Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 870. máls.
130. löggjafarþing 2003–2004.
Þskj. 1328  —  870. mál.




Frumvarp til laga



um breytingu á lögreglulögum, nr. 90 13. júní 1996, með síðari breytingum.

(Lagt fyrir Alþingi á 130. löggjafarþingi 2003–2004.)



1. gr.

    E-liður 2. mgr. 5. gr. laganna orðast svo: að starfrækja rannsóknastofu sem hafi eftirlit með framkvæmd tæknirannsókna lögreglu, þar með rekstri miðlægra gagnagrunna lögreglu á sviði tæknirannsókna, annist erlend samskipti vegna tæknirannsókna og samstarf, haldi skrá um horfið fólk og hafi umsjón með störfum kennslanefndar og útgáfu leiðbeininga og verklagsreglna um tæknirannsóknir sem ríkislögreglustjóri setur.

2. gr.

    4. mgr. 8. gr. laganna orðast svo:
    Við embætti lögreglustjórans í Reykjavík skal starfrækt tæknideild sem sinni vettvangsrannsóknum, samanburðarrannsóknum og öðrum slíkum rannsóknum og varðveiti fingrafarasafn lögreglu og ljósmyndasafn og haldi því við. Tæknideildin skal þjóna öllum lögregluumdæmum landsins og setur ríkislögreglustjóri nánari reglur um starfrækslu hennar.

3. gr.

    Lög þessi öðlast þegar gildi.

Athugasemdir við lagafrumvarp þetta.


    Frumvarp þetta er samið í dómsmálaráðuneytinu og er í því gert ráð fyrir að í stað þess að ríkislögreglustjóri starfræki tæknirannsóknastofu með tilheyrandi tækjabúnaði verði tæknideild lögreglunnar í Reykjavík styrkt. Er þetta lagt til í framhaldi af tillögum vinnuhóps sem ríkislögreglustjóri skipaði árið 1999 til að móta framtíðarstefnu tæknirannsókna hjá lögreglu. Var vinnuhópnum falið að gera tillögur um framtíðarskipulag tæknimála hjá lögreglu. Umfjöllunarefni hópsins átti m.a. að vera fyrirkomulag tæknirannsókna, stjórn þeirra, samstarf og verkaskipting milli embætta, fræðsla og tækninýjungar. Í vinnuhópinn voru skipaðir Jón H. Snorrason saksóknari, sem var formaður hópsins, Guðmundur Sophusson, sýslumaðurinn í Hafnarfirði, Guðmundur Guðjónsson, yfirlögregluþjónn hjá ríkislögreglustjóra, Hörður Jóhannesson, yfirlögregluþjónn hjá embætti lögreglustjórans í Reykjavík, og Bjarni J. Bogason, yfirlögregluþjónn hjá ríkislögreglustjóra.
    

Athugasemdir við einstakar greinar frumvarpsins.


Um 1. gr.


    Hér er lagt til að e-lið 2. mgr. 5. gr. laganna verði breytt þannig að hlutverk rannsóknastofu ríkislögreglustjóra verði að hafa eftirlit með framkvæmd tæknirannsókna lögreglu, hafa umsjón með rekstri miðlægra gagnagrunna vegna tæknirannsókna. Ekki er gert ráð fyrir að starfsmenn rannsóknastofunnar annist rannsóknir á vettvangi eða úrvinnslu gagna sem aflað er á vettvangi eða samanburðarrannsóknir. Hlutverk rannsóknastofunnar verði fyrst og fremst eftirlitshlutverk og samskipti við erlend ríki vegna tæknirannsókna, hún fylgist með nýjungum og framþróun varðandi tæknirannsóknir og miðli þeim til lögreglu. Eftirlit rannsóknastofunnar á að tryggja að tæknirannsóknir og verklag við þær séu fullnægjandi og samræmdar og uppfylli þær kröfur sem ákæruvald og dómstólar telja nauðsynlegar.
    Þá er gert ráð fyrir að rannsóknastofa ríkislögreglustjóra annist og beri ábyrgð á starfsemi kennslanefndar, svokallaðrar „ID-nefndar“, og haldi skrá um horfið fólk, en mikilvægt er talið að slík skrá sé miðlæg og að tryggt sé að rannsóknastofunni berist allar upplýsingar þar um. Eðlilegt er að kennslanefndin heyri undir ríkislögreglustjóra þar sem hlutverk hennar er að aðstoða lögreglustjórana við að þekkja lík sem ekki er mögulegt að bera kennsl á með einföldum aðgerðum.

Um 2. gr.


    Lagt er til að 4. mgr. 8. gr. verði breytt þannig að tæknideild lögreglustjórans í Reykjavík fái aukin verkefni, þ.e. að auk vettvangsrannsókna sinni deildin samanburðarrannsóknum og varðveiti fingrafarasafn og ljósmyndasafn lögreglu og haldi þeim söfnum við. Afar mikilvægt er að myndir af sakborningum, upplýsingar um fingraför og aðrar slíkar upplýsingar berist tafarlaust inn í miðlæga gagnagrunna sem varðveittir verði hjá lögreglustjóranum í Reykjavík svo að fullt gagn verði að slíkum skrám og upplýsingakerfum á landsvísu.
    Áfram þjónar tæknideildin öllum öðrum lögregluumdæmum, þótt embættin sinni ýmsum tæknirannsóknum eins og verið hefur. Mörg verkefni tengd vettvangsrannsóknum og samanburðarrannsóknum krefjast sérhæfðra lögreglumanna og tækja og er óraunhæft og ekki fallið til árangurs að byggja upp og viðhalda þekkingu á þessu sviði hjá mörgum embættum og koma þar upp nauðsynlegum tækjabúnaði. Er því talið heppilegt að tæknideild lögreglustjórans í Reykjavík sinni tæknirannsóknum á landsvísu. Hjá tæknideildinni hefur skapast töluverð reynsla og þekking. Þá hefur reynt talsvert á aðstoðarskyldu lögreglustjórans í Reykjavík við vettvangsrannsóknir við önnur lögregluembætti. Enn fremur hefur tæknideildin fært upplýsingar sem aflað er hjá embættinu inn í svokallaða brotamannaskrá sem ríkislögreglustjóri starfrækir.
    Með þessari breytingu er verið að sameina þekkingu á sviði tæknirannsókna og tækjabúnað á einn stað þar sem gert er ráð fyrir að sérþekking, auk tækja og búnaðar sem til er hjá ríkislögreglustjóra, flytjist til lögreglustjórans í Reykjavík. Þessar breytingar munu tvímælalaust leiða til hagkvæmni auk þess sem eftirlit með tæknirannsóknum verður markvissara af hálfu ríkislögreglustjóra.
    Þá er lagt til að ríkislögreglustjóri setji reglur um starfrækslu tæknideildarinnar í stað þess að dómsmálaráðherra setji þær reglur eins og er í gildandi lögum.


Fylgiskjal.

Fjármálaráðuneyti,
fjárlagaskrifstofa:


Umsögn um frumvarp til laga um breytingu á lögum nr. 90/1996, lögreglulögum.

    Í frumvarpinu er lagt til að tæknideild lögreglustjórans í Reykjavík taki við samanburðarrannsóknum frá tæknirannsóknastofu ríkislögreglustjóra, varðveiti fingrafarasafn lögreglu og ljósmyndasafn og haldi því við. Verkefni rannsóknastofu ríkislögreglustjóra verði að hafa eftirlit með framkvæmd tæknirannsókna lögreglu, þar með talið rekstri miðlægra gagnagrunna lögreglu á sviði tæknirannsókna, annast erlend samskipti vegna tæknirannsókna, halda skrá um horfið fólk, og hafa umsjón með störfum kennslanefndar og útgáfu leiðbeininga og verklagsreglna um tæknirannsóknir.
    Fyrirhugað er að sá búnaður til samanburðarrannsókna sem fyrir hendi er hjá ríkislögreglustjóra fari til tæknideildar lögreglustjórans í Reykjavík og að 1,5 stöðugildi færist þangað frá ríkislögreglustjóra. Þannig verði þá ekki lengur reknar tvær tæknirannsóknastofur með svipuðum tæknibúnaði hjá tveimur stofnunum. Gert er ráð fyrir að tæplega 9 m.kr. fjárveiting verði flutt frá ríkislögreglustjóra til lögreglunnar í Reykjavík í frumvarpi til fjárlaga fyrir árið 2005 vegna þessa.
    Reiknað er með því að samruni á verkefnum embættanna á þessu sviði verði til hagræðingar og geti stuðlað að því að þessi útgjöld lækki nokkuð.