Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 746. máls.
130. löggjafarþing 2003–2004.
Þskj. 1492  —  746. mál.




Svar



forsætisráðherra við fyrirspurn Atla Gíslasonar og Sigurjóns Þórðarsonar um úrskurðarnefndir.

     1.      Hversu margar sjálfstæðar og óháðar úrskurðarnefndir eru starfandi á vegum ríkisins, hvað heita þær og hver eru verkefni þeirra?
    Litið er svo til að átt sé við nefndir sem lögum samkvæmt er falið úrskurðarvald um stjórnvaldsákvarðanir, en þó skipað til hliðar við hið almenna stjórnkerfi á þann hátt að vera undanskildar þeim stjórnunar- og eftirlitsheimildum sem almennt eru fólgnar í yfirstjórn ráðherra. Samkvæmt upplýsingum, sem ráðuneytin hafa látið í té, eru starfræktar 42 slíkar nefndir og eru heiti þeirra og verkefni talin hér á eftir ásamt upplýsingum um lagagrundvöll starfrækslu þeirra.

Forsætisráðuneyti.
Úrskurðarnefnd um upplýsingamál.
    Verkefni: Leysir úr ágreiningsmálum um aðgang að upplýsingum hjá stjórnvöldum á grundvelli upplýsingalaga.
    Lagagrundvöllur: V. kafli upplýsingalaga, nr. 50/1996.

Óbyggðanefnd.
    Verkefni:
    a.    Að kanna og skera úr um hvaða land telst til þjóðlendna og hver séu mörk þeirra og eignarlanda.
    b.    Að skera úr um mörk þess hluta þjóðlendu sem nýttur er sem afréttur.
    c.    Að úrskurða um eignarréttindi innan þjóðlendna.
    Lagagrundvöllur: III. kafli laga um þjóðlendur og ákvörðun marka eignarlanda, þjóðlendna og afrétta, nr. 58/1998.

Dóms- og kirkjumálaráðuneyti.
Bótanefnd.
    Verkefni: Tekur ákvörðun um greiðsluskyldu ríkissjóðs á bótum til þolenda afbrota.
    Lagagrundvöllur: IV. kafli laga um greiðslu ríkissjóðs á bótum til þolenda afbrota, nr. 69/1995.

Mannanafnanefnd.
    Verkefni:
    1.    Að semja skrá um eiginnöfn og millinöfn sem teljast heimil skv. 5. og 6. gr. laga um mannanöfn og er hún nefnd mannanafnaskrá.
    2.    Að vera prestum, forstöðumönnum skráðra trúfélaga, Hagstofunni, dómsmálaráðherra og forsjármönnum barna til ráðuneytis um nafngjafir og skera úr álita- og ágreiningsefnum um nöfn samkvæmt lögum um mannanöfn.
    3.    Að skera úr öðrum álita- eða ágreiningsmálum sem upp kunna að koma um nafngjafir, nafnritun og fleira þess háttar.
    Lagagrundvöllur: VIII. kafla laga um mannanöfn, nr. 45/1996.

Matsnefnd eignarnámsbóta.
    Verkefni: Sker úr ágreiningi um eignarnámsbætur og annað endurgjald, sem ákveða á samkvæmt lögum um framkvæmd eignarnáms.
    Lagagrundvöllur: 2. gr. laga um framkvæmd eignarnáms, nr. 11/1973.

Nefnd um dómarastörf.
    Verkefni: Nefndin setur almennar reglur um hvers konar aukastörf geti samrýmst embættisstörfum dómara og að hvaða marki samrýmanlegt sé embætti dómara að hann eigi hlut í félagi eða atvinnufyrirtæki. Nefndin tekur á móti kvörtunum varðandi slík mál og getur í áliti sínu fundið að störfum hlutaðeigandi dómara eða veitt honum áminningu. Þá getur nefndin einnig veitt dómara áminningu fyrir vanrækslu í starfi eða ámælisvert framferði hans utan starfs eftir að slíkri kvörtun hefur verið beint til nefndarinnar af hálfu forstöðumanns dómstóls eða dómsmálaráðherra.
    Lagagrundvöllur: IV. kafli laga um dómstóla, nr. 15/1998.

Úrskurðarnefnd um áfengismál.
    Verkefni: Úrskurðar um ágreining sem rís vegna ákvarðana sem sveitarstjórn tekur samkvæmt áfengislögum.
    Lagagrundvöllur: VIII. kafla áfengislaga nr. 75/1998.

Áfrýjunarnefnd ágreinings á kirkjulegum vettvangi.
    Verkefni: Niðurstöðum úrskurðarnefndar skv. 12. gr. laga um stöðu, stjórn og starfshætti þjóðkirkjunnar má skjóta til áfrýjunarnefndar.
    Lagagrundvöllur: 13. gr. laga um stöðu, stjórn og starfshætti þjóðkirkjunnar, nr. 78/1997.

Félagsmálaráðuneyti.
Kærunefnd barnaverndarmála.
    Verkefni: Fjallar samkvæmt kæru um úrskurði og ákvarðanir barnaverndarnefnda og um tilteknar ákvarðanir Barnaverndarstofu.
    Lagagrundvöllur: 6. gr. barnaverndarlaga, nr. 80/2002.

Kærunefnd húsnæðismála.
    Verkefni: Sker úr ágreiningi um ákvarðanir stjórnar Íbúðalánasjóðs og húsnæðisnefnda sveitarfélaga.
    Lagagrundvöllur: IX. kafli laga um húsnæðismál, nr. 44/1998.

Úrskurðarnefnd atvinnuleysisbóta.
    Verkefni: Fjallar samkvæmt kæru um ákvarðanir úthlutunarnefnda atvinnuleysisbóta um bætur og missi þeirra.
    Lagagrundvöllur: 17. gr. laga um atvinnuleysistryggingar, nr. 12/1997.

Úrskurðarnefnd félagsþjónustu.
    Verkefni: Fjallar samkvæmt kæru um ákvarðanir félagsmálanefnda sveitarstjórna.
    Lagagrundvöllur: XVII. kafli laga um félagsþjónustu sveitarfélaga, nr. 40/1991.

Úrskurðarnefnd fæðingar- og foreldraorlofsmála.
    Verkefni: Úrskurðar um ágreiningsefni sem kunna að rísa á grundvelli laga um fæðingar- og foreldraorlof.
    Lagagrundvöllur: 5. gr. laga um fæðingar- og foreldraorlof, nr. 95/2000.

Fjármálaráðuneyti.
Kjaradómur.
    Verkefni: Ákveður laun og önnur kjör forseta Íslands, alþingismanna, ráðherra, hæstaréttardómara, héraðsdómara, biskups Íslands, ríkisendurskoðanda, ríkissáttasemjara, ríkissaksóknara og umboðsmanns barna.
    Lagagrundvöllur: Lög um Kjaradóm og kjaranefnd, nr. 120/1992.

Kjaranefnd.
    Verkefni: Að ákveða laun og starfskjör embættismanna, annarra en þeirra sem kjaradómur fjallar um, lögreglumanna, tollvarða og fangavarða. Enn fremur ákveður nefndin laun og starfskjör prófessora, sem gegna því starfi að aðalstarfi.
    Lagagrundvöllur: Lög um Kjaradóm og kjaranefnd, nr. 120/1992.

Kærunefnd útboðsmála.
    Verkefni: Leysir úr kærum vegna ætlaðra brota á lögum um opinber innkaup og reglum settum samkvæmt þeim.
    Lagagrundvöllur: Lög um opinber innkaup, nr. 94/2001.

Ríkistollanefnd.
    Verkefni: Fer með æðsta úrskurðarvald á stjórnsýslustigi um ágreining innflytjenda og tollyfirvalda í tollamálum.
    Lagagrundvöllur: 37. gr. tollalaga, nr. 55/1987.

Yfirfasteignamatsnefnd.
    Verkefni: Annast yfirmat fasteigna.
    Lagagrundvöllur: 33. gr. laga um skráningu og mat fasteigna, nr. 6/2001.

Yfirskattanefnd.
    Verkefni: Fer með æðsta úrskurðarvald á stjórnsýslustigi í skattamálum.
    Lagagrundvöllur: Lög um yfirskattanefnd, nr. 30/1992.

Heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneyti.
Úrskurðarnefnd almannatrygginga.
    Verkefni: Úrskurðar í ágreiningsmálum um bætur almannatrygginga.
    Lagagrundvöllur: 7. gr. laga um almannatryggingar, nr. 117/1993.

Úrskurðarnefnd um fóstureyðingar og ófrjósemisaðgerðir.
    Verkefni: Úrskurðar í ágreiningsmálum um framkvæmd fóstureyðinga og ófrjósemisaðgerða.
    Lagagrundvöllur: 28. gr. laga um ráðgjöf og fræðslu varðandi kynlíf og barneignir og um fóstureyðingar og ófrjósemisaðgerðir, nr. 25/1975.

Úrskurðarnefnd um tæknifrjóvgun.
    Verkefni: Úrskurðar í ágreiningsmálum um framkvæmd tæknifrjóvgunar.
    Lagagrundvöllur: 3. mgr. 3. gr. laga um tæknifrjóvgun, nr. 55/1996.

Iðnaðarráðuneyti.
Áfrýjunarnefnd hugverkaréttinda
    Verkefni: Úrskurðar um ágreining í vörumerkja- og einkaleyfamálum.
    Lagagrundvöllur: 63. gr. laga um vörumerki, nr. 45/1997.

Úrskurðarnefnd raforkumála.
    Verkefni: Úrskurðar í kærum á ákvörðunum Orkustofnunar um gjaldskrár eða starfsemi flutningsfyrirtækis eða dreifiveitna.
    Lagagrundvöllur: 30. gr. raforkulaga, nr. 65/2003.

Landbúnaðarráðuneyti.
Yfirmatsnefnd samkvæmt ábúðarlögum.
    Verkefni: Framkvæmir yfirmat á eignum og endurbótum fráfarandi ábúenda.
    Lagagrundvöllur: Ábúðarlög nr. 64/1976, sbr. 21/2000.

Yfirmatsnefnd um lax- og silungsveiði.
    Verkefni: Framkvæmir yfirmat samkvæmt ýmsum ákvæðum laganna.
    Lagagrundvöllur: Lög um lax- og silungsveiði, nr. 76/1970.

Úrskurðarnefnd um greiðslumark o.fl.
    Verkefni: Leysir úr ágreiningi um ákvörðun á greiðslumarki lögbýla, skráningu, rétt til beinna greiðslna og framkvæmd verðskerðingar.
    Lagagrundvöllur: Lög um framleiðslu, verðlagningu og sölu á búvörum, nr. 99/1993.

Ullarmatsnefnd.
    Verkefni: Sker úr ágreiningi um ullar og gærumat.
    Lagagrundvöllur: Lög um flokkun og mat á gærum og ull, nr. 57/1990.

Menntamálaráðuneyti.
Málskotsnefnd Lánasjóðs íslenskra námsmanna
    Verkefni: Úrskurðar um úrskurði stjórnar Lánasjóðs íslenskra námsmanna.
    Lagagrundvöllur: 5. gr. laga um Lánasjóð íslenskra námsmanna, nr. 21/1992.

Áfrýjunarnefnd í kærumálum háskólanema.
    Verkefni: Úrskurðar í kærumálum nemenda við ríkisháskóla eða háskóla, sem hlotið hafa staðfestingu menntamálaráðherra.
    Lagagrundvöllur: 5. gr. laga um háskóla, nr. 136/1997, og rg. nr. 73/1999.

Útvarpsréttarnefnd.
    Verkefni: Veitir útvarpsleyfi og hefur eftirlit með framkvæmd útvarpslaga.
    Lagagrundvöllur: 6. gr. útvarpslaga, nr. 53/2000.

Samgönguráðuneyti.
Úrskurðarnefnd fjarskipta- og póstmála.
    Verkefni: Úrskurðar í kærum á ákvörðunum Póst- og fjarskiptastofnunar.
    Lagagrundvöllur: 13. gr. laga um Póst- og fjarskiptastofnun, nr. 69/2003.

Úrskurðarnefnd siglingamála.
    Verkefni: Úrskurðar í kærum á ákvörðunum Siglingastofnunar Íslands.
    Lagagrundvöllur: 13. gr. laga um áhafnir íslenskra farþegaskipa og flutningaskipa, nr. 76/2001.

Sjávarútvegsráðuneyti.
Úrskurðarnefnd vegna álagningar gjalds af ólöglegum sjávarafla.
    Verkefni: Úrskurðar um álagningu sérstaks gjalds vegna ólögmæts sjávarafla.
    Lagagrundvöllur: 6. gr. laga um sérstakt gjald vegna ólögmæts sjávarafla, nr. 37/1992.

Úrskurðarnefnd sjómanna og útgerðarmanna.
    Verkefni: Ákveður fiskverð sem nota skal við uppgjör á aflahlut áhafnar einstakra skipa.
    Lagagrundvöllur: II. kafli laga um Verðlagsstofu skiptaverðs og úrskurðarnefnd sjómanna og útvegsmanna, nr. 13/1998.

Umhverfisráðuneyti.
Úrskurðarnefnd skipulags- og byggingamála.
    Verkefni: Úrskurðar um ágreining í skipulags- og byggingarmálum.
    Lagagrundvöllur: 8. gr. skipulags- og byggingarlaga, nr. 73/1997.

Úrskurðarnefnd hollustuhátta- og mengunarvarnarmála.
    Verkefni: Úrskurðar um ágreining um framkvæmd laga um hollustuhætti og mengunarvarnir og heilbrigðissamþykkta sveitarfélaga.
    Lagagrundvöllur: 31. gr. laga um hollustuhætti og mengunarvarnir, nr. 7/1998.

Utanríkisráðuneyti.
Kaupskrárnefnd.
    Verkefni: Úrskurðar um ráðningarkjör, launakjör og vinnuskilyrði íslenskra starfsmanna varnarliðsins þar sem varnarliðið er ekki aðili að kjarasamningum.
    Lagagrundvöllur: 6. gr. laga um framkvæmd tiltekinna þátta í varnarsamstarfi Íslands og Bandaríkjanna, nr. 82/2000, og reglugerð um kaupskrárnefnd varnarsvæða nr. 284/1999.

Kærunefnd kaupskrárnefndar.
    Verkefni: Úrskurðar að uppfylltum skilyrðum um niðurstöðu kaupskrárnefndar varnarsvæða.
    Lagagrundvöllur: 3. mgr. 6. gr. laga um framkvæmd tiltekinna þátta í varnarsamstarfi Íslands og Bandaríkjanna, nr. 82/2000, og 14. gr. reglugerðar um kaupskrárnefnd varnarsvæða nr. 284/1999.

Skaðabótanefnd.
    Verkefni: Úrskurðar um skaðabótakröfur íslenskra aðila á hendur varnarliðinu.
    Lagagrundvöllur: 2. tölul. 12. gr. viðbætis um réttarstöðu liðs Bandaríkjanna og eignir þeirra, sbr. lög nr. 110/1951, um lagagildi varnarsamnings milli Íslands og Bandaríkjanna og um réttarstöðu liðs Bandaríkjanna og eignir þess.

Viðskiptaráðuneyti.
Áfrýjunarnefnd samkeppnismála.
    Verkefni: Úrskurðar í kærum á ákvörðunum samkeppnisráðs og Samkeppnisstofnunar.
    Lagagrundvöllur: 9. gr. samkeppnislaga, nr. 8/1993.

Kærunefnd vegna ákvarðana Fjármálaeftirlits.
    Verkefni: Úrskurðar í kærum á ákvörðunum Fjármálaeftirlits.
    Lagagrundvöllur: 18. gr. laga um opinbert eftirlit með fjármálastarfsemi, nr. 87/1998.

     2.      Hver var heildarkostnaður ríkisins af starfsemi þessara úrskurðarnefnda árin 2002 og 2003?
    Heildarkostnaður ríkisins af starfsemi framangreindra úrskurðarnefnda var:
                                       árið 2002     316.148.225 kr.
                                       árið 2003     336.625.320 kr.