Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 431. máls.
130. löggjafarþing 2003–2004.
Þskj. 737  —  431. mál.




Svar



menntamálaráðherra við fyrirspurn Arnbjargar Sveinsdóttur um aðgerðir vegna lestrarerfiðleika.

     1.      Hvernig hefur ráðherra brugðist við úttekt ráðuneytisins frá síðasta ári á lestrarerfiðleikum í grunn- og framhaldsskólum?
    
Í október 2002 skilaði IBM (business consulting) úttekt á lestrarerfiðleikum í grunn- og framhaldsskólum, sem unnin var fyrir menntamálaráðuneytið. Markmiðið var að fá greinargóða mynd af því hvernig tekið væri á þessu vandmáli. Í úttektinni kom fram hver staðan væri og hversu vandinn væri umfangsmikill ásamt tillögum til úrbóta. Í kjölfar úttektarinnar skipaði menntamálaráðuneytið samráðsnefnd í febrúar 2003 til að endurskoða reglugerð um sérfræðiþjónustu skóla nr. 386/1996 með það að markmiði að skýra ábyrgð sveitarfélaga á þjónustu við grunnskólanemendur.
    Nefndin hefur lokið störfum og í samræmi við niðurstöður hennar gaf menntamálaráðherra út reglugerð um breytingu á reglugerð um sérfræðiþjónustu skóla nr. 386/1996. Helstu breytingarnar eru að nú ber skólum að kanna á fyrstu árum skólagöngu barna hvaða nemendur eiga í erfiðleikum með lestur og bregðast við með kerfisbundnum hætti þannig að öll börn fái nauðsynlega aðstoð við að ná viðunandi lestrarfærni. Sérfræðiþjónusta skóla skal aðstoða skólana við þetta verkefni með leiðbeiningum til kennara og gerð greiningarprófa.
    Menntamálaráðuneytið hefur eftirlit með lestrargreiningu og því hvernig skólar aðstoða nemendur með lestrarerfiðleika með því að kalla eftir upplýsingum frá sveitarfélögum á tveggja ára fresti.

     2.      Fyrir hvaða umbótum í skólum hefur ráðuneytið beitt sér á þessu sviði?
    
Menntamálaráðuneytið ákvað að eitt af auglýstum forgangssviðum Þróunarsjóðs grunnskóla fyrir yfirstandandi skólaár skyldi vera Læsi til menntunar. Auglýst var eftir umsóknum um verkefni sem fælu í sér umbætur í lestrarkennslu og lestrarþjálfun í grunnskólum og stuðningi við nemendur sem eiga við lestrarerfiðleika að stríða. Sóst var eftir verkefnum til að þróa innra skipulag kennslu til að koma til móts við mismunandi getu, áhuga og þarfir nemenda af báðum kynjum, bæði dugmikilla nemenda og þeirra sem eiga við lestrarerfiðleika að stríða. Einnig var lögð áhersla á notkun tölvu- og upplýsingatækni, samstarf kennara, hlutverk og ábyrgð umsjónarkennara og samvinnu heimila og skóla á sviði lestrarkennslu og þjálfunar. Leitað var eftir skólum til að þróa heildstæða byrjendakennslu í lestri, lestrarþjálfun í öllum námsgreinum, þróun vinnubragða í skólum til að bæta lesskilning nemenda, lestrartækni og leshraða og mat á lestri frá upphafi til loka grunnskóla. Allnokkur þróunarverkefni voru styrkt úr sjóðunum og liggur afrakstur þeirrar vinnu væntanlega fyrir um mitt næsta ár. Ráðuneytið væntir þess að unnt verði að nýta niðurstöður þróunarverkefnanna til umbóta sem víðast. Læsi til menntunar verður væntanlega einnig forgangsverkefni við úthlutun úr Þróunarsjóði grunnskóla fyrir skólaárið 2004–2005.

     3.      Hvernig hefur tekist til með lesskimun barna í upphafi skólagöngu í samræmi við aðalnámskrá grunnskóla?
    
Menntamálaráðuneytið hefur stuðlað að lesskimun í 1. og 2. bekk grunnskóla í samræmi við ákvæði aðalnámskrár grunnskóla frá 1999, m.a. með því að styrkja útgáfu á prófum sem Guðmundur B. Kristmundsson, dósent við Kennaraháskóla Íslands, og Þóra Kristinsdóttir, fyrrverandi lektor við skólann, hafa þýtt og staðfært. Ráðuneytið samdi við þau um útgáfu á prófunum og um að þau héldu fræðslufundi fyrir kennara. Haldnir voru um 30 fræðslufundir fyrir um 600 grunnskólakennara um land allt.
    Ráðuneytið samdi enn fremur við Námsgagnastofnun um dreifingu á þessum prófgögnum til skóla og hefur mikil eftirspurn verið eftir þeim. Ráðuneytið styrkti einnig gerð foreldrabæklings í tengslum við lesskimunarverkefnið og hefur honum verið dreift víða. Háskólinn á Akureyri vinnur nú að úttekt fyrir ráðuneytið á lesskimunarverkefninu. Þegar niðurstöður liggja fyrir verður væntanlega hægt að meta hvernig til hefur tekist og til hvaða aðgerða gæti þurft að grípa til að ná enn betur markmiðum aðalnámskrár á þessu sviði.

     4.      Hvaða greiningartæki hafa verið þróuð í því skyni að greina lestrarerfiðleika hjá börnum og ungmennum? Liggur fyrir mat á því hvernig greiningartækin nýtast í skólastarfi?
    
Menntamálaráðuneytið hefur styrkt höfunda greinandi ritmálsprófs fyrir hópa (GRP 14h) sem er greiningartæki fyrir 14 ára nemendur í grunnskóla, bæði með þróunarstyrkjum og styrkjum til fullvinnslu og útgáfu. Einnig hefur ráðuneytið styrkt gerð greinandi ritmálsprófs fyrir 14 ára einstaklinga (GRP 14e) sem fyrirhugað er að komi út í kjölfarið. Menntamálaráðuneytið samdi einnig við höfunda greiningartækisins HLJÓMs um veitingu styrks til að fullvinna tækið sem er ætlað að finna börn í leikskóla á aldrinum 5–6 ára sem eiga á hættu að þurfa síðar að glíma við lestrarerfiðleika.
    Styrkur menntamálaráðuneytisins er notaður til að greiða kostnað við að fullvinna greiningartækið og standa straum af hluta kostnaðar vegna námskeiða fyrir leikskólakennara um notkun þess. Leikskólar og grunnskólar hafa nýtt sér þessi greiningartæki en ekki liggur fyrir yfirlit yfir heildarnýtingu þeirra í skólastarfi, en skólum þykir fengur í að eiga kost á þessum greiningartækjum.

     5.      Hvaða ráðstafanir hefur ráðuneytið gert til úrbóta vegna lestrarerfiðleika fullorðinna?
    
Ráðuneytisstjórar félagsmála-, heilbrigðis- og tryggingamála- og menntamálaráðuneytis fjölluðu nýlega um lestrarerfiðleika fullorðinna og tóku ákvörðun um að skipa starfshóp með fulltrúum framangreindra ráðuneyta til að fjalla um þetta vandamál. Það er hlutverk hópsins að móta afstöðu ráðuneytanna í þessum málaflokki með tilliti til fyrirliggjandi skýrslu um efnið, sem nefnist „Aukin lestrarfærni fullorðinna – Tillögur um úrræði og leiðir“, sem unnin var af nefnd á vegum menntamálaráðuneytisins.
    Samráðshópurinn á einnig að fjalla um beiðni Námsflokka Reykjavíkur um styrk til að stofna námsbraut fyrir fólk með lestrarörðugleika, sem barst forsætisráðuneytinu fyrr á þessu ári. Þess er vænst að nefndin geri tillögur til úrbóta sem framangreind ráðuneyti geti sameinast um að hrinda í framkvæmd.
    Loks má geta þess að á formennskuári Íslendinga í norrænu ráðherranefndinni 2004 hefur ráðgjafanefnd ráðherranefndarinnar um skólasamstarf (NSS) ákveðið að gera umræðunni um læsi hátt undir höfði með það að markmiði að Norðurlöndin skerpi áherslur sínar í þessu efni. Nokkrar alþjóðlegar rannsóknir hafa verið gerðar á síðustu árum og hafa Íslendingar forgöngu um að fram fari umræða um lestrarfærni og niðurstöður þessara rannsókna á norrænum vettvangi.