Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 756. máls.
130. löggjafarþing 2003–2004.
Þskj. 1132  —  756. mál.




Tillaga til þingsályktunar



um úttekt á framkvæmd stjórnsýslulaga.

Frá allsherjarnefnd.



    Alþingi ályktar að fela forsætisráðherra að skipa nefnd til að gera úttekt á því hvernig til hefur tekist með framkvæmd stjórnsýslulaga, nr. 37/1993, með síðari breytingum, frá því að þau tóku gildi 1. janúar 1994. Um leið verði metið hvort auka þurfi fræðslu innan stjórnsýslunnar og eftir atvikum gerðar tillögur þar að lútandi. Úttektin verði lögð fyrir Alþingi eigi síðar en 1. desember 2004.

Greinargerð.


    Hinn 1. janúar 1994 tóku stjórnsýslulög, nr. 37/1993, gildi. Með þeim voru áður óskráðar grundvallarreglur stjórnsýsluréttarins lögfestar og jafnframt settar málsmeðferðarreglur innan stjórnsýslunnar. Gerðar hafa verið margvíslegar breytingar á lögunum, en helsta markmið þeirra hefur ávallt verið það að réttaröryggi manna í samskiptum þeirra við stjórnvöld sé tryggt.
    Í skýrslu umboðsmanns Alþingis fyrir árið 2002 hvetur umboðsmaður til þess, þegar tíu ár verða liðin frá setningu laganna, að hugað verði að því hvernig til hefur tekist með framkvæmd þeirra. Ástæða er til að fylgja hvatningu umboðsmanns eftir með athöfnum og er lagt til að forsætisráðuneytið hafi umsjón með úttekt um þetta efni.
    Í skýrslum umboðsmanns hafa komið fram ábendingar um að sums staðar í stjórnsýslunni gangi enn of hægt að færa stjórnsýsluframkvæmd til samræmis við ákvæði laganna, en þess má geta að reglur laganna fjalla um þær lágmarkskröfur sem stjórnsýslunni ber að uppfylla. Ábendingar hafa einnig komið fram um að einfaldar aðgerðir, t.d. endurskoðun vinnuferla og aukin fræðsla starfsfólks, geti stuðlað að vandaðri og skilvirkari stjórnsýsluháttum. Auk þess að treysta réttaröryggi borgaranna mundi skilvirkari stjórnsýsla spara ríki og borgurum tíma og fjármuni.
    Áður en stjórnsýslulögin tóku gildi var hugað sérstaklega vel að kynningu á efnisreglum laganna með útgáfu kynningarefnis og námskeiðahaldi. Í ljósi þess hve langur tími er liðinn frá því átaki sem gert var til undirbúnings gildistökunni, og þar sem traust þekking innan stjórnsýslunnar hlýtur að teljast forsenda fyrir farsælli framkvæmd laganna, er lagt til að jafnframt verði hugað að því hvort þörf sé á aukinni fræðslu innan stjórnsýslunnar. Umboðsmaður Alþingis hefur reifað hugmyndir um lágmarksfræðslu fyrir nýtt starfsfólk og jafnframt bent á mikilvægi skipulegrar endurmenntunar. Æskilegt er að almenn þörf fyrir slíka fræðslu verði metin, með skilvirkni og vandaða stjórnsýslu að leiðarljósi.
    Lagt er til að úttektinni verði lokið 1. desember á þessu ári.