Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 105. máls.
130. löggjafarþing 2003–2004.
Þskj. 646  —  105. mál.




Svar



fjármálaráðherra við fyrirspurn Jóhönnu Sigurðardóttur um skatttekjur og skatteftirlit vegna stofnunar einkahlutafélaga.

     1.      Hvaða breytingar hafa orðið árlega frá árinu 2001 til 2003 (áætlun) á skatttekjum ríkissjóðs annars vegar og sveitarfélaga hins vegar, á verðlagi 2003, vegna breytinga á einstaklingsrekstri yfir í einkahlutafélög?
    Með lögum nr. 133/2001 var gerð sú breyting á tekjuskattslögunum að einstaklingum í rekstri var gert kleift að uppfylltum tilteknum skilyrðum að færa rekstur sinn úr einstaklingsrekstri yfir í einkahlutafélag án þess að til skattskyldu kæmi vegna yfirfærslunnar sem slíkrar. Lögin öðluðust gildi 1. janúar 2002 og komu til framkvæmda við álagningu á árinu 2003 vegna tekna ársins 2002. Samkvæmt upplýsingum frá ríkisskattstjóra voru á árinu 2001 stofnuð 1.841 einkahlutafélag og 3.093 á árinu 2002. Ekki liggur fyrir hversu margir nýttu sér umrædda heimild til breytingar á einstaklingsrekstri í einkahlutafélag árið 2002.
    Með framangreindum lögum nr. 133/2001 voru enn fremur gerðar breytingar á ákvæðum 7. og 59. gr. þágildandi tekjuskattslaga. Með breytingunum voru ákvæði um reiknað endurgjald styrkt og kveðið nánar á um viðmið þeirra. Forsaga þeirra breytinga er sú að á undanförnum árum hafa einstaklingar í atvinnurekstri í auknum mæli valið einkahlutafélagaformið fyrir rekstur sinn. Var talið nauðsynlegt að styrkja þá framkvæmd að vinna manns í atvinnurekstri lögaðila (sameignarfélagi, hlutafélagi, samlagshlutafélagi, einkahlutafélagi o.fl.), sem hann eða fjölskylda hans á eignar- eða stjórnunaraðild að, verði skattlögð með sambærilegum hætti og vinna hans í eigin rekstri. Með þeim breytingum var reynt að koma í veg fyrir að hluthafar eða hlutareigendur í fyrirtækjum ákvarði sér laun langt undir því sem almennt getur talist eðlilegt endurgjald fyrir sambærileg störf fyrir óskylda eða ótengda aðila. Samhliða framangreindum breytingum var stöðugildum á skattstofum til að sinna eftirliti með reiknuðu endurgjaldi fjölgað.
    Í ljósi þess hve stutt er liðið frá gildistöku umræddra breytinga og þess hve margir þættir geta í raun haft áhrif á skatttekjur frá ári til árs er útilokað að meta þær breytingar sem orsakast hafa af breyttum reglum um færslu einstaklingsrekstrar yfir í einkahlutafélög.
    Meðfylgjandi tafla sýnir álagningu tekjuskatts einstaklinga til ríkissjóðs, útsvars og tekjuskatts lögaðila árin 2001, 2002 og 2003 á verðlagi ársins 2003. Fjárhæðir eru í milljónum króna.

Álagning tekjuskatts einstaklinga, millj kr.

Álagningarár 2001 2002 2003
Tekjuskattur einstaklinga 53.651 58.766 61.561
Útsvar 51.074 57.145 59.995
Tekjuskattur lögaðila 9.767 10.386 13.844


     2.      Hvert er skattalegt hagræði af breytingu á einstaklingsrekstri yfir í einkahlutafélag?

    Hagræði manna við það að færa sig úr einstaklingsrekstri yfir í einkahlutafélag fer mjög eftir aðstæðum hverju sinni enda helgast það af tekjum, eignum og ýmsum öðrum þáttum hver hin endanlega álagning verður.
    Í einstaklingsrekstri ber mönnum að reikna sér endurgjald fyrir vinnu sína í samræmi við skattmatsreglur sem gefnar er út af fjármálaráðherra, sbr. 118. gr. tekjuskattslaganna. Sömu viðmiðunarreglur gilda fyrir eigendur og stjórnendur einkahlutafélaga.
    Samkvæmt 58. gr. tekjuskattslaganna skal skattstjóri hækka endurgjald manns hafi viðkomandi fært sér til tekna lægra endurgjald en áskilið er í reglum fjármálaráðherra. Ákvörðun skattstjóra um hækkun á reiknuðu endurgjaldi manns með eigin atvinnurekstur eða sjálfstæða starfsemi má hins vegar ekki mynda tap umfram það sem nemur samanlögðum almennum fyrningum skv. 37. gr. laganna. Sambærileg regla gildir ekki fyrir eigendur eða stjórnendur einkahlutafélaga sem eru launþegar hjá félaginu.
    Í einstaklingsrekstri greiða menn, hafi þeir hagnað af rekstri sínum, tekjuskatt og útsvar af þeim hagnaði. Slíkur hagnaður sætir 38,55% skattlagningu (þ.e. 25,75% tekjuskattur + 12,80% útsvar). Fari hagnaður og tekjur upp fyrir mörk sérstaks tekjuskatts getur hlutfallið orðið allt að 43,55% af því sem umfram þau mörk fer.
    Hagnaður einkahlutafélags sætir 18% skattlagningu. Arður greiddur til hluthafa er skattlagður með 10% fjármagnstekjuskatti. Heildarskattlagning tekna einkahlutafélags og arðs hluthafa er því 26%.

     3.      Hvert er mat skattyfirvalda á því að framfylgja skatteftirliti með breytingu á einstaklingsrekstri yfir í einkahlutafélag?

    Einstaklingar í atvinnurekstri hafa á undanförnum árum, eða allt frá árinu 1995 þegar nýjar reglur um einkahlutafélög tóku gildi, í nokkrum mæli valið að flytja rekstur sinn yfir í einkahlutafélög. Skattyfirvöld hafa almennt lagt mat á slíka yfirfærslu, jafnt fyrir sem eftir breytingu á tekjuskattslögunum um yfirfærslu einstaklingsrekstrar í einkahlutafélög. Við þetta mat hefur verið litið til þess hvort yfirfærslan uppfylli ákvæði gildandi laga. Það er mat skattyfirvalda að eftirlit með þessum þætti sé nauðsynlegt en mikilvægt er að yfirfærsla eigna úr einstaklingsrekstri yfir í einkahlutafélag sé í öllum tilvikum í samræmi við gildandi reglur.