Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 424. máls.
130. löggjafarþing 2003–2004.
Þskj. 1659  —  424. mál.




Svar



sjávarútvegsráðherra við fyrirspurn Jóhanns Ársælssonar um hrefnuveiðar.

     1.      Hvaða afurðir féllu til við hrefnuveiðar á þessu ári? Óskað er upplýsinga um magn kjöts, rengis o.s.frv.
    Við þær hrefnuveiðar sem stundaðar voru í vísindaskyni árið 2003 féllu til u.þ.b. 35 tonn af kjöti og u.þ.b. 4 tonn af rengi.

     2.      Hve mikill hluti afurðanna hefur verið seldur til neytenda?
    Félag hrefnuveiðimanna var fengið til að sjá um hrefnuveiðarnar, undir stjórn Hafrannsóknastofnunarinnar. Félagið fékk allar afurðir hrefnanna í sinn hlut, eftir að Hafrannsóknastofnunin hafði lokið sýnatöku sinni. Félagið hefur selt allar afurðirnar og hefur því engar birgðir af hrefnuafurðum. Þeir aðilar sem stóðu að vísindaveiðunum eiga því engar afurðir óseldar. Ráðuneytinu er þó kunnugt um að þeir aðilar sem keyptu afurðirnar af félagi hrefnuveiðimanna eigi enn óselt til neytenda u.þ.b. 23 tonn af kjöti og u.þ.b. 900 kg af rengi.

     3.      Hverjir eru eigendur þeirra afurða sem óseldar eru?
    Eins og áður segir eru engar afurðir óseldar hjá þeim sem tóku þátt í hrefnuveiðum í vísindaskyni árið 2003. Þær afurðir sem enn hafa ekki verið seldar til neytenda eru því í eigu smásöluaðila og birgja þeirra. Varðandi kjötið mun megnið vera í eigu Ferskra kjötvara hf. og varðandi rengið mun megnið vera í eigu verslunarinnar Svalbarða.