Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 436. máls.
130. löggjafarþing 2003–2004.
Þskj. 738  —  436. mál.




Svar



sjávarútvegsráðherra við fyrirspurn Össurar Skarphéðinssonar um rannsóknir og veiðar á háfum.

    Leitað var svara hjá Hafrannsóknastofnuninni.

     1.      Hvaða tegundir háfa eru einkum taldar nýtanlegar hér við land, hvar veiðast þær helst og hvenær árs?
    
Eina smáháfstegund af ættbálki gadd- eða stingháfa, Squaliformes, sem stundaðar hafa verið veiðar á hér er háfur, Squalus acanthias, sem veiðist á grunnsævi. Auk hans kæmi hugsanlega til greina að veiða djúpháfana gljáháf, Centroscymnus coelolepis, og rauðháf, Centrophorus squamosus, auk svartháfs, Centroscyllium fabricii, dökkháfs, Etmopterus princeps, og þorsteinsháfs, Centroscymnus crepidater. Háfurinn S. acanthias veiðist mest undan Suðurlandi og Suðvesturlandi, einkum í júní til nóvember. Djúpháfarnir veiðast helst sem aukaafli við botnvörpuveiðar á Reykjaneshrygg en þeir hafa aldrei verið hirtir sérstaklega.

     2.      Hvaða rannsóknir hafa verið gerðar á framangreindum tegundum, hvenær hófust þær og hvaða athuganir eru nú í gangi? Óskað er eftir almennum upplýsingum um lífshætti og líffræði þeirra tegunda sem taldar eru nýtanlegar, en jafnframt er spurt hvort einhverjir þættir í lífsháttum þeirra, svo sem göngur eða þjöppun á tilteknum árstímum, geri háfana auðveiddari þá en endranær.
    
Í leiðöngrum á djúpslóð á vegum Hafrannsóknastofnunarinnar allt frá árinu 1975 voru þeir djúpháfar sem veiddust mældir og kyngreindir. Almennar upplýsingar um lífshætti og líffræði framangreindra tegunda eru á minnisblaði Gunnars Jónssonar fiskifræðings (sjá fylgiskjal).

     3.      Liggur fyrir mat, eða vísir að mati, á stofnstærð og veiðiþoli einhverra framangreindra tegunda?
    
Nei.

     4.      Hvaða aðferðum er einkum beitt til að veiða þær hér á landi? Er öðrum aðferðum beitt við veiðar svipaðra tegunda annars staðar?
    
Undanfarin ár hefur háfur, S. acanthias, m.a. verið veiddur í net undan Suður- og Vesturlandi. Einnig hefur hann fengist sem aukaafli í botnvörpu, dragnót og á línu. Hann veiðist á svipaðan hátt annars staðar í Norðaustur-Atlantshafi.

     5.      Hvar eru helstu markaðir fyrir íslenska háffiska og hvaða afurðir eru það sem einkum eru fluttar út?
    
Helstu markaðir fyrir háf sem veiðst hefur á Íslandsmiðum eru á Bretlandseyjum (Grimsby) og þar hefur hann verið unninn til útflutnings til annarra landa, m.a. Þýskalands.
     6.      Hve mikill er skráður háffiskaafli á ári sl. 10 ár og hvar barst hann einkum á land?
    Skráður háfsafli árin 1993–2002 er eftirfarandi:

Ár 1993 1994 1995 1996 1997 1998 1999 2000 2001 2002
Tonn 109 97 166 157 106 78 57 109 136 276

     7.      Hafa verið gerðar mælingar á magni þrávirkra lífrænna efna og þungmálma í þeim tegundum háfa sem teljast vænlegastar til markaðssetningar? Óskað er eftir upplýsingum um grófar niðurstöður ef svo er. Ef svarið er neikvætt, telur þá ráðuneytið að einhverjir þættir í líffræði nýtanlegra tegunda, svo sem ævilengd og fæðuhættir, séu þess eðlis að nauðsynlegt sé að ráðast í slíkar mælingar eigi að freista aukinnar markaðssetningar á þeim?
    
Samkvæmt upplýsingum frá Guðjóni Atla Auðunssyni hjá Rannsóknastofnun fiskiðnaðarins hafa ekki verið gerðar gerðar mælingar á magni þrávirkra lífrænna efna og þungmálma í framangreindum tegundum. Ef freista á aukinnar markaðssetningar á þessum tegundum þarf slíkt að gerast. Til eru tvær mælingar á kvikasilfri í háfi frá 1994 og bentu þær til þess að styrkur sé lítill og vel undir mörkum fyrir kvikasilfur í matvælum (0,5 mg/kg).

     8.      Telur ráðuneytið líklegt að þróa mætti veiðar á háffiskum þannig að þær stæðu undir sér og ykju framleiðslu í sjávarútvegi? Óskað er eftir ítarlegum rökstuðningi.
    
Hugsanlega. E.t.v. er unnt að gera sér meiri mat úr háfnum, S. acanthias, en ekki virðist vera mikil eftirspurn eftir djúpháfunum til manneldis. Þeim hefur m.a. verið breytt í mjöl og stundum er lifrin í tísku til lýsisgerðar. Það gæti því verið ráðlegt að hirða fyrst þá djúpháfa sem veiðast sem meðafli og reyna að koma þeim í verð áður en farið verður að veiða þá á skipulegan hátt og ef svo verður í framtíðinni er algert skilyrði að vel verði fylgst með þeim veiðum því háfar eru hægvaxta tegundir, viðkoma er lítil og þeir því viðkvæmir fyrir ofveiði.


              
Fylgiskjal.

Gunnar Jónsson,
Hafrannsóknastofnuninni:


MINNISBLAÐ
Almennar upplýsingar um lífshætti háfs, Squalus acanthias.
(17. desember 2003.)

    Háfurinn er botnfiskur á leirbotni á landgrunninu og í hlíðum landgrunnshallans. Hann heldur sig mest á 10–200 metra dýpi í 7–15°C heitum sjó. Þegar kólnar á veturna fer hann sennilega niður á meira dýpi en 200 metra en hann hefur fundist allt niður á 950 metra dýpi. Í nóvember árið 2000 varð háfs vart á 200–250 m dýpi í kantinum suður af Selvogsbanka og í nóvember og desember sama ár var hann að þvælast upp á Selvogsbankagrunninu. Hann þolir seltulítinn strandsjó en forðast ferskvatn. Háfurinn er góður sundfiskur og flækist víða um og oftast í torfum. Hingað til lands hafa gengið háfar merktir við Noreg og Norður- Ameríku. Háfar hafa ekki verið merktir hér við land.
    Við Ísland finnst háfurinn allt í kringum landið en hann er þó mun sjaldséðari við norðanvert land og Austfirði en í hlýja sjónum sunnan og suðvestan lands.
    Háfurinn er gráðugur fiskur og étur allt sem að kjafti kemur. Má nefna þorsk, ýsu, lýsu, spærling, síld og loðnu en einnig krabbadýr, burstaorma og skrápdýr. sjálfur verður hann stærri fiskum að bráð eins og stórum háfiskum, stórum beinfiskum en einnig selum og háhyrningi.
    Háfurinn gýtur ungum sem eru 22–33 cm langir og eru þeir venjulega 4–6 en stundum fleiri. Hér við land eru gotstöðvar sennilega á djúpmiðum undan Suður- og Vesturlandi. Ungar gætu klakist hér allt árið um kring með hámarki að sumri. Rannsóknir frá Kanada gefa til kynna að egg séu frjóvguð á tímabilinu febrúar til júlí. Meðgöngutími er 18-24 mánuðir. Hængar geta orðið kynþroska 50–70 cm en hrygnur 70–100 cm og 10–20 ára. Vöxtur er hægur og verða hrygnur stærri og eldri en hængar. Aldur er unnt að ákvarða út frá vaxtarhringjum í aftari bakuggagaddi og virðist háfurinn geta náð a.m.k. 35–40 ára aldri og jafnvel orðið miklu eldri.
    Það eru einkum Frakkar, Írar, Skotar og Norðmenn sem veiða háf í Norðaustur-Atlantshafi og eru helstu veiðisvæði við Noreg, í Norðursjó, norðan Skotlands og við Írland, í Norðvestur-Atlantshafi hafa Bandaríkjamenn og Kanadamenn veitt háf.
    Áður fyrr var háfurinn veiddur vegna lifrarinnar en núna er hann víða étinn og kemur á markað undir ýmsum dulnefnum, svo sem hafáll, kóngaáll og Schiller-lokkur en það eru reykt þunnildi.
    Djúpháfategundirnar svartháfur, dökkháfur og þorsteinsháfur, sem ná allt að 90 cm lengd (algeng stærð í afla er 50–80 cm), svo og gljáháfur og rauðháfur sem geta orðið meira en 120 cm langir (80–120 cm í afla), finnast hér á djúpmiðum frá Suðausturlandi vestur með landinu um Reykjaneshryggjarsvæðið og allt norður undir 66°N. Þessar tegundir eru algengastar á um 600–1.200 m dýpi.