Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 502. máls.
130. löggjafarþing 2003–2004.
Þskj. 1023  —  502. mál.




Svar



umhverfisráðherra við fyrirspurn Kolbrúnar Halldórsdóttur um notkun hættulegra efna við virkjunarframkvæmdir við Kárahnjúka.

     1.      Hvaða eiturefni og önnur hættuleg efni, t.d. sprengiefni og bergþéttiefni, eru notuð við virkjunarframkvæmdir við Kárahnjúka?
    Samkvæmt lögum nr. 52/1988, um eiturefni og hættuleg efni, með síðari breytingum, er innflutningur og notkun á slíkum efnum óheimill nema í samræmi við viðeigandi ákvæði laga og reglugerða er varða m.a. meðhöndlun (notkun), takmarkanir og merkingar. Markmið laganna er að eiturefni og hættuleg efni séu notuð með gát og varúð þannig að hvorki hljótist af tjón á mönnum eða dýrum né að matvæli eða umhverfi mengist af efnunum. Í reglugerð nr. 236/1990, um flokkun, merkingu og meðferð eiturefna, hættulegra efna og vörutegunda, sem innihalda slík efni, með síðari breytingum, er listi yfir þau efni sem falla undir ákvæði laganna.
    Eiturefni mega þeir einir nota sem til þess hafa sérstök leyfi, sbr. reglugerð nr. 39/1984, um útgáfu og afgreiðslu eiturbeiðna og annarra tilsvarandi leyfa. Um sölu og innflutning eiturefna í smásölu gilda einnig ákveðnar reglur. Ógjörningur er að telja upp þau efni sem hér gætu fallið undir en notkun þeirra er öll bundin leyfum og undir ströngu eftirliti. Um notkun bergþéttiefna hefur Heilbrigðiseftirlit Austurlands fengið upplýsingar frá verktökum sem málið varðar og samkvæmt þeim eru notuð eftirtalin bergþéttiefni, þ.e. íblöndunarefni í steypu:
Verktaki Efni
Impregilo Sika AER
Sika Visco Crete–3060 IS
Sikunit–L53/P AF (IS)
BM-Vallá Meyco SA162
Arnarfell Mapefluid N100
Mapeplast PT1
    Aðallega er um að ræða álsiliköt og lútkennd efni (NaOH og KOH). Framangreind efni geta verið skaðleg heilsu manna og ber því að meðhöndla þau samkvæmt leiðbeiningum Vinnueftirlits ríkisins. Sum efnanna geta haft einhver áhrif á lífverur í vatni, berist þau óblönduð í það. Við geymslu ber að taka tillit til þessa. Eftir að efnin hafa bundist steypunni (steypan harðnað) eru efnin ekki líkleg til þess að leka út í umhverfið. Því er ekki talið að efnin séu líkleg til þess að leiða til mengunar í íslenskri náttúru, sé leiðbeiningum um meðhöndlun þeirra fylgt.
    Vinnueftirlit ríkisins hefur eftirlit með meðferð eiturefna og hættulegra efna og með vörutegundum sem innihalda slík efni á vinnustöðum. Eftirlit Vinnueftirlitsins beinist einkum að öryggi starfsmanna við vinnu en ekki að áhrifum efnanna á umhverfið. Vinnueftirlitið hefur þannig eftirlit með notkun eiturefna og hættulegra efna á vinnustöðum að því er snertir heilsu og öryggi starfsmanna. Eftirlit Vinnueftirlitsins, m.a. með geymslu efna og í mörgum tilvikum einnig notkun þeirra, snertir einnig örugga meðferð þeirra fyrir umhverfi en að öðru leyti er sá þáttur undir eftirliti Umhverfisstofnunar og/eða heilbrigðiseftirlits sveitarfélaga.
    Vinnueftirlitið hefur einnig eftirlit með sprengiefnum. Notkun sprengiefna fellur undir vopnalög, nr. 16/1998, sbr. 2. gr., en dómsmálaráðherra fer með yfirstjórn þeirra mála. Samkvæmt upplýsingum sem ráðuneytið hefur aflað eru eftirtalin sprengiefni notuð:
    ANFO-sprengiefni af gerð B (UN 0331) undir tveimur söluheitum, Anolit og Dekamon, frá tveimur framleiðendum. Yfir 90% þeirra er ammóníumnítrat (kjarni) og afgangurinn er hráolía. Í einhverjum tilvikum er álflögum blandað í sprengiefnið til að auka sprengikraftinn. ANFO-sprengiefni er yfirleitt flutt í sekkjum og sett laust í borholur. Efnið hefur takmarkað vatnsþol. ANFO-sprengiefni hefur hættusetningarnar *: Eldfimt í snertingu við brennanleg efni. Sprengifimt við upphitun í lokuðu rými.
     * Hættusetningarnar eru samkvæmt reglugerð nr. 236/1990, með síðari breytingum, um flokkun, merkingu og meðferð eiturefna, hættulegra efna og vörutegunda sem innihalda slík efni. Upplýsingarnar eru úr öryggisleiðbeiningum sem skylt er að fylgi eiturefnum og hættulegum efnum þegar þau eru notuð á vinnustöðum.
    Hlaupkennt ammóníumnítratsprengiefni af gerð A (UN 0081) með söluheitinu Gelamon. Sprengiefnið inniheldur auk ammóníumnítrats m.a. etýlenglýkóldínítrat og dínítrótólúen (DNT). Því er pakkað í pappírs- og plastumbúðir sem ekki á að rjúfa. Starfsmenn eiga því ekki að komast í snertingu við efnið og það á ekki að geta lekið út í umhverfið við venjulega notkun. Uppgufun á DNT getur átt sér stað í geymslum og er því þörf á loftræstingu í þeim.
    Dýnamít, sprengiefni af gerð A (UN 0081), með söluheitin Dynomit og DynoRex. Dýnamít er vatnsþolið. Því er pakkað í plasthúðaðan pappír eða plast og umbúðir eru ekki rofnar við hleðslu. Grunnurinn í Dynomit er nítróglýserín og nítrósellulósi en er síðan að stærstum hluta ammóníumnítrat. Grunnurinn í DynoRex er nítróglyserín og nítróglýkól, ásamt örlitlu af nítrósellulósa, og er síðan að stærstum hluta ammóníumnítrat.
    Til viðbótar skal þess getið að auk sjálfra sprengiefnanna eru við sprengingarnar notaðir sprengiþræðir, hvellhettur o.fl. sem flokkast sem hættuleg efni eða hlutir. Allur sprengifimur varningur er sérstaklega viðurkenndur og CE-merktur og er geymdur í viðurkenndum sprengiefnageymslum. Innflutningur er háður leyfi ríkislögreglustjóra.
    Ekkert sérstakt bergþéttiefni hefur verið notað við jarðgangagerðina, nema í steypuna. Í steypuna sem notuð er til styrkingar og þéttingar hafa verið notuð mismunandi íblöndunarefni með söluheitin Meyco SA 162, Mapefluid N 100, Mapeplast PT 1, Sigunit–L53/P AFSIKA AER og SIKA ViscoCrete–3060). Meyco SA 162 inniheldur aluminíumsúlfat og er eina íblöndunarefnið sem er merkingarskylt. Ákvæði laga nr. 52/1988, um eiturefni og hættuleg efni, eiga við um þessi merki, sem og reglugerð nr. 236/1990. Efnið merkist sem ertandi (Xi) samkvæmt reglugerðinni og hefur hættusetninguna: Hætta á alvarlegum augnskaða. Í tækniupplýsingum um Sigunit–L53/P AF kemur fram að ekki skuli láta efnið berast í vatn eða jarðveg. Samkvæmt tækniupplýsingunum er efnið ekki merkingarskylt sem eiturefni eða hættulegt efni.

     2.      Hvaða rannsóknir hafa farið fram á mögulegum áhrifum þeirra efna á umhverfið, t.d. á grunnvatn?

    Í reglugerð nr. 236/1990, um flokkun, merkingu og meðferð eiturefna, hættulegra efna og vörutegunda, sem innihalda slík efni, með síðari breytingum, er listi yfir þau efni sem falla undir ákvæði laganna. Þar eru tilgreind möguleg skaðleg áhrif, t.d. eftirfarandi hættumerkingar:
H 50 Mjög eitrað vatnalífverum.
H 51 Eitrað vatnalífverum.
H 52 Skaðlegt vatnalífverum.
H 53 Getur haft skaðleg langtímaáhrif á lífríki í vatni.
H 54 Eitrað plöntum.
H 55 Eitrað dýrum.
H 56 Eitrað lífverum í jarðvegi.
H 58 Getur valdið skaðlegum langtímaáhrifum í umhverfinu.
H 59 Hættulegt ósonlaginu.
    Framangreindar merkingar byggjast á víðtækum rannsóknum sem er miðlað milli ríkja, m.a. í samstarfi Evrópuríkja, sbr. samninginn um Evrópska efnahagssvæðið. Notkun efnanna á vinnustöðum og við framkvæmdir er á ábyrgð leyfishafa og eftirlit með notkun þeirra er hjá Vinnueftirlitinu.

     3.      Hvernig er háttað eftirliti með flutningi og meðferð sprengiefnis á virkjunarsvæðinu?

    Samkvæmt reglugerð nr. 984/2000, um flutning á hættulegum farmi, skal farið eftir svonefndum ADR-reglum. Í reglunum er kveðið á um flokkun efna, umbúðir, merkingu ökutækja, nauðsynlegan fylgibúnað, samlestun efna, réttindi ökumanna, viðbúnað og eftirlit með flutningi. Samkvæmt framangreindri reglugerð skal lögreglan hafa eftirlit með að stjórnandi ökutækis sem flytur hættulegan farm hafi meðferðis vottorð um starfsþjálfun og Vinnueftirlit ríkisins hefur eftirlit með að fyrirtæki sem flytja hættulegan farm hafi í sinni þjónustu ökumenn með gilt vottorð um starfsþjálfun.
    Samkvæmt upplýsingum frá félagsmálaráðuneytinu er öll meðferð sprengiefna á ábyrgð sprengistjóra sem þarf að hafa leyfi sýslumanns, að fenginni umsögn Vinnueftirlits ríkisins, til að fara með sprengiefni og annast sprengivinnu. Vinnueftirlit ríkisins og lögregla hefur eftirlit með að sprengivinna fari fram undir stjórn sprengistjóra með gild réttindi. Sérstakar kröfur eru gerðar varðandi sprengiefnageymslur, m.a. um 5 mm stál og sérstakan lásabúnað, og eru geymslurnar teknar út fyrir notkun af Vinnueftirlitinu. Staðsetning færanlegra sprengiefnageymslna er háð samþykki sýslumanns. Farið er reglulega yfir birgðabókhald og sprengiplön af Vinnueftirlitinu.
    Flutningur á sprengiefni frá sprengiefngeymslu á sprengistað er á ábyrgð sprengistjóra og fellur eftirlit með því undir Vinnueftirlit ríkisins. Sérstök ákvæði eru í sprengiefnareglugerð um flutningstæki og magn við flutninga. Flutningur á milli svæða fellur undir reglugerð um flutning á hættulegum farmi og hefur lögreglan eftirlit með slíkum flutningum. Í slíkum tilvikum eru gerðar strangari kröfur um flutningstæki og bílstjórar verða að hafa sérstök réttindi, þ.e. ADR-grunnréttindi fyrir flutning á hættulegum farmi að viðbættum réttindum til að flytja sprengifiman farm.