Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 552. máls.
130. löggjafarþing 2003–2004.
Þskj. 830  —  552. mál.




Frumvarp til laga



um breytingu á lögum nr. 18/1984, um Þjónustu- og endurhæfingarstöð sjónskertra, með síðari breytingu.

(Lagt fyrir Alþingi á 130. löggjafarþingi 2003–2004.)



1. gr.

    Á eftir orðinu „sjónskerta“ í 1. mgr. 4. gr. laganna kemur: sem sjúkratryggðir eru samkvæmt lögum um almannatryggingar.

2. gr.

    2. mgr. 5. gr. laganna orðast svo:
    Ráðherra skal setja reglugerð um þátttöku ríkisins í kostnaði við sérhæfð hjálpartæki fyrir sjónskerta að höfðu samráði við stofnunina.

3. gr.

    6. gr. laganna orðast svo:
    Sjúkratryggður einstaklingur samkvæmt lögum um almannatryggingar skal greiða gjald fyrir sérfræðilæknisþjónustu og rannsóknir samkvæmt ákvæðum laga um almannatryggingar og reglum settum með stoð í þeim lögum.
    Einstaklingur sem ekki er sjúkratryggður hér á landi skal greiða gjald samkvæmt gjaldskrá sem ráðherra setur.

4. gr.

    11. gr. laganna orðast svo:
    Ráðherra er heimilt að setja reglugerð um nánari framkvæmd laga þessara.

5. gr.

    Lög þessi öðlast þegar gildi.

Athugasemdir við lagafrumvarp þetta.


    Frumvarp þetta er samið í heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytinu í samvinnu við yfirlækni Þjónustu- og endurhæfingarstöðvar sjónskertra. Það felur í sér breytingar á 4., 5., 6. og 11. gr. laga nr. 18/1984, um Þjónustu- og endurhæfingarstöð sjónskertra. Megintilgangur frumvarpsins er að samræma ákvæði laganna kröfum sem gerðar eru í 77. gr. stjórnarskrárinnar, sbr. 15. gr. stjórnarskipunarlaga, nr. 97/1995, að því er varðar gjaldtöku og veita ráðherra heimild til að setja reglugerð um nánari framkvæmd laganna.
    Í 1. gr. frumvarpsins er tekið fram að stofnunin annist þjónustu við sjónskerta sem sjúkratryggðir eru samkvæmt lögum um almannatryggingar og er það til samræmis við það sem gildir um sambærilega heilbrigðisþjónustu samkvæmt öðrum lögum hér á landi.
    Í 2. gr. frumvarpsins er orðalag 2. mgr. 5. gr. laganna gert skýrara að því er varðar þátttöku ríkisins í kostnaði við sérhæfð hjálpartæki fyrir sjónskerta. Ekki er um efnislega breytingu að ræða.
    Í 3. gr. frumvarpsins er 6. gr. laganna gerð skýrari að því er varðar gjaldtöku fyrir sérfræðilæknisþjónustu og rannsóknir. Kveðið er skýrar á um að einstaklingur sem er sjúkratryggður samkvæmt lögum um almannatryggingar skuli greiða gjald samkvæmt ákvæðum þeirra laga. Er talið rétt að sömu skilyrði gildi um þjónustu stofnunarinnar og um aðra heilbrigðisþjónustu. Þá er gert ráð fyrir að þeir sem ekki eru sjúkratryggðir hér á landi greiði gjald fyrir þjónustu stofnunarinnar samkvæmt gjaldskrá ráðherra og gildir þá sama regla og um aðra heilbrigðisþjónustu þeirra sem ekki eru sjúkratryggðir hér á landi.
    Í 4. gr. frumvarpsins er það nýmæli að ráðherra hafi heimild til að setja reglugerð um nánari framkvæmd laganna en fellt er brott ákvæði um að ráðherra setji stofnuninni starfsreglur, enda hefur það ekki verið nýtt.



Fylgiskjal.

Fjármálaráðuneyti,
fjárlagaskrifstofa:


Umsögn um frumvarp til laga um breytingu á lögum nr. 18/1984,
um Þjónustu- og endurhæfingarstöð sjónskertra, með síðari breytingum.

    Framvarpið gerir m.a. ráð fyrir að ráðherra setji reglugerð um þátttöku ríkisins í kostnaði við sérhæfð hjálpartæki fyrir sjónskerta að höfðu samráði við þjónustu- og endurhæfingarstöðvar sjónskertra. Enn fremur gerir frumvarpið ráð fyrir að sjúkratryggður einstaklingur greiði gjald fyrir sérfræðilæknisþjónustu og rannsóknir samkvæmt ákvæðum laga um almannatryggingar og settum reglum með stoð í þeim lögum. Þá kveður frumvarpið á um að einstaklingur sem ekki er sjúkratryggður hér á landi skuli greiða gjald samkvæmt gjaldskrá sem ráðherra setur.
    Frumvarpinu er fyrst og fremst ætlað að styrkja lagastoð gjaldtökuákvæða og gerir hvorki ráð fyrir nýjum gjaldtökum né útgjöldum fyrir ríkissjóð.