Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 877. máls.
130. löggjafarþing 2003–2004.
Þskj. 1335  —  877. mál.




Frumvarp til laga



um breytingu á lögum um eiturefni og hættuleg efni, nr. 52/1988, með síðari breytingum.

(Lagt fyrir Alþingi á 130. löggjafarþingi 2003–2004.)



1. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 1. gr. laganna:
a.      Á eftir 2. mgr. kemur ný málsgrein, svohljóðandi:
                  Sæfiefni eru efni eða efnablöndur sem ætlað er að eyða hættulegum lífverum, bægja þeim frá eða gera þær skaðlausar. Sæfiefni eru t.d. viðarvörn, nagdýraeitur, skordýraeitur, gróðurhindrandi efni, sótthreinsandi efni og rotvarnarefni.
b.      Á eftir orðunum „hættuleg efni“ í 4. mgr. kemur: sæfiefni.
c.      Fyrirsögn greinarinnar orðast svo: Gildissvið og markmið.

2. gr.

    16. gr. laganna ásamt fyrirsögn orðast svo:

Skráning og leyfi til markaðssetningar.

    Eiturefni og hættuleg efni, hrein og blönduð, má því einungis flytja til landsins, selja eða nota sem plöntulyf, illgresiseyða (örgresisefni), stýriefni eða sæfiefni að þau hafi verið skráð sem slík, annaðhvort með samheiti eða með sérheiti framleiðanda. Umhverfisstofnun veitir leyfi til markaðssetningar sæfiefna. Ákvæði þessi taka einnig til örvera eða hluta lífvera ef þau eru notuð í sama skyni. Ráðherra setur nánari ákvæði um framangreind atriði í reglugerð að fengnum tillögum Umhverfisstofnunar. Skal þar m.a. kveða á um skráningu efnanna, notkun og bann við notkun þeirra, auk ákvæða um veitingu, endurskoðun og afturköllun leyfis til markaðssetningar.

3. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 23. gr. laganna:
a.      Á eftir orðunum „hættuleg efni“ í 1. mgr. kemur: sæfiefni.
b.      Á eftir orðinu „varnarefna“ í 1. og 2. málsl. 7. mgr. kemur: og sæfiefna.

4. gr.

    Lög þessi öðlast þegar gildi.

Athugasemdir við lagafrumvarp þetta.


    Frumvarp þetta er lagt fram til að laga ákvæði laga um eiturefni og hættuleg efni, nr. 52/1988, að ákvæðum tilskipunar Evrópuþingsins og ráðsins 98/8/EB frá 16. febrúar 1998 um markaðssetningu sæfiefna, sem tók gildi á Evrópska efnahagssvæðinu 1. mars 2004.
    Tilskipun 98/8/EB fjallar um að samræma skuli kröfur varðandi markaðsleyfi fyrir sæfiefni og að vernda skuli menn og umhverfi fyrir hugsanlegri hættu sem stafar af notkun sæfiefna. Sæfiefni eru fjölbreyttur hópur efna sem skiptast í 23 vöruflokka, þ.m.t. viðarvörn, nagdýraeitur, skordýraeitur, gróðurhindrandi efni, sótthreinsandi efni og rotvarnarefni. Sækja skal um leyfi til yfirvalda aðildarríkjanna um heimild til að setja slíkar vörur á markað og er markaðssetning þeirra til tiltekinna nota þá heimiluð að uppfylltum þeim skilyrðum sem sett eru í tilskipuninni. Öll virk efni sem áætlað er að nota í sæfiefni verða tekin fyrir í áhættumati og gert er ráð fyrir að í viðauka við tilskipunina komi listi yfir þau virku efni sem leyfð verða í slíkar vörur eftir áhættumatið. Aðildarríkjunum er gert skylt að verða við beiðni um að veita markaðsleyfi fyrir vörur sem innihalda tiltekin virk efni sem skráð eru í viðaukann ef annað ríki hefur þegar leyft vöruna. Hægt er að fara fram á undanþágur frá slíkum gagnkvæmum viðurkenningum ef sérstakar aðstæður eru fyrir hendi í viðkomandi aðildarríki. Auk þessa eru í tilskipuninni ýmis ákvæði, svo sem um merkingar sæfiefna, takmörkun á auglýsingum þeirra og kröfur um upplýsingagjöf til eitrunarmiðstöðva.
    Hluti sæfiefna fellur ekki undir gildissvið núgildandi laga um eiturefni og hættuleg efni. Þetta eru efni sem hvorki eru á lista yfir eiturefni eða hættuleg efni, sbr. 1. og 2. mgr. 1. gr. laganna. Dæmi um slík efni eru ýmis rotvarnarefni og sótthreinsandi efni ásamt fæli- og löðunarefnum. Í frumvarpi þessu er því lagt til að gildissvið laganna verði rýmkað þannig að þau nái yfir þessi efni. Lagt er til að hugtakið sæfiefni verði skilgreint í 1. gr. Þannig er tekinn af allur vafi um að lögin nái til þessa efnaflokks þó að í ákveðnum tilvikum teljist efni innan hans ekki eiturefni eða hættuleg efni skv. 1. og 2. mgr. laganna. Sama var gert með lögum nr. 42/2001, um breytingu á lögum nr. 52/1988, þegar snyrtiefni voru tekin inn í lögin þótt þau teljist hvorki eiturefni né hættuleg efni. Að auki eru lagðar til lítils háttar breytingar á nokkrum ákvæðum laganna til að laga þau að nýrri hugtakanotkun, en í aðalatriðum er unnt að byggja skráningu sæfiefna og leyfi til markaðssetningar á þeim ákvæðum sem gilt hafa um svokölluð varnarefni sem notuð eru í landbúnaði og garðyrkju, sbr. 16. gr.
    Umhverfisstofnun vinnur nú að gerð reglugerðar um sæfiefni þar sem sett eru nánari ákvæði um framkvæmd laganna og byggt á ákvæðum tilskipunar nr. 98/8/EB. Gert er ráð fyrir að reglugerð um sæfiefni verði sett í beinu framhaldi af gildistöku laganna.

Athugasemdir við einstakar greinar frumvarpsins.


Um 1. gr.

    Lagt er til að gerðar verði nokkrar breytingar á 1. gr. laganna þar sem fjallað er um þá flokka efna sem falla undir lögin. Þar sem lögin ná ekki lengur einungis til eiturefna og hættulegra efna er lagt til að heiti greinarinnar verði breytt í „Gildissvið og markmið“.
    Í a-lið er lagt til að bætt verði við gildissvið laganna hugtakinu sæfiefni sem er skilgreint sem efni eða efnablöndur sem ætlað er að eyða hættulegum lífverum, bægja þeim frá eða gera þær skaðlausar. Sæfiefni eru t.d. viðarvörn, nagdýraeitur, skordýraeitur, gróðurhindrandi efni, sótthreinsandi efni og rotvarnarefni. Hluti af þeim efnum sem áður töldust til eiturefna til nota í landbúnaði og garðyrkju, þ.e. útrýmingarefni, teljast til sæfiefna samkvæmt frumvarpi þessu.
    Þá er í b-lið lagt til að hugtakinu sæfiefni verði bætt inn í markmiðsákvæði laganna.

Um 2. gr.

    Hér er lagt til nýtt orðalag 16. gr. laganna. Ekki er um mikla efnisbreytingu að ræða. Í lagagreininni er að finna heimild til að áskilja að sæfiefni megi því aðeins flytja til landsins, selja eða nota að þau hafi verið skráð sem slík. Er þetta ákvæði óbreytt en nær nú til fleiri efna en áður, þ.e. til annarra sæfiefna en útrýmingarefna. Í greininni er hins vegar nýtt ákvæði um að jafnframt þurfi leyfi Umhverfisstofnunar til markaðssetningar sæfiefna. Er þetta nákvæmara orðalag en er í núgildandi lögum og í samræmi við ákvæði tilskipunar nr. 98/8/EB.

Um 3. gr.

    Lagt er til að gjaldtökuheimild vegna kostnaðar við skráningu, áhættumat og rannsóknir nái einnig til sæfiefna. Gert er ráð fyrir að umsækjandi beri þann kostnað.

Um 4. gr.

    Ákvæðið þarfnast ekki skýringa.



Fylgiskjal.

Fjármálaráðuneyti,
fjárlagaskrifstofa:


Umsögn um frumvarp til laga um breytingar á lögum nr. 52/1988,
um eiturefni og hættuleg efni, með síðari breytingum.

    Í frumvarpinu er lagt til að sæfiefni falli undir gildissvið laganna og að leyfi Umhverfisstofnunar þurfi fyrir markaðssetningu þeirra. Gert er ráð fyrir að gjaldtökuheimild 23. gr. laganna nái einnig til sæfiefna.
    Áætlað er að kostnaður við eftirlit, framkvæmd, upplýsingagjöf og gagnaöflun geti numið allt að hálfu stöðugildi á ársgrundvelli, eða 3 m.kr. Kostnaður vegna erlendra samskipta, fræðsluefnis o.fl. er áætlaður 0,7 m.kr.
    Verði frumvarp þetta óbreytt að lögum má gera ráð fyrir að kostnaður ríkissjóðs geti orðið allt að 3,7 m.kr. á ári. Gert er ráð fyrir að kostnaðurinn rúmist innan núverandi fjárhagsramma umhverfisráðuneytis.