Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 322. máls.
130. löggjafarþing 2003–2004.
Þskj. 678  —  322. mál.




Svar



félagsmálaráðherra við fyrirspurn Margrétar Frímannsdóttur um tekjutap sveitarfélaga.

    Fyrirspurnin hljóðar svo:
     1.      Hvert er talið heildartekjutap sveitarfélaga við breytingu á rekstrarformi fyrirtækja í einkahlutafélög?
     2.      Verður sveitarfélögum bætt tekjutapið og þá hvernig?


    Leitað var upplýsinga um málið hjá fjármálaráðuneyti.
    Ráðuneytið hefur ekki athugað hvort sveitarfélög hafi orðið fyrir tekjutapi við breytingu á rekstrarformi fyrirtækja í einkahlutafélög. Upplýsingar um fjölda einstaklinga sem fært hafa rekstur sinn yfir í einkahlutafélag og áhrif þess á útsvarsstofn eigenda liggja ekki fyrir hjá ríkisskattstjóra. Án framangreindra upplýsinga er ógerningur að meta áhrif breytts rekstrarforms á útsvarstekjur sveitarfélaga og allar tölur í því sambandi einungis ágiskanir.
    Eins og kunnugt er hefur ráðherra ákveðið að skipa nefnd sem hefur það verkefni að laga tekjustofna sveitarfélaga að væntanlegum breytingum á verkaskiptingu ríkis og sveitarfélaga og nýrri sveitarfélagaskipan. Nefndin mun væntanlega fjalla um ýmis óuppgerð ágreiningsmál ríkis og sveitarfélaga í tengslum við þá vinnu.
    Þess má geta að í nóvember 2001 skipaði Samband íslenskra sveitarfélaga starfshóp til að fjalla um og meta meinta skerðingu útsvarsstofns í kjölfar fjölgunar einkahlutafélaga frá ársbyrjun 1995. Starfshópurinn skilaði áfangaskýrslu í febrúar 2002 þar sem reynt var að nálgast líkleg efri og neðri mörk þeirra fjárhæða sem um ræðir án þess að um ótvíræða niðurstöðu væri að ræða. Ekki hefur verið farið sameiginlega yfir niðurstöður skýrslunnar af hálfu fulltrúa ríkis og sveitarfélaga. Fyrr en slík úttekt hefur farið fram er ekki unnt að fullyrða um hvort nauðsynlegt sé að bæta sveitarfélögunum þau áhrif sem umræddar lagabreytingar kunna að hafa haft á fjárhag sveitarfélaga.