Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 580. máls.
130. löggjafarþing 2003–2004.
Þskj. 1187  —  580. mál.




Svar



menntamálaráðherra við fyrirspurn Katrínar Júlíusdóttur um námslán fyrir skólagjöldum í íslenskum háskólum.

     1.      Hve há eru árleg útlán Lánasjóðs íslenskra námsmanna vegna skólagjalda í íslenskum háskólum og hvert er hlutfall þeirra af heildarlánum til nemenda við hérlenda háskóla sem taka skólagjöld?
    Í úthlutunarreglum LÍN er heimilað að veita viðbótarlán vegna skólagjalda til framhaldsháskólanáms erlendis og til sérnáms, almenns háskólanáms og framhaldsháskólanáms á Íslandi. Einungis er veitt lán vegna árlegra skólagjalda umfram 32.500 kr. og er þá veitt lán fyrir umframupphæðinni. Dæmi:

Árleg skólagjöld + 50.000 kr.
Sjálfsfjármögnun – 32.500 kr.
Veitt lán = 17.500 kr.

    Eftirfarandi er tafla yfir veitt skólagjöld á tveimur skólaárum, 2001–2002 og 2002–2003:


Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.


     2.      Hver er kostnaður sjóðsins við þessi lán og hversu mikið er talið verða endurgreitt samkvæmt núgildandi reglum sjóðsins?
    Miðað við núgildandi reglur má gera ráð fyrir að kostnaður LÍN vegna affalla og niðurgreiðslu útlánavaxta sé um 45–50% skólagjaldalána og þar með að lántakendur endurgreiði að meðaltali um 50–55% lánanna.

     3.      Hver er talin verða árleg útgjaldaaukning sjóðsins ef tekin verða upp skólagjöld í háskólum sem hið opinbera rekur, miðað við nemendafjöldann námsárið 2003–2004, ef skólagjöldin verða:
                  a.      sambærileg við skólagjöld í háskólum sem eru sjálfseignarstofnanir,
                  b.      300 þús. kr.,
                  c.      500 þús. kr.,
                  d.      700 þús. kr.,
                  e.      1 millj. kr.?

    Ef skólagjöld væru tekin upp í ríkisreknum háskólum á Íslandi má gera ráð fyrir eftirgreindri útlánaaukningu hjá LÍN miðað við nemendafjölda skólaárið 2003–2004, ef skólagjöld á ári væru:
a. 200 þús. kr. 1.060 millj. kr.
b. 300 þús. kr. 1.850 millj. kr.
c. 500 þús. kr. 3.760 millj. kr.
d. 700 þús. kr. 6.140 millj. kr.
e. 1 millj. kr. 10.570 millj. kr.

    Með tilkomu skólagjalda má gera ráð fyrir að skráðum nemendum fækki. Eftir því sem þau eru hærri má á hinn bóginn gera ráð fyrir að lánþegum fjölgi þar sem einungis hluti nemenda í fullu námi sækir í dag um námslán. Í framangreindri áætlun er gert ráð fyrir að lánþegum fjölgi um 10% fyrir hverja 100 þús. kr. hækkun skólagjalda umfram 100 þús. kr.

     4.      Hversu mikill yrði kostnaður sjóðsins af slíkri útgjaldaaukningu, hversu mikið er talið mundu verða endurgreitt og á hve löngum tíma?
    Að meðaltali má gera ráð fyrir að endurgreiðsluhlutfall námslána verði allt að 35–40%, í stað 50–55% áður, og að meðalendurgreiðslutíminn allt að tvöfaldist, en hann er nú áætlaður 18–20 ár frá útborgun láns. Meðallán mun hækka umtalsvert þrátt fyrir fjölgun lánþega (með hlutfallslega lág lán). Til lengri tíma litið má síðan vænta þess að almenn hækkun skólagjalda á Íslandi og aukin skuldsetning nemenda ýti undir hækkun launa að námi loknu. Afleiðingin væri þá aukning árlegra afborgana (þar sem þær eru tekjutengdar) og minni lækkun endurgreiðsluhlutfallsins en ella.