Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 605. máls.
130. löggjafarþing 2003–2004.
Þskj. 1162  —  605. mál.




Svar



samgönguráðherra við fyrirspurn Einars Más Sigurðarsonar um skipurit og verkefni Vegagerðarinnar.

     1.      Hvaða verkefni er fyrirhugað að flytja út á land í tengslum við breytingar á skipuriti Vegagerðarinnar?
    Nýtt skipurit Vegagerðarinnar tók formlega gildi með staðfestingu samgönguráðherra 1. mars 2004. Með nýju skipulagi er stefnt að því að laga Vegagerðina að breyttum ytri aðstæðum og gera hana þannig hæfari til að takast á við ný verkefni og nýja tíma.
    Ýmsar breytingar hafa orðið á ytra umhverfi Vegagerðarinnar undanfarin ár. Þar má nefna breytingu á kjördæmaskipan landsins og ný lög um samgönguáætlun sem marka ramma fyrir aukið samstarf og samvinnu við aðrar stofnanir á samgöngusviði. Sveitarfélög hafa sameinast og þar með hefur fækkað viðskiptaaðilum á því stjórnsýslustigi.
    Útboð verka er fyrir löngu orðin meginregla í nýframkvæmdum Vegagerðarinnar og það sama má segja að verulegu leyti um viðhaldsverk. Útboð á ráðgjafaþjónustu hafa farið vaxandi og eiga eftir að aukast. Rekstur og þjónusta á vegakerfinu er hins vegar enn aðeins í litlum mæli boðin út, að vetrarþjónustu undanskilinni.
    Þær breytingar sem nú eru gerðar miða að því að aðlaga starfsemina að breyttu umhverfi, einingar eru stækkaðar og lögð áhersla á samræmingu með stöðluðu vinnulagi innan stofnunarinnar. Þá er horft til aukinnar skilvirkni og þar með bættrar nýtingar fjármuna til vegagerðar. Verkefni miðstöðvar, sem snúa að stjórnsýslu, gerð staðla og verklýsinga, eru afmörkuð skýrar en áður. Nokkrir þættir þeirrar starfsemi eru fluttir í stöðvar úti á landi. Starfsemi eininga utan miðstöðvar er breytt og betur dregið fram það meginhlutverk að byggja, halda við og reka vegakerfið.
    Engar uppsagnir verða við þessar breytingar en verkefni eru færð til og ný verkefni flutt út á land. Mannahald á öllum starfsstöðvum er að mestu óbreytt en nýir stjórnunarhættir gefa færi á frekari flutningi verkefna úr miðstöð í Reykjavík út á landsbyggðina.

Miðstöð.
    Í miðstöð stjórnunar í Reykjavík eru sem áður þrjú svið. Nafni tæknisviðs er breytt í framkvæmdasvið. Nokkrar breytingar eru gerðar á verkefnum sviða sem hafa í för með sér tilfærslu deilda. Tvær nýjar deildir eru myndaðar, starfsmannadeild og umferðardeild.

Svæðaskipting.
    Í nýju skipulagi er landinu skipt í fjögur svæði sem að mestu fylgja núgildandi kjördæmamörkum. Svæðum verður stjórnað af svæðisstjóra sem hefur aðsetur í svæðismiðstöð.
    Á Selfossi er svæðismiðstöð fyrir Suðursvæði. Þjónustustöðvar eru á Selfossi, í Vík og á Höfn. Sú síðastnefnda verður þó með stjórnun frá Reyðarfirði.
    Suðvestursvæði nær yfir höfuðborgarsvæðið og Suðurnes. Svæðismiðstöð er í Reykjavík og þjónustustöð í Hafnarfirði.
    Svæðismiðstöð fyrir Norðvestursvæði er í Borgarnesi. Þar verður yfirumsjón með áætlunum og hönnunarkaupum á svæðinu og einnig viðhaldi og þjónustu. Umdæmisstjóri á Ísafirði hefur yfirumsjón með nýframkvæmdum á svæðinu. Umdæmisstjóri á Sauðárkróki mun stjórna árangurs- og eftirlitsverkefnum á landsvísu. Í því felst samræming útboða og eftirlit með nýbyggingar-, viðhalds-, og þjónustuverkefnum. Einnig umsjón með skilamati, árangursmælingar og gerð áætlana um umferðaröryggisaðgerðir. Þjónustustöðvar eru eftirtaldar eins og verið hefur: Borgarnes, Ólafsvík, Búðardalur, Patreksfjörður, Ísafjörður, Hólmavík, Hvammstangi og Sauðárkrókur.
    Svæðismiðstöð fyrir Norðaustursvæði er á Akureyri. Þar verður yfirumsjón með áætlunum og hönnunarkaupum á svæðinu og einnig nýframkvæmdum. Umdæmisstjóri á Reyðarfirði hefur yfirumsjón með viðhaldi og þjónustu á svæðinu. Á Akureyri verður öflug hönnunardeild sem starfar á landsvísu. Þjónustustöðvar eru eftirtaldar eins og verið hefur: Akureyri, Húsavík, Þórshöfn, Vopnafjörður, Fellabær, Reyðarfjörður. Þjónustustöð á Höfn er stjórnað frá Reyðarfirði þótt hún tilheyri Suðursvæði.

     2.      Hvernig skiptast þessi verkefni milli starfsstöðva Vegagerðarinnar?
    Verkefni þau sem hér um ræðir eru upplýsingaþjónusta á Ísafirði, eftirlit og árangursmat á Sauðárkróki og veghönnun á Akureyri. Auk þess eru ýmis verkefni, sem áður var sinnt á Sauðárkróki, flutt til Borgarness og Ísafjarðar.