Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 733. máls.
130. löggjafarþing 2003–2004.
Þskj. 1281  —  733. mál.




Svar



félagsmálaráðherra við fyrirspurn Guðrúnar Ögmundsdóttur um barnavernd.

    Fyrirspurnin hljóðar svo:
     1.      Hversu margar tilkynningar bárust barnaverndarnefndum árið 2003 um slæman eða ónógan aðbúnað barna, sundurliðað eftir umdæmum nefndanna?
     2.      Hvaðan bárust tilkynningarnar, frá lögreglu, sjúkrahúsum, skólum o.s.frv.?
     3.      Hverjar eru tilgreindar orsakir tilkynninganna, áhættuhegðun, vanræksla, ofbeldi o.s.frv.?
     4.      Hvert er algengasta vinnuferlið sem sett er í gang þegar tilkynning berst?
     5.      Hvaða barnaverndarnefndir eru með bakvaktir vegna barnaverndarmála?


    Spurt um tölur frá árinu 2003 en þær liggja ekki fyrir. Barnaverndarnefndir eiga að skila upplýsingum um störf sín árið 2003 til Barnaverndarstofu fyrir 1. júní nk. og verður ársskýrsla unnin upp úr þeim. Nú liggur fyrir ársskýrsla Barnaverndarstofu fyrir árið 2002 sem send hefur verið öllum alþingismönnum. Upplýsingar sem hér verða gefnar eru því frá árinu 2002.
    Á árinu bárust barnaverndarnefndum alls 4.665 tilkynningar, frá eftirtöldum:

Tilkynningar.
Lögregla     2.370
Skóli, sérfræðiþjónusta skóla, fræðslu- eða skólaskrifstofa     394
Leikskóli, gæsluforeldri     63
Læknir/heilsugæsla/sjúkrahús     258
Önnur félagsmálastofnun/barnaverndarnefndir     150
Borgarhlutaskrifstofa Félagsþjónustu Reykjavíkur     119
Foreldrar     508
Ættingjar     221
Barnið sjálft     41
Nágrannar     395
Aðrir     146


Orsakir tilkynninga.
Grunur um vanrækslu barns     726
Grunur um að barn sé beitt andlegu ofbeldi     93
Grunur um að barn sé beitt líkamlegu ofbeldi     177
Grunur um að barn sé beitt kynferðislegu ofbeldi     240
Grunur um áfengis-/vímuefnaneyslu foreldra     582
Grunur um neyslu barns á áfengi eða vímuefnum     441
Grunur um afbrot barns     1.440
Hegðunarerfiðleikar/tengslaröskun barns     211
Heilsa eða líf ófædds barns í hættu     58
Annað     727

    Fái barnaverndarnefnd rökstuddan grun um að líkamlegri eða andlegri heilsu barns eða þroska geti verið hætta búin sökum framferðis, vanrækslu eða vanhæfni foreldra eða að barn stefni heilsu sinni eða þroska í hættu með hegðun sinni, er nefndinni skylt að kanna málið án tafar. Nefndin skal hafa það að markmiði að afla sem gleggstra upplýsinga um hagi barns sem í hlut á og getur í því skyni leitað aðstoðar sérfræðinga. Foreldrum er gerð grein fyrir því að tilkynning hafi borist og að könnun sé að hefjast. Algengast er að byrjað sé að ræða við foreldra og barnið sjálft hafi það aldur og þroska til. Árið 2002 var leitað eftir upplýsingum hjá barninu sjálfu í 21% tilvika. Í framhaldi af því er leitast við að afla nánari upplýsinga hjá þeim sem þekkja barnið og aðstæður þess. Þegar könnun lýkur er samin greinargerð þar sem ástæða afskipta er tilgreind ásamt niðurstöðum könnunar og tillögum að stuðningi við barnið og/eða fjölskylduna þegar það á við. Að öðru leyti vísast til fyrrnefndrar ársskýrslu Barnaverndarstofu fyrir árið 2002.
    Hinn 1. febrúar sl. hófst samstarf Neyðarlínunnar og Barnaverndarstofu um móttöku tilkynninga, sem þýðir að frá þeim tíma hafa allar barnaverndarnefndir bakvakt og sama símanúmer.
    Neyðarlínan tekur nú við tilkynningum til allra barnaverndarnefnda á landinu allan sólahringinn. Í þeim tilvikum sem um er að ræða tilkynningar sem ekki varða neyðartilvik eru upplýsingar sendar viðkomandi nefnd strax eða næsta vinnudag, berist hún utan almenns skrifstofutíma. Ef um neyðartilvik er að ræða sem krefst aðgerða strax hefur Neyðarlínan tafarlaust samband við viðkomandi nefnd sem þá gerir nauðsynlegar ráðstafanir.