Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 521. máls.
130. löggjafarþing 2003–2004.
Þskj. 1234  —  521. mál.




Svar



heilbrigðisráðherra við fyrirspurn Ásgeirs Friðgeirssonar um fjárveitingar til rannsóknastofnana.

    Fyrirspurnin hljóðar svo:
    Hversu mikið fé var veitt úr opinberum sjóðum á vegum heilbrigðisráðuneytis til vísinda, rannsókna og þróunarstarfs eftirtalinna stofnana árin 2001, 2002 og 2003 og úr hvaða sjóðum rann féð, hver ákvað fjárveitingarnar og á hvaða forsendum:
    Landspítala – háskólasjúkrahúss,
    Blóðbankans,
    Krabbameinsmiðstöðvar Landspítala – háskólasjúkrahúss,
    Rannsóknastofu í næringarfræði,
    Rannsóknastofnunar Landspítala – háskólasjúkrahúss,
    Rannsóknastofu í öldrunarfræðum,
    Fjórðungssjúkrahússins á Akureyri,
    Geislavarna ríkisins,
    Heyrnar- og talmeinastöðvar Íslands,
    Lýðheilsustöðvar, áður manneldisráðs?



Landspítali – háskólasjúkrahús.
    Árið 2001 voru veittar 15.000.000 kr. úr vísindasjóði Landspítala og rannsóknarstofu Háskóla Íslands.
    Einungis var veitt úr vísindasjóði Landspítala og rannsóknarstofu Háskóla Íslands þetta eina ár. Fyrir sameiningu Landspítala og Sjúkrahúss Reykjavíkur voru til tilsvarandi sjóðir á þeirra vegum. Vísindasjóður Landspítala – háskólasjúkrahúss tók við af vísindasjóði Landspítala og rannsóknarstofu Háskóla Íslands árið 2002.
    Árið 2002 voru veittar 32.000.000 kr. úr vísindasjóði Landspítala – háskólasjúkrahúss og 28.000.000 kr. árið 2003.
    Vísindasjóður Landspítala – háskólasjúkrahúss veitir styrk samkvæmt skipulagsskrá sem er samþykkt af dómsmálaráðuneytinu. Ákvarðanir um úthlutanir eru teknar að loknu skipulögðu umsóknar- og rannsóknarferli. Vísindaráð Landspítala – háskólasjúkrahúss fjallar um allar umsóknir, leggur á þær faglegt mat, forgangsraðar og skilar tillögum um úthlutun til stjórnar vísindasjóðs. Styrkjum er úthlutað einu sinni á ári.
    Aðrir formlegir styrkir voru ekki veittir af sjóðum Landspítala – háskólasjúkrahúss til styrktar vísindastarfsemi á umbeðnu tímabili. Þess ber þó að geta að í starfsemi sjúkrahússins felst eðli máls samkvæmt vinna á sviði vísinda, rannsókna og þróunarstarfs sem fjármögnuð er af rekstrarfjárveitingu sjúkrahússins. Þá fá fáeinir vísindamenn sem starfa á sjúkrahúsinu árlega styrki frá innlendum og erlendum fyrirtækum og stofnunum til vísinda- og rannsóknarstarfa.

Fjórðungssjúkrahúsið á Akureyri.
    Veitt veittar voru 1.475.000 kr. úr vísindasjóði læknaráðs Fjórðungssjúkrahússins á Akureyri árið 2001, árið 2002 voru veittar 1.370.000 kr. úr sjóðnum og 1.269.000 kr. árið 2003.
    Stjórn vísindaráðs læknaráðs sjúkrahússins tekur ákvöðun um úthlutun úr sjóðnum og eru umsóknir metnar samkvæmt reglum sjóðsins þar um.

Geislavarnir ríkisins.
    Árin 2001, 2002 og 2003 var varið um 6 millj. kr. á ári til verkefna er falla undir vísinda- og rannsóknarstarf. Annars vegar var hverju sinni um að ræða styrki er stofnunin aflaði erlendis að upphæð um 3 millj. kr. en hins vegar 3 millj. kr. fjárveitingu úr ríkissjóði.
    Forstöðumaður Geislavarna ríkisins tekur ákvörðun um ráðstöfun þeirra fjármuna sem stofnunin hefur til ráðstöfunar.
    Þau rannsóknarverkefni sem hér um ræðir eru hluti lögbundinna verkefna stofnunarinnar, skv. 5. gr. laga nr. 44/2002, um geislavarnir, áður 7. gr. laga nr. 117/1985, um geislavarnir.

Heyrnar- og talmeinastöð Íslands.
    Engu fé var varið til vísinda, rannsókna og þróunarstarfs hjá Heyrnar- og talmeinastöð umrædd ár.

Lýðheilsustöð, áður manneldisráð.
    Lýðheilsustöð tók til starfa 1. júlí 2003 og er hér gerð grein fyrir þremur stærstu ráðunum sem færð voru undir Lýðheilsustöð, þ.e. áfengis- og vímuvarnaráð, tóbaksvarnaráð og manneldisráð.

Áfengis- og vímuvarnaráð.
    Árið 2001 var úthlutað 12.853.000 kr. en 5.284.000 kr. árið 2002 og 6.692.000 kr. árið 2003.
    Féð er úr forvarnasjóði. Forvarnasjóður hefur verið á ábyrgð áfengis- og vímuvarnaráðs sem ákveður fjárveitingar. Ráðið hefur lagt áherslu á rannsóknir til að grundvalla frekara forvarnastarf á sviði áfengis- og vímuvarna. Þá er greiddur hluti af kostnaði við mat á árangri þeirra verkefna sem hafa fengið háar fjárveitingar úr forvarnasjóði.

Tóbaksvarnaráð.
    Árin 2001 og 2002 var úthlutað 600.000 kr. hvort ár en 900.000 kr. árið 2003.
    Féð kemur af galdi af sölu tóbaks sem úthlutað er til tóbaksvarnaráðs, en ráðið tekur ákvarðanir um meðferð fjárins. Tóbaksvarnaráð hefur lagt áherslu á áróðursstarf umfram rannsóknarvinnu. Þessi kostaður er fyrst og fremst við kannanir á tóbaknotkun sem gerðar hafa verið árlega í um 20 ár.

Manneldisráð.
    Árið 2001 nam úthlutunin 6.800.000 kr. en 14.119.000 kr. árið 2002 og 8.812.000 kr. árið 2003.
    Féð er af föstu framlagi til rekstrar manneldisráðs og er að stærstum hluta laun starfsmanna ráðsins, en meginstarfsemi þess er rannsóknartengd vinna. Einungis 18% af þessum kostnaði er aðkeypt vinna en hún er vegna landskönnunar á mataræði Íslendinga. Manneldisráð og forstöðumaður ráðsins tóku sameiginlega ákvörðun um ráðstöfun fjárins.