Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 836. máls.
130. löggjafarþing 2003–2004.
Þskj. 1277  —  836. mál.




Frumvarp til laga



um breyting á lögum nr. 64/1994, um vernd, friðun og veiðar á villtum fuglum og villtum spendýrum, með síðari breytingum.

Flm.: Mörður Árnason, Jóhanna Sigurðardóttir,
Einar Már Sigurðarson, Guðmundur Árni Stefánsson.


1. gr.

    Við lögin bætist ákvæði til bráðabirgða sem orðast svo:
    Óheimilt er að flytja út, bjóða til sölu eða selja rjúpur og rjúpnaafurðir, innlendar og innfluttar. Með sölu er átt við hvers konar afhendingu rjúpna og rjúpnaafurða gegn endurgjaldi. Gera má upptækar til ríkissjóðs rjúpur og rjúpnaafurðir sem boðnar eru til sölu eða eru seldar í bága við ákvæði þetta, svo og andvirði þeirrar sölu.
    Ráðherra getur ef þurfa þykir sett reglugerð um hámarksveiði á hvern rjúpnaveiðimann.
    Við ákvörðun um aflétting friðunar skal við það miðað að ekki séu veiddar fleiri en 30.000 rjúpur á hausti.
    Ákvæði þetta fellur úr gildi 15. október 2006.

2. gr.

    Lög þessi öðlast þegar gildi.

Athugasemdir við lagafrumvarp þetta.


    Í sumar leið tók umhverfisráðherra þá ákvörðun að nota ekki heimild sína í lögum nr. 64/1994 til að aflétta friðun á rjúpu. Miklar efasemdir hafa síðan vaknað um gildi þess að banna algerlega veiðar á rjúpu þau þrjú ár sem tiltekin voru og hefur verið bent á ýmsar aðrar leiðir til að létta veiðiálagi af rjúpnastofninum. Til að fara tvær þeirra leiða þarf breytingar á lögum. Með frumvarpinu er lagt til að Alþingi samþykki sölubann og veiti ráðherra heimild til kvótasetningar. Þessar ráðstafanir eru tímabundnar með sérstöku bráðabirgðaákvæði sem fellur úr gildi við lok þess þriggja ára verndar- og rannsóknartímabils sem hófst í haust.
    Ljóst er að erfitt yrði að framfylgja sölubanni á íslenska rjúpu og rjúpnaafurðir ef leyfður yrði innflutningur, hvort heldur grænlenskrar og norrænnar fjallrjúpu eða dalrjúpu frá t.d. Skotlandi eða Rússlandi. Því er hér lagt til innflutningsbann samhliða sölubanninu.
    Lögð er til talan 30.000 sem hámarksveiði á rjúpu ef ráðherra afléttir friðun haustið 2004 og 2005. Í greinargerð eftir Ólaf K. Nielsen „Um ástand rjúpnastofnsins“ frá Náttúrufræðistofnun Íslands, dags. 21. ágúst 2002, kemur fram að stofnunin taldi að minnka þyrfti veiði um 50%. Í öðrum textum frá stofnuninni er nefnd hlutfallstalan 50–75. Veiðistjórnunarsvið
Umhverfisstofnunar hefur nú upplýsingar um 78.177 veiddar rjúpur haustið 2002. Talið er
að raunveiðin gæti verið um 82–83 þúsund. Rjúpnaveiði samkvæmt veiðikortum árið áður var um 101.000 fuglar og árið 2000 um 129.000 fuglar. Með hámarksveiðitölunni 30.000 er varúðarreglunni beitt gagnvart rjúpnastofninum í þeirri sveiflulægð sem nú stendur yfir.
Prentað upp.