Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 850. máls.
130. löggjafarþing 2003–2004.
Þskj. 1307  —  850. mál.




Frumvarp til laga



um breytingu á lögum um lax- og silungsveiði, nr. 76/1970, með síðari breytingum.

(Lagt fyrir Alþingi á 130. löggjafarþingi 2003–2004.)



1. gr.

    XIV. kafli laganna, er hefur fyrirsögnina Um Fiskræktarsjóð og styrkveitingar til fiskræktar, orðast svo:

    a. (98. gr.)
    Hlutverk Fiskræktarsjóðs er að efla fiskrækt í ám og vötnum og bæta veiðiaðstöðu með því að veita lán eða styrki til verkefna sem að því stuðla.
    Veiðimálanefnd fer með stjórn Fiskræktarsjóðs og verður stjórnvaldsákvörðunum hennar samkvæmt þessum kafla ekki skotið til annarra stjórnvalda.
    Fyrir 1. september ár hvert skal veiðimálanefnd gefa út og láta birta lána- og úthlutunarreglur sem gilda skulu fyrir sjóðinn næsta almanaksár. Reglurnar skulu bornar undir ráðherra til staðfestingar.
    Ráðherra getur sett nánari ákvæði í reglugerð um málsmeðferð og ráðstöfun fjár úr Fiskræktarsjóði.
    Heimilt er að veita lán og styrki úr Fiskræktarsjóði til framkvæmda er lúta að fiskrækt í ám og vötnum í samræmi við gildandi lána- og úthlutunarreglur.
    Um málsmeðferð við veitingu lána og styrkja gilda ákvæði stjórnsýslulaga.
    Veiðimálanefnd getur aflað rökstuddrar umsagnar hjá veiðimálastjóra og Veiðimálastofnun um umsóknir um lán eða styrki þyki þess þörf.
    Tekjur Fiskræktarsjóðs eru:
          a.      Fjárveiting úr ríkissjóði.
          b.      Gjald af veiðitekjum skv. 99. gr.
          c.      Gjald af tekjum vegna raforkusölu vinnslufyrirtækja skv. 100. gr.
          d.      Aðrar tekjur.

    b. (99. gr.)
    Jarðeigandi skal greiða 2% gjald af hreinum tekjum af veiði í vatni á landi sínu og í netlögum í sjó og stöðuvötnum.
    Nú annast veiðifélag sölu á leigurétti til stangveiði og skal félagið þá standa skil á 2% gjaldi af arðgreiðslum.
    Stjórn Fiskræktarsjóðs annast álagningu og innheimtu gjalda skv. 1. og 2. mgr. Jarðeigendur og veiðifélög skulu að eigin frumkvæði senda Fiskræktarsjóði ársreikning veiðifélags eða framtal yfir leigutekjur af veiði fyrir 1. maí ár hvert vegna næstliðins almanaksárs á eyðublaði sem sjóðurinn leggur til. Um álagningu gjalda samkvæmt þessari grein gilda að öðru leyti ákvæði 95.–97. gr. laga um tekjuskatt og eignarskatt eftir því sem við getur átt.
    Eigi síðar en 30. júní skal Fiskræktarsjóður hafa lokið álagningu á gjaldendur skv. 1. og 2. mgr. og skal þeim tilkynnt bréflega um hana.
    Nú telur jarðeigandi eða veiðifélag álagt gjald eða gjaldstofn eigi rétt ákveðinn og getur viðkomandi þá sent inn rökstudda kæru til stjórnar Fiskræktarsjóðs. Ákvæði 1. mgr. 99. gr. laga um tekjuskatt og eignarskatt gilda í slíkum tilvikum eftir því sem við getur átt.
    Nú telur jarðeigandi eða veiðifélag ekki fram leigutekjur af veiði og er Fiskræktarsjóði þá heimilt að áætla gjald skv. 1. og 2. mgr. Ákvæði 2. mgr. 95. gr. og 1.–3. mgr. 108. gr. laga um tekjuskatt og eignarskatt gilda í slíkum tilvikum eftir því sem við getur átt.
    Gjöld skv. 1. og 2. mgr. vegna næstliðins almanaksárs falla í gjalddaga 1. ágúst ár hvert. Ef gjöldin eru ekki greidd innan 30 daga frá gjalddaga skal greiða dráttarvexti af þeim skv. III. kafla laga um vexti og verðtryggingu. Ákvarðanir Fiskræktarsjóðs um gjöld skv. 1. og 2. mgr. eru aðfararhæfar.
    Ráðherra getur sett í reglugerð nánari ákvæði um framkvæmd við álagningu og innheimtu gjaldanna.

    c. (100. gr.)
    Vinnslufyrirtæki, sem stunda raforkuvinnslu með vatnsorku, skulu greiða 3‰ gjald af vergum tekjum af allri sölu á raforku.
    Skattstjórar annast álagningu gjalda skv. 1. mgr. Ákvæði IX.–XII. kafla laga um tekjuskatt og eignarskatt og lög um yfirskattanefnd gilda eftir því sem við getur átt.
    Gjöld skv. 1. mgr. vegna næstliðins almanaksárs falla í gjalddaga 1. ágúst ár hvert. Ef gjöldin eru ekki greidd innan 30 daga frá gjalddaga skal greiða dráttarvexti af þeim skv. III. kafla laga um vexti og verðtryggingu. Ákvörðun skattstjóra um álagningu gjalds skv. 1. mgr. er aðfararhæf.
    Innheimtu gjalda skv. 1. mgr. annast sömu stofnanir og embætti og innheimta tekjuskatt og eignarskatt til ríkissjóðs.
    Ráðherra getur sett í reglugerð nánari ákvæði um framkvæmd við álagningu og innheimtu gjaldanna.

2. gr.

    Lög þessi taka gildi 1. janúar 2005.

Ákvæði til bráðabirgða.

    Þrátt fyrir ákvæði 100. gr. er sala á raforku samkvæmt samningum við stórnotendur, sem gerðir voru fyrir 18. júní 1998, undanþegin gjaldskyldu út gildistíma samninganna.

Athugasemdir við lagafrumvarp þetta.


I.

    Hinn 1. júlí 2001 fól landbúnaðarráðherra þeim dr. jur. Gauki Jörundssyni, dómara við Mannréttindadómstól Evrópu, Páli Hreinssyni, lagaprófessor í Háskóla Íslands, og Ingimar Jóhannssyni, skrifstofustjóra í landbúnaðarráðuneytinu, að semja nýtt frumvarp til laga um lax- og silungsveiði, nr. 76/1970, með síðari breytingum. Það er niðurstaða nefndarinnar að aðkallandi sé að breyta ákvæðum XIV. kafla laganna um Fiskræktarsjóð sem fyrst og telur nefndin ekki ástæðu til að bíða með þær breytingar þar til heildarendurskoðun gildandi laga hefur farið fram.
    Meginmarkmið breytinga á XIV. kafla laga um lax- og silungsveiði er að færa ákvæði um stjórnsýslu sjóðsins í nútímalegt horf og stuðla að skilvirkari innheimtu gjalda í sjóðinn, jafnframt því sem skýrari ákvæði eru sett um gjaldstofna þeirra gjalda sem renna í sjóðinn til að tryggja betra samræmi í stjórnsýsluframkvæmd og jafnrétti gjaldenda.

II.

    Árið 1967 lögðu sex þingmenn fram frumvarp til laga um breyting á lögum nr. 53/1957, um lax-og silungsveiði, þar sem mælt var fyrir um stofnun Fiskræktarsjóðs, sbr. Alþt. 1967, A-deild, bls. 1315. Frumvarpinu var vísað til landbúnaðarnefndar en nefndarálit kom ekki fram í málinu og var það því ekki tekið frekar á dagskrá, sbr. Alþt. 1967, C-deild, bls. 794. Árið 1968 lagði ríkisstjórnin fram frumvarp til laga um breyting á lögum nr. 53/1957, um lax- og silungsveiði, þar sem mælt var fyrir um stofnun Fiskræktarsjóðs, sbr. Alþt. 1968, A-deild, bls. 1603 og 1607. Frumvarpinu var vísað til landbúnaðarnefndar en nefndarálit kom ekki fram í málinu og var það því ekki tekið frekar á dagskrá, sbr. Alþt. 1968, C-deild, bls. 267. Árið eftir lagði ríkisstjórnin enn á ný fram frumvarp til laga um breyting á lögum nr. 53/1957, um lax- og silungsveiði, þar sem mælt var fyrir um stofnun Fiskræktarsjóðs, sbr. Alþt. 1969, A-deild, bls. 1666. Frumvarpið varð að lögum og var Fiskræktarsjóður því stofnaður með lögum nr. 38/1970, um breyting á lögum nr. 53 5. júní 1957, um lax- og silungsveiði.
    Meginmarkmið sjóðsins frá upphafi hafa verið að efla fiskrækt í landinu, m.a. með seiðasleppingum. Nú er svo komið að Ísland er eina landið við Norður-Atlantshaf sem ekki hefur orðið fyrir stórfelldu hruni í laxastofnum. Miklu fé er nú varið í nágrannalöndum okkar til viðhalds laxastofna og verndunar svo að auðlindin tapist ekki fyrir fullt og allt. Ýmsar ástæður eru fyrir þessu hruni, sumar þekktar en aðrar ókunnar. Fullyrða má að mikilvægi Fiskræktarsjóðs hafi aukist eftir því sem áhrif manna á náttúru landsins hafa orðið meiri. Er því afar þýðingarmikið að lagaumgjörð um starfsemi sjóðsins sé nútímaleg og stuðli að skilvirkri starfsemi hans.
    Tekjustofnar Fiskræktarsjóðs hafa frá upphafi verið 2% gjald af hreinum leigutekjum af veiði og 3‰ gjald af vergum tekjum af sölu á raforku. Í upphafi var þar um að ræða sölu á orku til almennings. Með 27. gr. laga nr. 50/1998 var hins vegar gerð sú breyting að einnig skyldi greitt sama gjald af sérsamningum til nýrra stórnotenda.

Athugasemdir við einstakar greinar frumvarpsins.


Um 1. gr.

     Um a-lið (98. gr.).
    Helstu breytingar sem ákvæði 98. gr. fela í sér eru að fyrir 1. september ár hvert skal veiðimálanefnd gefa út og láta birta lána- og úthlutunarreglur sem gilda skulu fyrir sjóðinn næsta almanaksár. Með þessu fyrirkomulagi er stuðlað að því að þau sjónarmið liggi fyrir sem ákvarðanir um lán og styrki úr sjóðnum eru byggðar á. Þá stuðlar það einnig að því að fyrir liggi skýr stefnumótun um áherslur í störfum sjóðsins fyrir hvert ár.
     Um b-lið (99. gr.).
    Helstu nýmæli er fram koma í 99. gr. lúta að því að setja skýrari reglur um framtal, álagningu og innheimtu gjalds vegna leigutekna af veiði í vatni og í netlögum í sjó og stöðuvötnum.
    Innheimt gjöld frá veiðiréttareigendum hafa verið svo sem hér segir sl. ár:
Ár Ár
1993 13.974.569 kr. 1998 14.858.100 kr.
1994 14.030.922 kr. 1999 15.948.419 kr.
1995 14.020.784 kr. 2000 17.006.863 kr.
1996 14.222.873 kr. 2001 17.340.004 kr.
1997 15.232.683 kr. 2002 16.568.998 kr.

     Um c-lið (100. gr.).
    Helstu nýmæli sem 100. gr. hefur að geyma lúta að því að fela skattstjórum álagningu gjalda á vinnslufyrirtæki sem stunda raforkuvinnslu með vatnsorku. Þetta breytta fyrirkomulag helgast ekki síst af því að með raforkulögum, nr. 65/2003, var komið á samkeppni í vinnslu og viðskiptum með raforku og þessi starfsemi telst því ekki lengur til stjórnsýslu hins opinbera. Til þess að tryggja bæði skilvirka og samræmda innheimtu þessara gjalda er því talið nauðsynlegt að fela skattstjórum álagningu gjalds skv. 1. mgr. 100. gr. enda liggja upplýsingar um álagningarstofn gjaldsins í framtölum vinnslufyrirtækja til skattstjóra. Önnur breyting sem gerð er með ákvæðinu felst í því að ekki einvörðungu sérsamningar til nýrra stórnotenda, sem gerðir hafa verið eftir gildistöku laga nr. 50/1998, falla undir ákvæðið heldur allir slíkir orkusölusamningar. Verður ekki séð að það fái staðist 65. gr. stjórnarskrárinnar, sbr. 3. gr. stjórnarskipunarlaga, nr. 97/1995, að vinnslufyrirtæki séu ekki öll jöfn fyrir lögum og samræmis ekki gætt við skattlagningu á sölu á raforku.
    Innheimt gjöld frá vinnslufyrirtækjum hafa verið svo sem hér segir sl. ár:
Ár Ár
1993 7.757.323 kr. 1998 8.357.509 kr.
1994 8.256.112 kr. 1999 8.440.367 kr.
1995 8.263.223 kr. 2000 8.898.510 kr.
1996 8.363.085 kr. 2001 8.773.457 kr.
1997 8.665.642 kr. 2002 7.960.834 kr.

Um 2. gr.

    Ákvæðið þarfnast ekki skýringa.

Um ákvæði til bráðabirgða.

    Samkvæmt gildandi lögum er sala á raforku til stórnotenda samkvæmt samningum sem gerðir voru fyrir gildistöku laga nr. 50/1998, 18. júní 1998, undanþegnir gjaldskyldu. Með ákvæði til bráðabirgða er séð til þess að svo verði áfram út gildistíma þessara samninga. Eftir það mun öll sala á raforku vatnsaflsstöðva verða gjaldskyld skv. 100. gr.



Fylgiskjal.

Fjármálaráðuneyti,
fjárlagaskrifstofa:


Umsögn um frumvarp til laga um breytingu á lögum um lax-
og silungsveiði, nr. 76/1970, með síðari breytingum.

    Markmiðið með frumvarpinu er að færa ákvæði um stjórnsýslu Fiskræktarsjóðs í nútímalegt horf og stuðla að skilvirkari innheimtu gjalda í sjóðinn með því að fela skattstjórum álagningu gjalda jafnframt því sem skýrari ákvæði eru sett um gjaldstofna þeirra gjalda sem renna í sjóðinn. Núverandi greiðendur í sjóðinn eru veiðifélög og jarðeigendur sem selja veiðileyfi. Þeirra framlag í sjóðinn nam 16,6 m.kr. árið 2002. Einnig greiða í sjóðinn vinnslufyrirtæki sem selja raforku framleidda með vatnsorku til almenningsveitna og nýrra stórnotenda eftir árið 1998. Þessi fyrirtæki eru Landsvirkjun, Orkuveita Reykjavíkur, Orkubú Vestfjarða og RARIK. Alls nam sú greiðsla 8 m.kr. árið 2002. Skv. c-lið 1. gr. frumvarpsins er lagt til að greitt verði af allri raforkusölu til almennings og stórnotenda. Gert er ráð fyrir að breiðari tekjustofn geti skilað sjóðnum aukalega 11 m.kr. tekjum árlega en þó ekki fyrr en samningar sem voru gerðir fyrir 1998 renna út eða þeim er sagt upp.
    Verði frumvarpið óbreytt að lögum er ekki séð að það hafi kostnaðarauka í för með sér fyrir ríkissjóð.