Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 331. máls.
130. löggjafarþing 2003–2004.
Þskj. 744  —  331. mál.




Svar



fjármálaráðherra við fyrirspurn Ásgeirs Friðgeirssonar um fjarskiptakostnað ráðuneyta og ríkisfyrirtækja.

     1.      Hve mikill er árlegur fjarskiptakostnaður
                  a.      ráðuneyta,
                  b.      ríkisfyrirtækja og ríkisstofnana?

    Fjarskiptakostnaður ráðuneyta árið 2002 nam 115,2 millj. kr. og ríkisstofnana í A-hluta 1.240,4 millj. kr. Samtals nam því fjarskiptakostnaður ráðuneyta og ríkisstofnana í A-hluta 1.355,6 millj. kr. árið 2002. Kostnaður við kaup og leigu á símabúnaði og kaup á varahlutum nemur þar af um 163,7 millj. kr. Við mat á fjarskiptakostnaði var litið til eftirfarandi tegundaliða í bókhaldi ríkisins:
          Varahlutir v/fjarskiptabúnaðar og fiskileitartækja.
          Síma- og afnotagjöld af línum.
          Afnotagjöld af skrám og tölvupóstsþjónusta.
          Leiga á síma- og fjarskiptatækjum.
          Síma- og fjarskiptabúnaður.
    Ekki liggja fyrir miðlægar upplýsingar um fjarskiptakostnað ríkisfyrirtækja og stofnana í B-, C-, D- og E-hluta.

     2.      Hefur árangur útboða ríkisfyrirtækja á fjarskiptaþjónustu verið kannaður? Ef svo er, hver hefur hann verið?
    Árangur útboða ríkisfyrirtækja á fjarskiptakostnaði hefur ekki verið kannaður sérstaklega.

     3.      Eru uppi áform um frekari útboð á fjarskiptaþjónustu ráðuneyta og ríkisfyrirtækja?
    Fjarskiptaþjónusta ráðuneyta og ríkisfyrirtækja er ekki útboðsskyld samkvæmt lögum um opinber innkaup, nr. 94/2001. Skv. c-lið 5. mgr. 4. gr. laganna eru kaup á talsíma-, telex-, þráðlausri síma-, boðkerfis- og gervihnattaþjónustu ekki talin til vöru-, þjónustu- eða verksamninga og því undanþegin útboðsskyldu.
    Fjármálaráðuneytið er þó sífellt að kanna leiðir sem fara megi til að spara í ríkisrekstri og er fjarskiptaþjónusta þar ekki undanskilin. Ráðuneytið hefur óskað eftir að Ríkiskaup skilgreini þá þætti fjarskiptaþjónustu sem hentað gætu til útboðs, hvaða kröfur eigi að gera og mögulegan ávinning af slíku útboði. Við þessa vinnu þarf að tryggja að raunveruleg samkeppni og jafnræði ríki milli bjóðenda ef til útboðs kæmi. Ljóst er að þarfir hinna ýmsu stofnana ríkisins eru ólíkar og er því nauðsynlegt að skilgreina þá þætti sem til greina kæmi að leita tilboða í.