Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 872. máls.
130. löggjafarþing 2003–2004.
Þskj. 1330  —  872. mál.




Frumvarp til laga



um breyting á einkamálalögum, nr. 91/1991, og þjóðlendulögum, nr. 58/1998 (gjafsókn).

(Lagt fyrir Alþingi á 130. löggjafarþingi 2003–2004.)



I. KAFLI
Breyting á lögum um meðferð einkamála, nr. 91 31. desember 1991,
með síðari breytingum.

1. gr.

    3. málsl. 2. mgr. 125. gr. laganna, sbr. 4. gr. laga nr. 38 19. apríl 1994, orðast svo: Dómsmálaráðherra getur kveðið nánar á um starfshætti gjafsóknarnefndar í reglugerð.

2. gr.

    1. mgr. 126. gr. laganna orðast svo:
    Einstaklingi má veita gjafsókn ef fjárhag hans er þannig háttað að kostnaður af gæslu hagsmuna hans í dómsmáli yrði honum fyrirsjáanlega ofviða enda sé nægilegt tilefni til málshöfðunar eða málsvarnar og eðlilegt megi teljast að öðru leyti að málsóknin sé kostuð af almannafé. Dómsmálaráðherra skal með reglugerð kveða nánar á um skilyrði gjafsóknar.

II. KAFLI
Breyting á lögum um þjóðlendur og ákvörðun marka eignarlanda,
þjóðlendna og afrétta, nr. 58 10. júní 1998, með síðari breytingu.

3. gr.

    Við 2. mgr. 14. gr. laganna bætist nýr málsliður er orðast svo: Heimilt er að veita aðila máls gjafsókn eða gjafvörn ef mál hans hefur að mati gjafsóknarnefndar, sbr. lög um meðferð einkamála, verulega almenna þýðingu eða varðar verulega miklu fyrir atvinnu, félagslega stöðu eða aðra einkahagi umsækjanda.

4. gr.

    Lög þessi öðlast þegar gildi.

Athugasemdir við lagafrumvarp þetta.


    Frumvarp þetta er samið í dómsmálaráðuneytinu og eru í því lagðar til breytingar á ákvæðum laga um meðferð einkamála um gjafsókn. Einnig eru lagðar til breytingar á lögum um þjóðlendur og ákvörðun marka eignarlanda, þjóðlendna og afrétta um sama efni.
    Meginreglurnar um gjafsókn er að finna í XX. kafla laga um meðferð einkamála. Um skilyrði gjafsóknar er fjallað í 126. gr. laganna, en þar er kveðið á um að gjafsókn verði aðeins veitt ef nægilegt tilefni er til málsóknar og öðru hvoru eftirfarandi skilyrða er fullnægt: að efnahag umsækjanda sé þannig háttað að kostnaður af gæslu hagsmuna hans í máli yrði honum fyrirsjáanlega ofviða, sbr. a-lið 1. mgr. 126. gr. laganna, eða úrlausn máls hafi verulega almenna þýðingu eða varði verulega miklu fyrir atvinnu, félagslega stöðu eða aðra einkahagi umsækjanda, sbr. b-lið 1. mgr. 126. gr. Síðastnefnt skilyrði er afar víðtækt og þykir ekki forsvaranlegt að verið sé að kosta málshöfðun eða málsvörn einstaklings af almannafé á grundvelli svo almenns ákvæðis. Er því lagt til í 2. gr. frumvarpsins að það verði fellt brott þannig að almenna reglan verði sú að veiting gjafsóknar byggist fyrst og fremst á því að einstaklingur hafi ekki nægilega fjármuni til að gæta réttar síns fyrir dómstólum. Einnig verði á því byggt að nægilegt tilefni sé til málshöfðunar og að eðlilegt megi teljast að málsóknin sé kostuð af almannafé.
    Vegna framangreindra tillagna er í 3. gr. frumvarpsins lagt til að við lög um þjóðlendur og ákvörðun marka eignarlanda, þjóðlendna og afrétta bætist ákvæði um gjafsókn. Liggja til þessa jafnræðisrök; þegar eru mál vegna ákvarðana óbyggðanefndar hafin á einu landsvæði og þykir því rétt að sömu reglur gildi um ákvarðanir nefndarinnar á öðrum svæðum. Einnig má hafa í huga að í þessum málum hefur ríkisvaldið haft frumkvæði að ákveðinni lagasetningu og mörgum þeirra málaferla og krafna sem lýst hefur verið í kjölfar hennar.

Athugasemdir við einstakar greinar frumvarpsins.


Um 1. gr.

    Breytingin sem lögð er til í þessari grein tengist efni 2. gr. frumvarpsins og vísast til þess sem kemur fram í almennum athugasemdum og í athugasemdum um þá grein hér á eftir.

Um 2. gr.

    Hér er gert ráð fyrir að gjafsóknarheimildir byggist á því grundvallaratriði að efnalítið fólk geti leitað réttar síns fyrir dómstólum. Samkvæmt gildandi lögum er gjafsóknarnefnd ætlað að meta hvort umsækjandi uppfylli skilyrði til gjafsóknar, bæði hvað varðar fjárhagsstöðu umsækjanda og hvort hann hafi nægilegt tilefni til málsóknar. Mat á tilefni getur verið erfitt. Í sumum tilfellum getur verið óeðlilegt að veita einstaklingi gjafsókn í máli gegn öðrum ef málstilefnið er hæpið, óverulegir hagsmunir eru í húfi eða mál varðar viðskipti er tengjast verulega atvinnustarfsemi einstaklings eða mál er þess eðlis að það sé óeðlilegt að veita gjafsókn þótt fjárhagsstaða umsækjanda gefi tilefni til þess, svo sem ef mál er milli nákominna þar sem málsefnið er þess eðlis að ekki sé eðlilegt að reka það fyrir dómstólum. Breytingu á ákvæðum samkvæmt þessari grein er ætlað að styrkja betur en áður heimildir ráðuneytisins til að setja nánari reglur í reglugerð um skilyrði gjafsóknar á grundvelli almennra sjónarmiða til leiðbeiningar fyrir gjafsóknarnefnd. Gert er ráð fyrir að mat á tilefni verði áfram í höndum gjafsóknarnefndar og þá eins þegar deilt er um lagatúlkun í væntanlegu dómsmáli.

Um 3. gr.

    Um röksemdir fyrir þessari grein vísast til almennra athugasemda. Ákvæðið byggist á b- lið 1. mgr. 126. gr. laga um meðferð einkamála og er tilgangur þess að menn séu jafnsettir fyrir og eftir gildistöku laganna, verði frumvarpið samþykkt.

Um 4. gr.

     Greinin þarfnast ekki skýringa.


Fylgiskjal.


Fjármálaráðuneyti,
fjárlagaskrifstofa:


Umsögn um frumvarp til laga um breyting á einkamálalögum, nr. 91/1991,
og þjóðlendulögum, nr. 58/1998 (gjafsókn).

    Frumvarp þetta miðar að því að gjafsókn verði fyrst og fremst veitt þeim einstaklingum sem ekki hafa nægilega fjármuni til að gæta réttar síns fyrir dómstólum. Einnig verði á því byggt að nægilegt tilefni sé til málshöfðunar og að eðlilegt megi teljast að málsóknin sé kostuð af almannafé. Frumvarpið felur í sér að felld verði niður almenn heimild til gjafsóknar á grundvelli þess að úrlausn máls hafi verulega almenna þýðingu eða varði verulega miklu fyrir atvinnu, félagslega stöðu eða aðra einkahagi umsækjanda. Í tengslum við þá breytingu er þó jafnframt lagt til að sérreglu verði bætt í lög um þjóðlendur og ákvörðun marka eignarlanda, þjóðlendna og afrétta, þar sem gjafsókn verði veitt í slíkum málum á þessum grundvelli. Byggist það bæði á því að ríkið hefur haft frumkvæði að þeirri lagasetningu og kröfugerð og að mál vegna ákvarðana óbyggðanefndar eru þegar hafin á einu landsvæði þannig að eðlilegt þykir að sömu reglur gildi um ákvarðanir nefndarinnar á öðrum svæðum.
    Verði þessar breytingar lögfestar má gera ráð fyrir einhverri fækkun á veitingu gjafsóknar og að útgjöld vegna þeirra aukist minna en verið hefur undanfarin ár, eða lækki jafnvel, en það mun ráðast af nánari skilyrðum í reglugerð. Frumvarpið breytir ekki rétti til gjafsóknar vegna þjóðlendumála miðað við gildandi lagaákvæði og ætti því ekki að hafa í för með sér kostnaðaráhrif að því leyti.