Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 314. máls.
130. löggjafarþing 2003–2004.
Þskj. 960  —  314. mál.




Nefndarálit



um frv. til l. um breyt. á l. um Lánasjóð íslenskra námsmanna, nr. 21/1992, með síðari breytingum.

Frá menntamálanefnd.



    Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Val Árnason frá menntamálaráðuneyti. Athugasemd við málið barst frá Baldri Andréssyni.
    Frumvarpinu er ætlað að bregðast við þeirri niðurstöðu Eftirlitsstofnunar EFTA að 3. og 4. mgr. 13. gr. laga um Lánasjóð íslenskra námsmanna, nr. 21/1992, brjóti gegn skuldbindingum Íslands samkvæmt samningnum um Evrópska efnahagssvæðið. Stofnunin skoðaði ákvæði laganna sérstaklega vegna álits umboðsmanns Alþingis í máli nr. 3042/2000 varðandi rétt námsmanns frá Finnlandi til láns úr Lánasjóði íslenska námsmanna, en viðkomandi hafði upphaflega verið synjað um námslán úr sjóðnum þrátt fyrir að hann hefði verið búsettur hér á landi frá árinu 1993. Með hliðsjón af niðurstöðu ESA er því lagt til í frumvarpinu að réttur íslenskra ríkisborgara og annarra íbúa á Evrópska efnahagssvæðinu til námslána verði samræmdur. Gert er ráð fyrir að texti 3. mgr. 13. gr. gildandi laga verði felldur brott, en í honum er að finna eftirtalin skilyrði fyrir námslánarétti sem ekki samrýmast skuldbindingum Íslands samkvæmt samningnum um Evrópska efnahagssvæðið:
     a.      ríkisborgari EES-ríkis skuli hafa starfað í fimm ár á Evrópska efnahagssvæðinu;
     b.      slíkur ríkisborgari EES-ríkis skuli vera launamaður, þ.e. ekki sjálfstætt starfandi;
     c.      slíkur ríkisborgari EES-ríkis skuli fortakslaust stunda starfstengt nám;
     d.      maki slíks ríkisborgara EES-ríkis skuli stunda starfstengt nám;
     e.      börn slíks ríkisborgara EES-ríkis skuli fortakslaust vera yngri en 21 árs;
     f.      börn slíks ríkisborgara EES-ríkis skuli stunda starfstengt nám.
    Þess í stað er lagt til að lögfest verði málsgrein með tilvísun í aðrar réttarheimildir er tæma réttarstöðu ríkisborgara EES-ríkja er starfa hérlendis hvað varðar námslánarétt.
    Jafnframt er það gert að skilyrði samkvæmt frumvarpinu að lánþegi, hvort sem hann er íslenskur eða ríkisborgari annars ríkis á Evrópska efnahagssvæðinu, hafi haft fasta búsetu á Íslandi í tvö ár samfellt eða haft fasta búsetu hér á landi í þrjú ár af síðustu tíu árum fyrir upphaf þess tímabils sem sótt er um námslán fyrir og ákvæði gildandi laga sem áskilur lögheimili um eins árs skeið áður en nám hefst fellt brott.
    Nefndin leggur til að frumvarpið verði samþykkt óbreytt.
    Mörður Árnason og Valdimar L. Friðriksson voru fjarverandi við afgreiðslu málsins.

Alþingi, 25. febr. 2004.



Gunnar Birgisson,


form., frsm.


Björgvin G. Sigurðsson.


Dagný Jónsdóttir.



Kjartan Ólafsson.


Atli Gíslason.


Sigurður Kári Kristjánsson.



Hjálmar Árnason.