf á verulegri aðstoð við félagslega aðlögun og samskipti, notkun óhefðbundinna tjáskiptaleiða, auk sérkennslu. Þörf á sérhæfðri ráðgjöf.
Hefur notið þjónustu svæðisskrifstofu.
Alvarleg einkenni á einhverfurófi, sem leiða til verulegs félagslegs stuðnings og þjálfunar í samskiptum og félagsfærni, eftirlits og stuðnings utan skólastofu, auk sérkennslu. Þörf á sérhæfðri ráðgjöf. Röskun hefur leitt til tilvísunar á sérhæfða greiningarstofnun
Hefur notið þjónustu svæðisskrifstofu.
Veruleg sjónskerðing, notkun hjálpartækja, aðlögun á húsnæði og námsumhverfi. Nokkur aðstoð við ferli. Aðlögun á námsefni vegna sjónskerðingar. Þörf á sérhæfðri ráðgjöf.
Hefur notið þjónustu svæðisskrifstofu.
Veruleg heyrnarskerðing. Heyrnartæki. Stuðningskennsla. Aðlögun skólastofu. Hjálpartæki við kennslu. Reglulegt séfræðilegt mat á námslegri/félagslegri stöðu.


Vinnureglur II. Viðmiðunarstig þroska- og geðraskana vegna greiðslna úr Jöfnunarsjóði sveitarfélaga.
(Miðað er við alþjóðlega skilgreiningu á viðkomandi röskun og að greiningargögn séu metin hjá Barna- og unglingageðdeild Landspítalans, sbr. 4. gr. A, reglugerð um jöfnunarframlög Jöfnunarsjóðs sveitarfélaga til reksturs grunnskóla, nr. 351/2002.)

Flokkur


VII.

VIII.

IX.

X.
Fjölþátta hegðunartruflun Gagntækar þroskaraskanir Geðklofi og geðhvarfasýki Verulegar truflanir er varða tilfinningar
og félagslega aðlögun
1 Viðvarandi og alvarleg einkenni geðrofs eða geðhvarfa, þörf á miklum félagslegum stuðningi í skóla, þjálfun í félagsfærni, aðstoð og eftirlit utan skólastofu. Þörf á sérhæfðri ráðgjöf. Röskunin hefur leitt til tilvísunar á sérhæfða greiningarstofnun.
2 Alvarleg ofvirkniröskun, athyglisbrestur með ofvirkni eða hegðunarröskun, ásamt fylgiröskunum, sem leiða til umfangsmikils stuðnings í hóp og einstaklingsbundinnar atferlismeðferðar, virks eftirlits utan kennslustofu, auk sérkennslu. Þörf á sérhæfðri ráðgjöf. Röskun hefur leitt til tilvísunar á sérhæfða greiningarstofnun*. Endurmat á forsendum greiðslu eftir þrjú ár. Þessi flokkur hefur verið sameinaður IV-2. Viðvarandi íþyngjandi einkenni geðrofs eða geðhvarfa, þörf á umtalsverðum félagslegum og tilfinningalegum stuðningi í skóla, þjálfun í félagsfærni, aðstoð og eftirlit utan skólastofu. Þörf á sérhæfðri ráðgjöf. Röskunin hefur leitt til tilvísunar á sérhæfða greiningarstofnun*. Alvarleg og viðvarandi íþyngjandi einkenni tilfinningaröskunar svo sem kvíða og þunglyndis, alvarlegrar áráttu- og þráhyggjuröskunar. Þörf á verulegum félagslegum og tilfinningalegum stuðningi í skóla, þjálfun í félagsfærni, aðstoð og eftirlit utan skólastofu. Þörf á sérhæfðri ráðgjöf. Röskunin hefur leitt til tilvísunar á sérhæfða greiningarstofnun*. Endurmat á forsendum greiðslu eftir þrjú ár.
* Með sérhæfðum greiningarstofnunum vegna geð- og hegðunarraskana er átt við barna- og unglingageðdeild og barnadeild FSA.