Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 634. máls.
130. löggjafarþing 2003–2004.
Þskj. 948  —  634. mál.




Frumvarp til laga



um breytingu á lögum um dýravernd, nr. 15/1994, með síðari breytingum.

Flm.: Sigurjón Þórðarson, Anna Kristín Gunnarsdóttir.



1. gr.

    3. mgr. 12. gr. laganna orðast svo:
    Umhverfisráðherra setur í reglugerð nánari fyrirmæli um leyfisveitingar skv. 1. og 2. mgr., þar á meðal að leyfi megi binda þeim skilyrðum sem nauðsynleg þykja til að tryggja góða meðferð dýranna, svo sem aðbúnað þeirra, umhirðu, viðhlítandi vistarverur, fjölda starfsmanna og eftirlit með starfseminni. Undanþegnar eru sýningar samkvæmt búfjárræktarlögum.

2. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 18. gr. laganna:
     a.      3. mgr. orðast svo:
                  Sé um minni háttar brot að ræða getur Umhverfisstofnun áminnt eiganda eða umsjónarmann dýranna og lagt fyrir hann að bæta úr innan tiltekins tíma. Láti eigandi eða umsjónarmaður ekki skipast við tilmæli Umhverfisstofnunar getur stofnunin látið vinna úrbætur á hans kostnað.
     b.      Við bætist ný málsgrein sem verður 8. mgr. og orðast svo:
                  Umhverfisstofnun getur svipt rekstraraðila rekstrarleyfi skv. 12. gr. ef um alvarleg eða endurtekin brot gegn ákvæðum laga þessara er að ræða.

3. gr.

    Lög þessi öðlast þegar gildi.

Greinargerð.


    Breytingarnar miða að því að auka heimild Umhverfisstofnunar til þess að beita sér fyrir endurbótum á dýrahaldi í atvinnuskyni, þar sem misbrestur hefur orðið á starfseminni.
    Í úrskurði umhverfisráðuneytisins sem kveðinn var upp 20. nóvember 2003 var niðurstaðan að Umhverfisstofnun hefði ekki heimild til að gera kröfu um fjölda starfsmanna þar sem fram fer dýrahald í atvinnuskyni. Það er þó nauðsynlegt og frumforsenda þess að unnt sé að tryggja góða umhirðu og meðferð dýra. Þess vegna er lagt til að bætt verði inn í 12. gr. laga um dýravernd ákvæði sem mælir fyrir um að ráðherra setji í reglugerð nánari fyrirmæli um fjölda starfsmanna þar sem slík atvinnustarfsemi fer fram.
    Samkvæmt 3. mgr. 18. gr. laganna getur Umhverfisstofnun beitt þeirri stjórnvaldsþvingun að krefjast þess af eiganda eða umsjónarmanni dýra að hann bæti úr þeim þáttum sem ekki samræmast ákvæðum laganna. Ekki er minnst á áminningu í ákvæðinu og er lagt til að stofnunin geti áminnt sem og krafist tiltekinna úrbóta. Er það í samræmi við þvingunarúrræði annarra laga sem stofnunin starfar eftir.
    Ekki er í gildandi lögum að finna skýra heimild til að svipta eiganda eða umsjónarmann dýra því rekstrarleyfi sem Umhverfisstofnun veitir skv. 12. gr. laganna. Heimildarsvipting skv. 5. mgr. 18. gr. laganna, sem og 20. gr., þjónar ekki sama tilgangi. Nauðsynlegt er að slíka heimild sé að finna í lögum.