Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 383. máls.
130. löggjafarþing 2003–2004.
Þskj. 669  —  383. mál.




Svar



félagsmálaráðherra við fyrirspurn Drífu Hjartardóttur um styrki til atvinnumála kvenna.

     1.      Hver eru markmið styrkja til atvinnumála kvenna sem ráðherra veitir árlega?
    Tilgangur styrkveitinga er einkum að auka fjölbreytni í atvinnulífi, viðhalda byggð um landið, efla atvinnutækifæri á landsbyggðinni, auðvelda aðgang kvenna að fjármagni og draga úr atvinnuleysi meðal kvenna.

     2.      Hve margir styrkir hafa verið veittir árlega frá árinu 1999, hver er fjárhæð þeirra og hvernig hafa þeir dreifst eftir landshlutum?



Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.


     3.      Hvernig er styrkjunum úthlutað, hver metur umsóknir og gerir tillögur um styrkveitingar?

    Styrkirnir eru auglýstir í fjölmiðlum a.m.k. einu sinni á ári og sótt er um þá á þar til gerðum eyðublöðum. Lögð hefur verið áhersla á að greinargóð lýsing á verkefni fylgi umsóknum ásamt sundurliðaðri kostnaðaráætlun. Einnig þarf að koma fram hvort leitað hafi verið til annarra um fjárstyrk.
    Að öllu jöfnu nemur framlag af hálfu ríkisins ekki meira en 50% af heildarkostnaði við verkefnið. Óheimilt er að veita rekstrarstyrki né heldur eru veittir styrkir til verkefna sem eru í samkeppni við aðila í hliðstæðum atvinnurekstri. Við ráðstöfun fjárins hefur einkum verið tekið mið af nýsköpunarverkefnum sem þykja líkleg til að fjölga atvinnutækifærum kvenna. Er það skilyrði að verkefni séu atvinnuskapandi þar sem ekki er veittur styrkur til annarra verkefna. Þá eru ekki veittir styrkir til verkefna sem njóta greiðslna úr almannatryggingakerfinu né heldur til listiðnaðar en þó er tekið tillit til nytjalistar.
    Umsóknir eru metnar út frá verkefnum þar sem leitast er við að styrkja góðar og framsæknar hugmyndir en ekki er lögð sérstök áhersla á jöfnuð milli landshluta. Engu að síður er svæðum þar sem hlutfall atvinnulausra kvenna er hátt og fábreytni er í atvinnulífi veitt sérstök athygli.
    Félagsmálaráðherra tekur á hverjum tíma ákvarðanir um úthlutun styrkjanna. Sérstakur ráðgjafahópur metur umsóknir og gerir tillögur um styrkveitingar. Í hópnum eiga sæti fulltrúi félagsmálaráðuneytis, Vinnumálastofnunar, Byggðastofnunar, Impru – nýsköpunarmiðstöðvar og atvinnu- og jafnréttisfulltrúi Norðausturkjördæmis.
    Fulltrúar fara yfir allar umsóknir en skipta með sér verkum við nánari yfirferð og upplýsingaöflun. Síðan hittast allir fulltrúarnir til að meta endanlega framkomnar umsóknir og sameinast um tillögur til ráðherra. Þessi ráðgjafahópur setur sér sérstakar úthlutunarreglur þar sem ekki eru lög né formlegar reglur til um úthlutanir úr sjóðnum.

     4.      Hvaða eftirlit er haft með því að verkefnum sé hrundið í framkvæmd?
    Félagsmálaráðherra sendir bréf til þeirra umsækjenda sem fengið hafa samþykktan styrk þar sem fram kemur til hvaða verkefnaþátta styrkurinn er ætlaður. Vinnumálastofnun sér um útborgun styrkja og hefur eftirlit með ráðstöfun þeirra. Styrkurinn er greiddur út við afhendingu afrita reikninga sem falla að skilyrðum styrkveitingarinnar og er þar með komið í veg fyrir að greiddir séu út styrkir til verkefna sem ekkert verður af.
    Á árinu 1998 var gerð úttekt á vegum Vinnumálastofnunar á nýtingu styrkja til atvinnumála kvenna. Sú skýrsla sýnir vel viðhorf styrkþega til sjóðsins og greinir megináherslur þeirra. Hins vegar er hún ekki örugg heimild til að byggja á um framkvæmd verkefna vegna dræmrar svörunar spurningalistakönnunar þeirrar sem skýrslan byggist á.

     5.      Hafa orðið breytingar á umsóknunum og ef svo er, hverjar eru þær og telur ráðherra þörf á að breyta einnig fyrirkomulagi við mat og tillögugerð?

    Á fyrstu tveimur árum sjóðsins einkenndust styrkveitingar af átaksverkefnum á vegum ýmissa sveitarfélaga og styrkveitinga til þriggja kvennaráðgjafa sem skyldu vinna að málefnum kvenna á þremur stöðum á landinu. Næstu ár jókst hlutur einstakra kvenna í styrkveitingum og jafnframt kvennahópa. Einstök verkefni hafa verið af margvíslegum toga en framan af einkenndust þau einkum af tengingu við handverksiðnina, svo sem prjón, saum, útskurð og annað.
    Almennt hafa verkefni og umsóknir orðið umfangsmeiri, þótt enn sé nokkuð af verkefnum sem hafa þótt einkenna verkefnaval kvenna. Einnig hefur fjölgað umsóknum til verkefna sem eru af allt öðrum toga og verkefnin eru stærri og viðameiri og krefjast meira fjármagns.