Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 377. máls.
130. löggjafarþing 2003–2004.
Þskj. 730  —  377. mál.




Svar



menntamálaráðherra við fyrirspurn Jóhanns Ársælssonar um íslenskan hugbúnað.

     1.      Hvenær varð íslensk útgáfa af stýrikerfinu Windows 98, sem ríkisstjórnin samdi um við Microsoft í janúar 1999, aðgengileg almenningi og hvernig hefur notkun hennar þróast hvað varðar notendafjölda?
    Þýðingu á Windows 98 stýrikerfinu lauk í apríl árið 2000 og var hún þá aðgengileg almenningi. Ekki liggja fyrir nákvæmar upplýsingar um hvernig notkun hennar hefur þróast en samkvæmt upplýsingum frá söluaðilum var sala á íslensku útgáfunni til almennings óveruleg. Að mati söluaðila er meginástæðan fyrir lítilli notkun íslensku þýðingarinnar sú að skömmu síðar kom út ný útgáfa af stýrikerfinu sem ekki var íslenskuð.

     2.      Hvenær varð íslensk útgáfa af stýrikerfinu aðgengileg í skólum á vegum hins opinbera og hvernig hefur notkun hennar þróast þar hvað varðar notendafjölda?

    Í desember árið 1999 gerði menntamálaráðuneytið samkomulag við Microsoft um skólaleyfi (school agreement) sem felur í sér sérstök kjör fyrir skóla á hugbúnaði frá Microsoft. Valdi stór hluti íslenskra skóla að gerast aðilar að þessu samkomulagi. Íslensk útgáfa af Windows 98 stóð því skólum til boða á góðum kjörum þegar hún var gefin út í apríl árið 2000. Notkun á íslenskri útgáfu af stýrikerfinu í skólum hefur hins vegar verið óveruleg líkt og hjá almenningi.

     3.      Hvað hefur verið gert til að draga úr ólöglegri notkun hugbúnaðar og auka verndun höfundaréttar eins og samningurinn kveður á um og hvaða árangur má sjá af þeim ráðstöfunum?
    Samningur íslenska ríkisins við Microsoft fól í sér skuldbindingu um úttekt á notkun hugbúnaðar hjá ríkisstofnunum og aðgerðir til að draga úr ólöglegri notkun hans. Samningurinn fól ekki í sér skyldu til að auka verndun höfundaréttar, heldur átti samkvæmt honum að tryggja að allur hugbúnaður hjá ríkisstofnun væri löglegur og þar með yrði höfundaréttur Microsoft á eigin framleiðslu virtur. Ríkisendurskoðun gerði árið 1999 úttekt á notkun hugbúnaðar hjá stofnunum og fyrirtækjum ríkisins og skilaði skýrslu með niðurstöðum úttektarinnar í desember það ár. Í framhaldi af skýrslunni rituðu ráðuneyti stofnunum og fyrirtækjum á þeirra vegum bréf þar sem vakin var athygli á niðurstöðum úttektar Ríkisendurskoðunar og minnt á ábyrgð forstöðumanna hvað varðar löglega notkun hugbúnaðar. Ríkiskaup hafa haft milligöngu um tilboð til ríkisstofnana á hugbúnaðarleyfum og vakið athygli á nauðsyn þess að útrýma ólöglegum hugbúnaði. Um 95% íslenskra skóla hafa gert samning við Microsoft um hugbúnaðarleyfi samkvæmt skólasamningi. Hefur þar með verið stigið stórt skref í að útrýma ólöglegum hugbúnaði í skólakerfinu.

     4.      Hver er kostnaður ríkisins af samningnum, sundurliðað eftir árum, annars vegar vegna þýðingar og staðfærslu stýrikerfisins og hins vegar vegna ráðstafana sem gerðar hafa verið til að draga úr ólöglegri notkun hugbúnaðar?
    Kostnaður vegna samningaviðræðna og samningagerðar var 550.000 kr. árið 1999. Á árinu 2000 féll til kostnaður að fjárhæð 560.000 kr. vegna eftirlits með þýðingu af hálfu Íslenskrar málstöðvar og vinnhóps á hennar vegum. Ríkisendurskoðun bar kostnað af úttekt á notkun hugbúnaðar. Kaup á hugbúnaðarleyfum er á ábyrgð ríkisstofnana og fyrirtækja. Upplýsingar um kostnað vegna þessara þátta liggja ekki fyrir, enda er hann óháður kostnaði við samninginn sjálfan.