Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 408. máls.
130. löggjafarþing 2003–2004.
Þskj. 753  —  408. mál.




Svar



landbúnaðarráðherra við fyrirspurn Önundar S. Björnssonar og Össurar Skarphéðinssonar um hrossaliti.

     1.      Eru einhverjir íslensku hrossalitanna í hættu að mati sérfræðinga landbúnaðarráðuneytisins?
    Af þeim litum sem eru skýrt skilgreindir má telja að litförótt sé í ákveðinni hættu. Áætlað er að innan við 1% folalda sem fæðast árlega beri þennan lit. Liturinn stafar af einum ríkjandi erfðavísi og getur því ekki dulist.

     2.      Hvaða ráðstafanir hafa verið gerðar til að tryggja að sjaldgæfir hrossalitir tapist ekki?
    Fyrir fjórum árum beitti fagráð í hrossarækt sér fyrir átaki til fjölgunar litföróttum hrossum með því að setja fé (úr stofnverndarsjóði) í sérstakan verðlaunasjóð litföróttra hrossa. Tilgangurinn er að stuðla að því að sem allra flest litförótt hross komi til kynbótadóms með það að markmiði að koma upp eftirsóknarverðum litföróttum stóðhestum. Segja má að mikil vakning hafi orðið meðal hrossaræktenda um þennan lit og vitað er um ógelta hesta sem munu koma til kynbótadóms nú á næsta vori sem rekja má beint til þessa átaks. Of snemmt er að segja hver árangurinn verður.

     3.      Er áformað að auka fjárveitingar til rannsókna og verndar fágætum litum í íslenska hestastofninum?
    Stofnverndarsjóður veitti sl. haust styrk til söfnunar gagna um svonefnda glóliti en þar gæti verið um að ræða sérstakan litaflokk sem er afbrigði af eða hliðstætt við leirljóst. Á þessu stigi er ekki ljóst hversu fágætir þeir litir eru og raunar óvíst hvort tilgátan um þennan litaflokk er rétt.