Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 962. máls.
130. löggjafarþing 2003–2004.
Þskj. 1570  —  962. mál.




Svar



viðskiptaráðherra við fyrirspurn Valdimars L. Friðrikssonar um Samkeppnisstofnun.

     1.      Hefur á síðustu tíu árum verið gerð úttekt á starfsemi Samkeppnisstofnunar og ef svo er, hver var niðurstaðan?
    Embætti ríkisendurskoðanda annast árlega endurskoðun á reikningum Samkeppnisstofnunar en á síðustu tíu árum hefur ekki verið gerð stjórnsýsluúttekt á stofnuninni. Hins vegar hefur viðskiptaráðuneytið farið þess á leit við ríkisendurskoðanda að slík stjórnsýsluúttekt fari fram á Samkeppnisstofnun eins og á öðrum stofnunum sem undir ráðuneytið heyra. Það er gert með hliðsjón af almennum sjónarmiðum um góða stjórnsýsluhætti. Samkvæmt upplýsingum ríkisendurskoðanda er slík endurskoðun á dagskrá stofnunarinnar.

     2.      Hyggst ráðherra grípa til ráðstafana til að auka afkastagetu Samkeppnisstofnunar?

    Dagleg stjórn Samkeppnisstofnunar er í höndum forstjóra hennar og hefur ráðherra ekki afskipti af starfsemi eða skipulagi hennar umfram það sem felst í að tryggja henni fjármagn til rekstrarins. Ráðherra hefur marglýst yfir nauðsyn þess að efla starfsemi Samkeppnisstofnunar og hefur beitt sér fyrir því á undanförnum árum. Þannig hafa fjárveitingar til stofnunarinnar aukist úr 118,7 millj. kr. árið 2000 í 157,3 millj. kr. á fjárlögum ársins 2004. Sífellt er unnið að því að reyna að styrkja sem best starfsemi stofnunarinnar en ákvarðanir um aukin fjárframlög til hennar eru í höndum Alþingis. Á næstunni má gera ráð fyrir að ný verkefni verði færð til Samkeppnisstofnunar og mun viðskiptaráðherra sérstaklega beita sér fyrir því í ríkisstjórn að fjárframlög til þeirra verkefna verði tryggð.