Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 876. máls.
130. löggjafarþing 2003–2004.
Þskj. 1334  —  876. mál.




Frumvarp til laga



um breytingu á lögum nr. 52/1989, um ráðstafanir gegn umhverfismengun af völdum einnota umbúða fyrir drykkjarvörur, með síðari breytingum.

(Lagt fyrir Alþingi á 130. löggjafarþingi 2003–2004.)



1. gr.

    Í stað fjárhæðarinnar „0,36 kr.“ í 5. málsl. 1. mgr. 1. gr. laganna, sbr. 1. gr. laga nr. 20/2003, kemur: 0,76 kr.

2. gr.

    Lög þessi öðlast gildi 1. júní 2004.

Athugasemdir við lagafrumvarp þetta.


    Frumvarp þetta er samið í umhverfisráðuneytinu að beiðni Endurvinnslunnar hf. sem óskaði eftir að endurskoðuð yrðu ákvæði um umsýsluþóknun í lögum nr. 52/1989, um ráðstafanir gegn umhverfismengun af völdum einnota umbúða fyrir drykkjarvörur, með síðari breytingum.
    Samkvæmt 1. gr. laganna er skilagjald lagt á drykkjarvörur í einnota umbúðum úr stáli, áli, gleri og plastefni. Fjárhæð gjaldsins er ákveðin í lögunum en ráðherra er heimilt að hækka það í samræmi við breytingar á vísitölu neysluverðs. Til viðbótar skilagjaldi er lögð umsýsluþóknun á hverja umbúðaeiningu úr stáli, gleri og plastefni til að mæta kostnaði Endurvinnslunnar hf. af söfnun, endurvinnslu eða eyðingu slíkra umbúða og annarri tengdri umsýslu. Með lögum nr. 26/2000, um breytingu á lögum nr. 52/1989, var umsýsluþóknun þessi ákveðin föst krónutala í lögum á hverja umbúðaeiningu og er hún mismunandi eftir tegund umbúða. Við ákvörðun fjárhæðar umsýsluþóknunar var tekið mið af gjöldum og tekjum sem leiðir af söfnun og endurvinnslu eða eyðingu hverrar umbúðaeiningar fyrir sig þannig að umsýsluþóknun er hærri af óhagkvæmari tegundum.
    Lagt er til í frumvarpi þessu að fjárhæð umsýsluþóknunar af ólituðu plastefni verði hækkuð úr 0,36 kr. í 0,76 kr. þar sem Endurvinnluna hf. vantar um 12 millj. kr. til að standa undir rekstrarkostnaði ársins 2004 auk 6–7 millj. kr. hagnaðar, en skv. 4. gr. laganna ber Endurvinnslunni hf. að skila hóflegum arði til eigenda sinna. Hækkun umsýsluþóknunar mun skila um 12 millj. kr. hækkun á umsýsluþóknun á ári. Helstu ástæður kostnaðarhækkana umfram tekjuspá eru minni tekjur af útflutningi vegna styrkingar krónunnar, aukin hlutdeild SORPU í móttöku umbúða, þ.e. umboðslaun og greiðsla fyrir flutning á umbúðum, og aukinn kostnaður af öðrum flutningum, svo sem sérstakt olíugjald o.fl. Skoðað var með fulltrúum innlendra framleiðenda hvernig hver umbúðategund stæði gagnvart álagningu umsýsluþóknunar á móti þeim kostnaði sem af viðkomandi umbúðategund hlýst í rekstri Endurvinnslunnar. Þessi útreikningur var grunnur að álagningu umsýsluþóknunar árið 2000. Þannig reiknað var ákveðið að leggja hlutfallslega lægstu umsýsluþóknun á ólitaðar plastflöskur. Ástæðan fyrir þörf á hækkun umsýsluþóknunar á ólituðu plastefni er fjölgun ólitaðra plastflaskna, aukinn kostnaður við móttöku og flutninga sem leggst þungt á plastflöskur vegna rúmmáls þeirra samanborið við aðrar umbúðategundir og aukin hlutdeild þeirra í sameiginlegum kostnaði. Einnig hafa tekjur af sölu plastflaskna erlendis lækkað verulega undanfarin missiri. Það skýrist bæði af styrkingu krónunnar gagnvart bandarískum dollara sem er helsta sölumyntin og mikilli samkeppni á heimsmarkaði sem hefur lækkað söluverð á plastflöskum til endurvinnslu. Til að tryggja áframhaldandi rekstrargrundvöll fyrir Endurvinnsluna hf. er lögð til framangreind hækkun á umsýsluþóknun á umbúðum úr ólituðu plastefni.



Fylgiskjal.


Fjármálaráðuneyti,
fjárlagaskrifstofa:


Umsögn um frumvarp til laga um breytingu á lögum nr. 52/1989, um ráðstafanir gegn umhverfismengun af völdum einnota umbúða fyrir drykkjarvörur,
með síðari breytingum.

    Með frumvarpinu er lögð til hækkun umsýsluþóknunar á umbúðir úr ólituðu plastefni í því skyni að treysta rekstrargrundvöll Endurvinnslunnar hf.
    Miðað við óbreytt magn umbúða er áætlað að árlegar tekjur af umsýsluþóknun, sem ríkissjóður innheimtir og skilar til Endurvinnslunnar hf., hækki um 12 m.kr. á ári og að hækkunin skili sér út í verðlag drykkjarvara.
    Ekki verður séð að samþykkt frumvarpsins hafi að öðru leyti áhrif á tekjur og gjöld ríkissjóðs.