Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 838. máls.
130. löggjafarþing 2003–2004.
Þskj. 1623  —  838. mál.




Svar



heilbrigðisráðherra við fyrirspurn Rannveigar Guðmundsdóttur um mismunandi rekstur heilsugæslustöðva.

    Fyrirspurnin hljóðar svo:
    Hver er munurinn á útreikningi rekstrarþátta og þar með ríkisframlögum til nýrrar einkarekinnar heilsugæslustöðvar í Salahverfi í Kópavogi og hefðbundinna heilsugæslustöðva?

    Á árinu 2002 var ákveðið að bjóða út rekstur nýrrar heilsugæslustöðvar í Salahverfi í Kópavogi. Meginmarkmið útboðsins var að tryggja íbúum hverfa heilsugæslustöðvarinnar í Salahverfi greiðan aðgang að heilsugæslunni, að tryggja samfellda, aðgengilega og heildræna þjónustu í hverfunum og að stuðla að frekari hagkvæmni og skilvirkni í rekstri heilsugæslunnar. Fimm tilboð bárust í rekstur stöðvarinnar og var tilboði Salusar ehf. tekið og gengið til samninga við fyrirtækið. Tilboð Salusar hljóðaði upp á 610 millj. kr. eða um 130 millj. kr. undir efri mörkum kostnaðaráætlunar. Við útreikning kostnaðarmats var miðað við rekstrarkostnað hefðbundinna heilsugæslustöðva í Reykjavík og tekið mið af kjarasamningum við starfsfólk á þeim tíma. Kostnaðarmatið var á bilinu 620 millj. kr. til 740 millj. kr. Neðri mörk kostnaðarmats gera ráð fyrir afkastaaukningu en efri mörk miða við óbreytt afköst. Samningurinn um rekstur stöðvarinnar er til átta ára með kosti á framlengingu til fjögurra ára.
    Greiðslur ríkisins eru að hluta til afkastatengdar, en boðið var út einingagjald, skráningagjald, fastagjald og skólagjald. Einingagjald er bundið afköstum á heilsugæslustöðinni og greiðslur fyrir skráningagjald miðast við fjölda skráðra einstaklinga á heilsugæslustöðina. Fastagjald á að standa undir símaþjónustu og öðrum rekstrarkostnaði og greiðsla skólagjalds miðast við fjölda ársverka skólahjúkrunarfræðinga en gert er ráð fyrir fjölgun barna í skólum í hverfum heilsugæslustöðvarinnar á samningstímanum.
    Í nýju heilsugæslustöðinni er veitt nánast öll þjónusta hefðbundinna heilsugæslustöðva, svo sem almenn læknisþjónusta, hjúkrunarþjónusta, vitjanir, lækningarannsóknir, heilsuvernd, svo sem ungbarna- og mæðravernd, heilsugæsla í skólum, ónæmisvarnir, unglingaráðgjöf o.fl., sbr. 19. gr. laga um heilbrigðisþjónustu. Heimahjúkrun verður þó áfram rekin miðlægt frá Heilsugæslunni í Kópavogi. Faglegt eftirlit er lögum samkvæmt á hendi landlæknisembættisins en fjárhagslegt eftirlit á vegum ráðuneytisins.
    Fjárframlög til reksturs hefðbundinna heilsugæslustöðva eru ákveðin á fjárlögum hvers árs. Við ákvörðun fjárframlaga er tekið mið af umfangi heilsugæslustöðvanna, íbúafjölda og annarra þátta er varða reksturinn. Fjárframlög til hefðbundinna heilsugæslustöðva eru ekki afkastatengd. Faglegt eftirlit er á hendi landlæknisembættisins en ráðuneytið sér um fjárhagslegt eftirlit.