Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 781. máls.
130. löggjafarþing 2003–2004.
Þskj. 1192  —  781. mál.




Tillaga til þingsályktunar



um reglur um kynjahlutföll.

Flm.: Atli Gíslason.



    Alþingi ályktar að fela forsætisráðherra að skipa nefnd sem móti reglur um kynjahlutföll við ráðningu forstöðumanna ríkisstofnana, ráðuneyta og ríkishlutafélaga og við skipan í nefndir og ráð á vegum sömu aðila. Nefndin geri enn fremur tillögur um sambærilegar reglur hjá sveitarfélögum. Þá gefi nefndin álit á því hvort rétt sé að setja lög um kynjahlutföll við val og röðun frambjóðenda stjórnmálaflokka til Alþingis og sveitarstjórna. Í nefndina verði meðal annars skipaðir fulltrúar allra þingflokka.
    Nefndin skili tillögum fyrir 1. janúar 2005.

Greinargerð.


    Í skýrslu nefndar um efnahagsleg völd kvenna, sem unnin var fyrir forsætisráðuneytið og kom út í febrúar 2004, segir að þar sem karlar beri meira úr býtum og stýri frekar fyrirtækjum en konur séu áhrif þeirra yfir efnislegum gæðum meiri en kvenna. Meginniðurstaða launakönnunar sem nefndin lét gera var að konur hefðu 72% af launum karla fyrir jafnlangan vinnudag. Í skýrslunni kemur jafnframt fram að forstöðumenn ríkisstofnana og ráðuneyta eru langflestir karlar, eða um 80%. Einnig að fáar konur sitja í opinberum úthlutunarnefndum sem veita fé til uppbyggingar íslensks atvinnulífs og konur fá lítinn hluta þess fjármagns sem veitt er úr opinberum sjóðum til styrktar atvinnuuppbyggingu. Þá kemur fram í skýrslunni að karlar eru um 70% þeirra sem sitja í nefndum á vegum hins opinbera. Þessar staðreyndir eru gamalgrónar og hefur lagasetning ekki dugað til og skilað þeim árangri sem stefnt var að, til að mynda með jafnréttislögum. Jafnréttissinnar hafa því í auknum mæli beint sjónum sínum að stjórnvaldstækjum til að vinna á rótgrónum stöðumun kynjanna.
    Norsk stjórnvöld eru vel á veg komin að ná fram því markmiði að a.m.k. 40% stjórnenda hjá hinu opinbera verði konur. Fyrir tveimur árum setti norska ríkisstjórnin, undir forsæti Kjell Magne Bondevik, fram kröfu um kynjakvóta við stöðuveitingar hjá norska ríkinu. Árangurinn lét ekki á sér standa og hefur hlutfall kvenna í stjórnunarstöðum hækkað um meira en 6% á tveimur árum. Nú er staðan sú í Noregi að 33,9% af 9.000 stjórnendum hjá hinu opinbera eru konur og norska ríkisstjórnin gerir ráð fyrir að markmið hennar um 40% lágmarkshlutfall kvenna náist fyrir sumarið 2006. Forsætisráðherra Noregs gerði grein fyrir þessum árangri á baráttudegi kvenna hinn 8. mars sl. Hlutfall norskra kvenna í stjórnum fyrirtækja er hins vegar enn mjög lágt, aðeins 9%.
    Okkur Íslendingum hefur miðað of skammt áleiðis við að jafna stöðu kvenna og er brýnt að grípa til raunhæfra aðgerða. Með virkum stjórnvaldstækjum er unnt að stuðla að jafnrétti kynjanna og auka áhrif kvenna á stjórn ríkis, sveitarfélaga og fyrirtækja öllum til hagsbóta. Það hefur norska ríkisstjórnin staðreynt. Engin ástæða er til að ætla að viðlíka árangri verði ekki náð á Íslandi með reglum um kynjahlutföll. Reglur um kynjahlutföll hjá ríki og sveitarfélögum gefa auk þess fordæmi fyrir almenna vinnumarkaðinn og auka líkur á því að hlutur kvenna sem stjórnenda í einkarekstri vaxi.
    Í tillögu þessari er einnig gert ráð fyrir að nefndin gefi álit sitt á því hvort rétt sé að binda í lög ákvæði um kynjahlutföll við val og röðun frambjóðenda stjórnmálaflokka til Alþingis og sveitarstjórna. Stjórnmálaflokkar hafa almennt ekki sett sér slíkar reglur og það er staðreynd að hlutur kvenna á Alþingi og í sveitarstjórnum er mun minni en æskilegt er og hefur fremur farið minnkandi en hitt við síðustu kosningar. Er afar brýnt að hlutur kvenna verði réttur þannig að hugmyndir þeirra og reynsla fái að njóta sín við ákvarðanatöku sem varðar sveitarfélög og þjóðina alla.
    Í samningi Sameinuðu þjóðanna um afnám allrar mismununar gegn konum er kveðið á um að hvers kyns mismunun gagnvart konum brjóti í bága við grundvallarreglur um jafnrétti og virðingu fyrir manngildi. Slík mismunun hindrar þátttöku kvenna á jafnréttisgrundvelli í stjórnmála-, félags-, efnahags- og menningarlífi. Það eru mannréttindi að sjónarmið, reynsla og þarfir bæði kvenna og karla séu höfð að leiðarljósi við alla stefnumörkun og ákvarðanatöku stjórnvalda. Það er einnig beinlínis til þess fallið að viðvarandi launamunur kynjanna minnki. Konum er í dag mismunað hvað varðar stöðuveitingar og við skipanir í nefndir og ráð. Tillaga þessi er sett fram í þeim tilgangi að vinna gegn þessari mismunun.