Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 553. máls.
130. löggjafarþing 2003–2004.
Þskj. 831  —  553. mál.




Tillaga til þingsályktunar



um könnun leiða til að stytta þjóðveg eitt.

Flm.: Ásta R. Jóhannesdóttir, Einar Már Sigurðarson, Jóhann Ársælsson.



    Alþingi ályktar að fela samgönguráðherra að skipa þriggja manna nefnd til að gera úttekt á hvernig megi stytta og bæta leiðir á þjóðvegi eitt og aðalvegum sem tengja byggðir landsins við þann veg.
    Nefndin skili tillögum sínum fyrir 1. september 2004.

Greinargerð.


    Mikilvægi góðra vegasamgangna fyrir eflingu og vöxt byggðar eykst stöðugt. Aðdráttarafl einstakra byggðarlaga ræðst að nokkru leyti af því hvernig vegamálum er háttað. Það skiptir því miklu að akstursleiðir séu öruggar og vel færar allan ársins hring og sem allra stystar.
    Flutningsmenn leggja því til að samgönguráðherra verði falið að skipa nefnd til að kanna leiðir til að bæta og stytta þjóðveg eitt. Nefndin geri samanburð á mismunandi leiðum sem færar eru til að stytta vegalengdir á milli einstakra staða eftir þjóðvegi eitt og meti hagkvæmni þeirra með tilliti til umferðaröryggis, vegalengda, vetraraksturs, kostnaðar og annarra þátta sem nefndin telur mikilvæga í slíku mati.
    Á undanförnum árum hefur nokkuð verið unnið að því að bæta þjóðveg eitt en ekki liggur fyrir heildstætt mat þar sem gerður er samanburður á kostum sem velja má á milli til að bæta hann og stytta. Slíkt heildarmat gæti nýst sem stjórntæki fyrir Alþingi og aðra þá sem sinna vegamálum.