Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 255. máls.
130. löggjafarþing 2003–2004.
Þskj. 627  —  255. mál.



Nefndarálit



um frv. til l. um breyt. á l. nr. 38 15. maí 1990, um stjórn fiskveiða, með síðari breytingum.

Frá sjávarútvegsnefnd.



    Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Jón B. Jónasson og Arndísi Ármann Steinþórsdóttur frá sjávarútvegsráðuneyti, Hermann B. Haraldsson og Þorstein Mána Árnason frá Félagi dagabátaeigenda, Óskar Þór Karlsson frá Samtökum fiskvinnslu án útgerðar, Einar Kristjánsson útgerðarmann, Grétar Guðlaugsson útgerðarmann og Friðrik Arngrímsson frá Landssambandi íslenskra útvegsmanna.
    Umsagnir bárust nefndinni frá Farmanna- og fiskimannasambandi Íslands, Byggðastofnun, Rannsóknamiðstöð Íslands, Landssambandi smábátaeigenda, Sjómannasambandi Íslands, Landssambandi íslenskra útvegsmanna og Hafrannsóknastofnuninni.
    Í frumvarpinu eru lagðar til tvær breytingar. Lagt er til að andvirði svonefnds hafróafla, sem runnið hefur beint til Hafrannsóknastofnunarinnar, renni eftirleiðis í sama sjóð og gjald vegna ólögmæts sjávarafla. Þá er lagt til að heimilt verði að flytja eftirstöðvar af svonefndum þorskeldiskvóta frá fiskveiðiárinu 2002–2003 til fiskveiðiársins 2003–2004.
    Heimild til löndunar hafróafla umfram aflamark samkvæmt ákvæði XXIX til bráðabirgða í lögum um stjórn fiskveiða rennur út í lok næsta fiskveiðiárs (2004/2005) komi ekki til framlengingar af hálfu Alþingis. Nefndin mælist því til þess að ráðherra leggi fyrir nefndina á komandi haustþingi skýrslu um þau áhrif sem þessi heimild hefur haft, hversu margir hafa nýtt sér hana, hversu miklum afla hefur verið landa á grundvelli hennar o.fl. Jafnframt mælist nefndin til þess að ráðherra leggi mat á það í skýrslunni hvort ástæða sé til þess að hækka prósentuhlutfall þessarar heimildar, lækka það eða jafnvel að fella heimildina niður. Loks verði lagt mat á það hvort rétt sé að auka hlut áhafnar í verðmæti þessa afla eða breyta aðferð við ákvörðun endurgjalds til þeirra.
    Nefndin leggur til að frumvarpið verði samþykkt óbreytt.
    Jóhann Ársælsson, Jón Gunnarsson, Kristján L. Möller og Grétar Mar Jónsson skrifa undir álitið með fyrirvara. Jón Bjarnason var viðstaddur afgreiðslu málsins sem áheyrnarfulltrúi og er samþykkur áliti þessu með fyrirvara.

Alþingi, 9. des. 2003.



Kristinn H. Gunnarsson,


varaform., frsm.


Einar K. Guðfinnsson.


Guðlaugur Þór Þórðarson.



Kjartan Ólafsson.


Páll Magnússon.


Grétar Mar Jónsson,


með fyrirvara.

Jóhann Ársælsson,


með fyrirvara.


Jón Gunnarsson,


með fyrirvara.

Kristján L. Möller,


með fyrirvara.


Prentað upp.