Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 761. máls.
130. löggjafarþing 2003–2004.
Þskj. 1445  —  761. mál.




Svar



landbúnaðarráðherra við fyrirspurn Sigurjóns Þórðarsonar um hundaræktarbúið í Dalsmynni.

     1.      Á hvaða lagagrundvelli byggjast kröfur um úrbætur í átta liðum og frestur til að uppfylla þær fyrir hundaræktarbúið í Dalsmynni?
    Hinn 16. febrúar 2004 birtist í Fréttablaðinu grein þar sem fram komu ábendingar um illa meðferð á hundum í hundaræktarbúinu að Dalsmynni í Mosfellsbæ. Í 2. gr. laga um dýralækna og heilbrigðisþjónustu við dýr, nr. 66/1998, er kveðið á um að dýralæknar skuli standa vörð um heilsu dýra í landinu, stuðla að bættu heilsufari þeirra, aukinni arðsemi búfjár og góðum aðbúnaði og meðferð dýra. Þá segir í 31. gr. reglugerðar um embætti yfirdýralæknis nr. 782/1999, um helstu störf og starfsskyldur héraðsdýralækna: „Einnig ber þeim að hafa eftirlit með búfé og öðrum dýrum eftir því sem lög ákveða.“

     2.      Hefur verið farið að ákvæðum stjórnsýslulaga við meðferð málsins?
    Samkvæmt reglugerð um dýrahald í atvinnuskyni, nr. 499/1997, heyrir eftirlit með hundabúinu í Dalsmynni undir Umhverfisstofnun. Í 11. grein reglugerðarinnar segir að við framkvæmd eftirlits hjá þeim aðilum sem stunda dýrahald í atvinnuskyni skuli slíkt eftirlit framkvæmt að óvörum, ásamt embættisdýralækni. Samkvæmt upplýsingum frá héraðsdýralækninum í Reykjavík hefur hann aldrei verið kallaður til við eftirlitsferðir Umhverfisstofnunar að Dalsmynnisbúinu né í nokkru öðru máli er varðar dýravernd. Vera kann að samkvæmt túlkun stjórnsýslulaga hefði héraðsdýralæknirinn átt að halda að sér höndum í umræddu máli og bíða eftir því að vera kallaður til við eftirlit Umhverfisstofnunar. Hefði hann gert það, hefði það hins vegar verið í andstöðu við skyldur hans samkvæmt lögum um dýralækna og heilbrigðisþjónustu við dýr, nr. 66/1998, og vissulega ekki í þágu dýraverndar.