Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 558. máls.
130. löggjafarþing 2003–2004.
Þskj. 904  —  558. mál.




Svar



landbúnaðarráðherra við fyrirspurn Dagnýjar Jónsdóttur um úreldingu sauðfjársláturhúsa.

     1.      Stóðust þær áætlanir sem gengið var út frá um úreldingu sauðfjársláturhúsa sl. haust?
    Já, í stórum dráttum gengu þær áætlanir eftir. Þegar hefur verið gengið frá úreldingu fimm sauðfjársláturhúsa og ein umsókn er í vinnslu. Í þessum sex sláturhúsum var ekki slátrað sl. haust. Auk þessa er umsókn um úreldingu á einu sauðfjársláturhúsi sem fyrirhuguð er að fram fari eftir næsta haust.

     2.      Lækkaði fastur og breytilegur kostnaður við rekstur sauðfjársláturhúsa sl. haust vegna fækkunar þeirra? Ef svo er, skilaði sá heildarsparnaður sér í hærra afurðaverði til bænda?
    Rekstraruppgjör sauðfjársláturhúsa frá sl. ári liggja ekki fyrir, en uppgjör þeirra munu væntanlega verða kynnt á næstu vikum. Samkvæmt upplýsingum forsvarsmanna þeirra liggur þó fyrir að umtalsverður sparnaður hefur orðið á breytilegum kostnaði og þá einkum föstum einingakostnaði. Ekki liggja fyrir upplýsingar um hvort fækkun sauðfjársláturhúsa hefur orðið til þess að heildarsparnaður hefur skilað sér í hærra afurðaverði til bænda. En slíkur sparnaður ætti að skila sér til lengri tíma litið.

     3.      Hefur flutningur á sláturfé um langan veg áhrif á gæði kindakjöts?
    Engin vísindaleg athugun hefur farið fram hér á landi um það hvort flutningur á sláturfé um langan veg hefur áhrif á gæði kindakjöts. Á vegum yfirkjötsmatsins er hins vegar nú unnið að athugun á streitu hjá sláturfé, m.a. af völdum flutnings, og áhrif hennar á kjötgæði. Á vegum landbúnaðarráðuneytisins og yfirdýralæknis er hafin vinna við heildarúttekt á málum þessum, m.a. með tilliti til þess hversu flutningaleiðir hafa lengst með fækkun sláturhúsa og vegna tilkomu afkastameiri flutningatækja.