Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 665. máls.
130. löggjafarþing 2003–2004.
Þskj. 1131  —  665. mál.




Svar



sjávarútvegsráðherra við fyrirspurn Jóhönnu Sigurðardóttur, Helga Hjörvars og Valdimars L. Friðrikssonar um aðgerðir til að ná fram jafnrétti kynjanna.

    Fyrirspurnin hljóðar svo:
     Hvernig hefur sjávarútvegsráðuneytið hrundið í framkvæmd aðgerðum til að ná fram jafnrétti kynjanna, sbr. 11. tölul. III. kafla þingsályktunar um framkvæmdaáætlun til fjögurra ára um aðgerðir til að ná fram jafnrétti kynjanna sem samþykkt var á Alþingi 28. maí 1998? Óskað er eftir að gerð verði grein fyrir hverju verkefni fyrir sig og hve miklu fé hefur verið varið til aðgerðanna.

    Eins og fram kemur í skýrslu félagsmálaráðherra um stöðu framkvæmdaáætlunar ríkisstjórnarinnar til að ná fram jafnrétti kynjanna á 127. löggjafarþingi (þskj. 1290, 732. mál) er staða verkefna sjávarútvegsráðuneytisins í jafnréttismálum með eftirgreindum hætti. Auk þess er í svari þessu tilgreindur kostnaður og þær breytingar sem orðið hafa á stöðu verkefnanna síðan skýrslunni var dreift á Alþingi:

1.     Konur í fiskvinnslu.
     Skipuð verður nefnd til að safna upplýsingum um stöðu fiskvinnslunnar að því er varðar atvinnumöguleika kvenna og áhrif nýrrar tækni á atvinnugreinina og þá atvinnumöguleika. Nefndinni verður falið að afla upplýsinga um menntun þeirra kvenna sem þar starfa, félagslega stöðu þeirra o.fl. þannig að hægt sé að meta möguleika þeirra til starfsþjálfunar og endurmenntunar.
    Nefndin var skipuð í október 2000. Ráðinn var starfsmaður við framangreinda upplýsingaöflun og lagði hann spurningalista fyrir fiskvinnslukonur víða um landið. Nefndin lauk störfum í apríl 2002 og skilaði skýrslu með niðurstöðum könnunarinnar. Kostnaður við könnunina nam alls um 750.000 kr.

2.     Konur og atvinnurekstur í sjávarútvegi.
     Kannað verður hvort og þá á hvaða sviðum sjávarútvegs konur hafa haslað sér völl sem sjálfstæðir atvinnurekendur. Aðgengi kvenna að fyrirgreiðslu í formi styrkja eða lána verði sérstaklega kannað. Leiði könnunin í ljós sérstök sóknarfæri fyrir konur í þessum atvinnurekstri skal styrkja þau sérstaklega. Á sama hátt verður gripið til sértækra aðgerða ef könnunin leiðir í ljós mismunun sem skýra má með kynferði.
    Ráðuneytið ákvað, í samráði við Jafnréttisstofu, að breyta þessu verkefni þannig að tvö ný verkefni um konur og atvinnurekstur í sjávarútvegi verða sett fram í nýrri framkvæmdaáætlun áranna 2004–2008.

3.     Sérstaða sjómanna og fjölskylduaðstæður.
     Könnuð verða áhrif langvarandi fjarvista og einangrunar á fjölskyldulíf sjómanna.
    Ráðuneytið réð fræðimenn sem rannsakað hafa félagsfræði sjávarútvegs til að undirbúa framangreinda könnun á áhrifum langvarandi fjarvista og einangrunar á fölskyldulíf sjómanna. Könnunin fólst í því að kanna hvaða efni og rannsóknir sem komið gætu að gagni væru þegar til, og í gerð rannsóknaáætlunar. Í ljós kom að auk þess sem allnokkrar rannsóknir á þessu sviði hefðu þegar verið gerðar, bæði hérlendis og erlendis, var áætlaður kostnaður við rannsóknina 4,8 millj. kr. (1999). Það varð niðurstaða ráðuneytisins að miðað við þá viðbótarþekkingu sem fengist með framangreindri rannsókn væri því fé betur varið til annarra jafnréttisverkefna og var sú ákvörðun tekin í samráði við Jafnréttisstofu að verkefnið yrði ekki tekið upp í næstu framkvæmdaáætlun. Kostnaður við undirbúningskönnunina nam 500.000 kr.

4.     Átak til að auka hlut kvenna í nefndum og ráðum á vegum ráðuneytisins.
     Þegar skipað er í ráð og nefndir á vegum ráðuneytisins skal taka mið af jafnréttissjónarmiðum og kalla til fólk af báðum kynjum eftir því sem kostur er.
    Þegar óskað er eftir tilnefningum í nefndir, ráð og starfshópa á vegum ráðuneytisins er óskað eftir tilnefningum af báðum kynjum. Vísað er til ákvæðis 20. gr. laga nr. 96 22. maí 2000 þar sem segir að í nefndum, ráðum og stjórnum á vegum ríkis og sveitarfélaga skuli, þar sem því verði við komið, sitja sem næst jafnmargar konur og karlar. Verkefnið er unnið innan ráðuneytisins og er kostnaður þar af leiðandi ekki tilgreindur sérstaklega.

5.     Jafnréttisnefnd ráðuneytisins og stofnana þess.
     Kanna skal stöðu jafnréttismála í ráðuneytinu og stofnunum þess og gera áætlun um hvernig rétta skuli hlut kynjanna. Verði það m.a. gert með markvissri fræðslu yfirmanna og annarra starfsmanna.
    Skipaður hefur verið jafnréttisfulltrúi úr hópi starfsmanna sem hefur farið yfir stöðu jafnréttismála innan ráðuneytisins og fundað með forstöðumönnum stofnana þess. Stofnanir ráðuneytisins hafa einnig skipað jafnréttisfulltrúa eða -nefndir úr hópi sinna starfsmanna. Unnin hefur verið jafnréttisáætlun sem birt er á heimasíðu ráðuneytisins á netinu. Fulltrúar ráðuneytisins í nefndum og starfshópum eru jöfnum höndum karlar og konur, eftir menntun og verkefnasviði hverju sinni. Verkefnið er unnið innan ráðuneytisins og er kostnaður þar af leiðandi ekki tilgreindur sérstaklega.

6.     Starfsfræðslunefnd fiskvinnslunnar.
    Starfsfræðslunefnd fiskvinnslunnar starfar á vegum sjávarútvegsráðuneytisins. Nefndin stendur fyrir víðtæku fræðslustarfi fyrir ófaglært starfsfólk í fiskvinnslu, fiskeldi og mjölvinnslu. Um er að ræða tíu 4 klst. námskeið eða alls 40 klst. og öðlast starfsfólk nýtt starfsheiti og launahækkun að lokinni þátttöku í öllum námskeiðunum. Konur eru í miklum meiri hluta í þessum störfum í fiskvinnslunni og er ljóst að skipulögð menntun af þessu tagi gefur þeim aukna möguleika á að taka að sér ábyrgðarmeiri og betur launuð störf innan greinarinnar. Kostnaður við verkefnið nemur um 10–12 millj. kr. á ári.

7.     Skólaskip.
    Ráðuneytið hefur unnið að því að kynna sjávarútveg fyrir grunnskólanemendum með rekstri skólaskips, en undanfarin ár hefur hafrannsóknaskipið Dröfn verið rekið í 50–60 daga á ári sem skólaskip. Börnum í 9. og 10. bekk grunnskóla hefur boðist að fara í siglingu með skipinu. Í þeirri siglingu er atvinnugreinin kynnt fyrir börnunum, bæði hvað varðar veiðar, vinnslu, rannsóknir o.fl. og hefur eftirspurn með ferðum þessum verið meiri en hægt hefur verið að anna. Hér er tvímælalaust um jafnréttismál að ræða þar sem verkefni af þessu tagi er ætlað að örva á ungmenni til að mennta sig til þátttöku í störfum tengdum sjávarútvegi, ekki síst stúlkur. Kostnaður við rekstur skólaskipsins nemur 11–12 millj. kr. á ári.