Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 997. máls.
130. löggjafarþing 2003–2004.
Þskj. 1665  —  997. mál.




Frumvarp til laga



um breytingu á lögum nr. 99/1993, um framleiðslu, verðlagningu og sölu á búvörum, með síðari breytingum.

(Lagt fyrir Alþingi á 130. löggjafarþingi 2003–2004.)



1. gr.

    3. mgr. 13. gr. laganna orðast svo:
    Þrátt fyrir ákvæði samkeppnislaga er afurðastöðvum í mjólkuriðnaði heimilt að gera samninga sín á milli um verðtilfærslu milli tiltekinna afurða. Leggja skal slíka samninga fyrir verðlagsnefnd til upplýsingar.

2. gr.

    71. gr. laganna orðast svo:
    Þrátt fyrir ákvæði samkeppnislaga er afurðastöðvum í mjólkuriðnaði heimilt að sameinast, gera með sér samkomulag um verkaskiptingu milli mjólkursamlaga að því er varðar framleiðslu einstakra mjólkurvara og hafa með sér annars konar samstarf til þess að halda niðri kostnaði við framleiðslu, geymslu og dreifingu mjólkurafurða.

3. gr.

    Lög þessi öðlast þegar gildi.

Athugasemdir við lagafrumvarp þetta.


    Frumvarp þetta er samið að tilhlutan landbúnaðarráðherra í því skyni að lögfesta ákvæði sem ætlað er að eyða þeirri réttaróvissu sem skapast hefur um að gildandi búvörulög, nr. 99/1993, tryggi ekki með nægjanlegri vissu að samráð, samruni og verðtilfærsla í mjólkuriðnaði sé undanskilið gildissviði samkeppnislaga í samræmi við ætlan löggjafans.
    Mikill fjárhagsvandi hefur einkennt flest svið landbúnaðar á undanförnum árum. Slíkur vandi er alls ekki einskorðaður við Ísland því almennt má segja að svipuð fjárhagsvandræði steðji að bændum í nágrannalöndum okkar og víða um heim þótt ástæður þess séu misjafnar.
    Á Íslandi hefur mikið verið fjallað um orsakir vandans og ýmislegt nefnt í því sambandi en einkum þó:
     að þróun smásöluverðs landbúnaðarafurða fari hækkandi þrátt fyrir lækkandi afurðaverð til bænda og
     að óheft samkeppni við sölu landbúnaðarafurða, miðað við núverandi markaðsaðstæður, tryggi hvorki sanngjarnt verð til framleiðenda né neytenda.
    Í ljósi þessa er það almennt álit framleiðenda að almenn hagfræðileg rök um að samkeppni í viðskiptum efli hagvöxt þurfi að víkja fyrir markmiðum búvörulaga og sérstöðu landbúnaðarins, enda geti það fyrirkomulag einnig orðið neytendum og þjóðfélaginu í heild til góða, til lengri tíma litið. Markmið búvörulaga eru t.d. að vernda byggðastefnu og tryggja að landbúnaðarvörur, sérstaklega ferskar mjólkurafurðir, sem eru dagvörur, verði í boði á viðráðanlegu verði fyrir alla landsmenn. Grundvöllur þess er að verðlagning ferskra mjólkurafurða hefur bein áhrif á útgjöld nær allra heimila í landinu og því hefur verið talið nauðsynlegt að tryggja ákveðið hámarksheildsöluverð á þeim til allra smásala, óháð staðsetningu á landinu.
    Almennt má þó segja að óhindruð samkeppni ríki í sölu á flestum landbúnaðarafurðum á Íslandi, að undanskildum mjólkurafurðum. Þannig hafa viðskipti með egg, kjúklinga, svínakjöt, nautakjöt og grænmeti verið svo til frjáls undanfarin 10–15 ár, þó með hliðsjón af ákveðinni innflutningsvernd samkvæmt lögum um dýrasjúkdóma og varnir gegn þeim, nr. 25/1993, og beinni tollvernd. Þá er verðlagning á sauðfjárafurðum frjáls en íhlutun hins opinbera með styrkjum til framleiðenda hefur enn töluverð áhrif á viðskipti og verð þeirra afurða.
    Á nýafstöðnu búnaðarþingi var skorað á iðnaðar- og viðskiptaráðherra að taka samkeppnislög til endurskoðunar með tilliti til sérstöðu íslenskrar búvöruframleiðslu. Sú leið sem lögð var til á búnaðarþingi er hins vegar ekki talin heppileg, m.a. á grundvelli þess að samkeppnislög, nr. 8/1993, eru almenn lög. Þau gilda skv. 2. gr. um hvers konar atvinnustarfsemi, svo sem framleiðslu, verslun og þjónustu, án tillits til þess hvort hún er rekin af einstaklingum, félögum, opinberum aðilum eða öðrum. Ýmis sérlög gilda hins vegar um afmarkaðri þætti opinberrar stjórnsýslu og atvinnurekstrar, svo sem búvörulög, nr. 99/1993. Það er almenn regla við lögskýringu að sérlög gangi framar almennum lögum sem samrýmast þeim ekki og því er eðlilegra að sérlög kveði á um undanþágur frá almennum lögum en að í almenn lög sé lögfest ákvæði um sérreglur um ákveðna atvinnustarfsemi umfram aðra. Lagaákvæði sem fela í sér frávik frá almennum reglum ber jafnan að túlka þröngt. Í þessu felst að fara ber varlega þegar lagður er sá skilningur í lagaákvæði að þau undanskilji tiltekna þætti í atvinnustarfsemi gildissviði samkeppnislaga og þar með íhlutunarvaldi samkeppnisyfirvalda. Því þarf með skýrum lagatexta að lögfesta vilja löggjafans til þess undanskilja ákveðna þætti landbúnaðarins gildissviði samkeppnislaga.
    Til þess að kanna tengsl laga um framleiðslu, verðlagningu og sölu á búvörum (búvörulaga), nr. 99/1993, og samkeppnislaga fól landbúnaðarráðherra Árna Vilhjálmssyni hæstaréttarlögmanni og Eiríki Tómassyni prófessor að skrifa álitsgerð um efnið og gera tillögur til breytinga á búvörulögum. Sérstaklega var þeim falið að leggja mat á hvernig hægt væri að tryggja virka samkeppni í framleiðslu og sölu búvara án þess að hagsmunir bænda og íslensks landbúnaðar væru fyrir borð bornir. Skiluðu þeir álitsgerð sinni til landbúnaðarráðherra 30. apríl sl.
    Í megindráttum er það niðurstaða endurskoðunar á búvörulögum að í ljósi skuldbindandi samninga ríkisins við framleiðendur um styrki og að teknu tilliti til markaðsaðstæðna nú geti verið nauðsynlegt að lögfesta skýr ákvæði í búvörulög sem undanskilji ákveðna þætti verðmyndunar á heildsöluverði gildissviði samkeppnislaga. Hins vegar sé ljóst með hliðsjón af auknum alþjóðlegum skuldbindingum ríkisins um lækkun tolla og styrkja til landbúnaðar, m.a. innan Alþjóðaviðskiptastofnunarinnar (WTO), að samkeppni á innanlandsmarkaði muni harðna mikið í náinni framtíð.
    Telja álitsgjafarnir að þegar markaður fyrir landbúnaðarafurðir er skoðaður með tilliti til samkeppni og hvernig staðið er að framleiðslu og viðskiptum með þær landbúnaðarafurðir sem framleiddar eru hér á landi megi segja að myndin sé alls ekki einsleit. Í fyrsta lagi blasir það við að svo til óheft samkeppni ríkir að því er varðar verð og viðskiptakjör á kjöti, grænmeti og öðrum landbúnaðarvörum, að mjólk og mjólkurafurðum undanskildum, en heildsöluverð á síðastgreindu vörunum er enn ákveðið með atbeina hins opinbera. Í annan stað hefur tekist, þar á meðal með samstöðu afurðastöðva í mjólkuriðnaði, að stýra framleiðslunni og skipuleggja hana á því sviði með tilliti til neyslu innan lands sem ekki hefur tekist nema að takmörkuðu leyti á öðrum sviðum. Af þessum sökum sé ástæða til þess að greina á milli mjólkur og mjólkurafurða annars vegar og annarra landbúnaðarafurða hins vegar.
    Varðandi mjólkurafurðir er það tillaga álitsgjafanna að skipta þeim einnig í tvo aðskilda flokka eftir því hvort um er að ræða afurðir sem seldar eru ferskar og þola illa geymslu eða hvort um er að ræða annars konar afurðir.
    Með vísan til þess að samkeppni á innanlandsmarkaði er ekki eins virk þegar um er að ræða ferskvörur eins og mjólk, rjóma, undanrennu og skyr, öfugt við aðrar mjólkurafurðir, svo sem smjör, osta, jógúrt og mjólkur- og undanrennuduft, telja álitsgjafarnir að ferskvörurnar hækki í verði ef heildsöluverð yrði gefið frjálst. Því leggja þeir til, með vísan til framangreinds, að haldið verði áfram að ákveða heildsöluverð á mjólk og öðrum ferskum mjólkurafurðum af hálfu hins opinbera, ekki síst í því skyni að halda verði á þessum vörum niðri í smásölu, neytendum til hagsbóta. Með því móti sé einnig tryggt að þeir aðilar sem stunda smásöluverslun eigi kost á að kaupa þessar mikilvægu neysluvörur á sambærilegu verði og þar með verði komið í veg fyrir að stórar verslanakeðjur geti keypt umræddar vörur á mun hagstæðara verði en keppinautarnir í krafti stærðar sinnar. Hins vegar sé opinber verðlagning óþörf um aðrar mjólkurafurðir að því tilskildu að næg samkeppni ríki innan lands í viðskiptum með mjólkurafurðir, aðrar en ferskar afurðir. Samhliða þessum breytingum verði þó að tryggja afurðastöðvum í mjólkuriðnaði heimildir til að ákveða sín á milli heildsöluverð á öðrum mjólkurafurðum en ferskvöru og hafa með sér samráð um viðskiptakjör gagnvart þeim sem kaupa mjólk og mjólkurafurðir í heildsölu. Einnig leggja þeir til að þrátt fyrir ákvæði samkeppnislaga verði afurðastöðvum í mjólkuriðnaði heimilt að gera samninga sín á milli um verðtilfærslu milli tiltekinna afurða og þeim heimilað að gera með sér samkomulag um verkaskiptingu milli mjólkursamlaga að því er varðar framleiðslu einstakra mjólkurvara og hafa með sér annars konar samstarf til þess að halda niðri kostnaði við framleiðslu, geymslu og dreifingu mjólkurafurða.
    Í frumvarpinu er ekki gert ráð fyrir jafnviðamiklum breytingum að svo komnu máli. Er þess í stað miðað við að ákvörðun heildsöluverðlagningar mjólkurafurða haldist óbreytt í höndum verðlagsnefndar. Þó er lagt til að stigið verði skref til þess að minnka opinber verðlagsafskipti og verðmyndun af hálfu hins opinbera með því að færa ábyrgð og endanlega ákvarðanatöku um verðlagningu mjólkurafurða sem ekki falla undir verðlagsnefnd til afurðastöðvanna sjálfra.
    Samkvæmt 1. mgr. 8. gr. búvörulaga ákveður verðlagsnefnd lágmarksverð til framleiðenda fyrir mjólk. Heimilt er þó að greiða hærra verð. Á grundvelli 1. mgr. 13. gr. búvörulaga ákveður verðlagsnefnd heildsöluverð sömu vara og verðlagðar eru skv. 8. gr. að teknu tilliti til afurðaverðs til framleiðenda og rökstuddra upplýsinga um kostnað við vinnslu og dreifingu búvara „nema annað sé tekið fram í samningi sem gerður er á grundvelli a-liðar 30. gr. laganna“. 1
    Þá er einnig lagt til að með breytingum á 13. og 71. gr. verði allri óvissu eytt um að þær aðgerðir sem þar koma fram falli ekki undir samkeppnislög.
    Ástæður þess að ekki er gengið lengra eru fyrst og fremst framangreind sjónarmið um samspil hagsmuna framleiðenda og neytenda. Eins og vikið er að í álitsgerðinni eru markaðsaðstæður hér á landi svipaðar og í Noregi og ESB-löndunum, en í því felst að í nágrannalöndum okkar er nær öll landbúnaðarframleiðsla niðurgreidd og um markaðssetningu landbúnaðarafurða gilda víðast hvar sérstakar reglur. Því er ljóst að þegar innflutningur eykst verða samkeppnisvörur íslenskrar landbúnaðarframleiðslu að miklu leyti niðurgreiddar í upprunaríkinu. Áður en til slíks innflutnings kemur í stórum stíl þarf innlendur mjólkuriðnaður að fá tækifæri til uppstokkunar og hagræðingar.
    Landbúnaðarstefna Evrópusambandsins (ESB) hefur hingað til einkennst af flóknu styrkjakerfi sem tengt er framleiðslu. Markmið landbúnaðarstefnunnar koma fram í 33. gr. Rómarsáttmálans. Þau felast m.a. í því að tryggja bændum sanngjörn lífskjör, jafnvægi á mörkuðum og stöðugt framboð, bætta og hagkvæma nýtingu, auk þess sem tryggja á neytendum sanngjarnt verð á landbúnaðarafurðum sem eru ekki ólík markmið og íslensku búvörulögin eiga að tryggja.
    Samkvæmt 36. gr. Rómarsáttmálans gilda samkeppnisreglur sáttmálans aðeins um framleiðslu og viðskipti með landbúnaðarafurðir innan þeirra marka sem ráðherraráðið ákveður. Samkvæmt þessari heimild var sett reglugerð nr. 26/62, um beitingu tiltekinna samkeppnisreglna um framleiðslu og sölu landbúnaðarafurða. Í reglugerðinni segir að samkeppnisreglum verði beitt um framleiðslu og sölu landbúnaðarafurða að því marki sem slík beiting hamli ekki starfsemi samtaka á innlendum mörkuðum með landbúnaðarvörur og skapi ekki hættu á að markmið sameiginlegrar landbúnaðarstefnu náist ekki.
    Í 2. gr. reglugerðarinnar kemur fram að reglurnar í 1. mgr. 81. gr., sem er sambærileg 10. gr. samkeppnislaga, gildi ekki um samninga, ákvarðanir og aðgerðir ef um er að ræða óaðskiljanlegan hluta af starfsemi innlends markaðar eða ráðstafanir sem eru nauðsynlegar til að ná þeim markmiðum sem fram koma í 33. gr.
    Í þessu sambandi verður að hafa í huga að hingað til hefur landbúnaðarmarkaður ESB verið verndaður fyrir erlendri samkeppni með sameiginlegum tollmúr. Viðræður innan Alþjóðaviðskiptastofnunarinnar munu þó væntanlega draga úr þeirri vernd.
    Þá hefur ESB haft afskipti af verðlagningu búvara, einkum mjólkur, kjöts og korns. Kjarninn í landbúnaðarstefnu ESB er sá að stofnanir ESB ákveða verð á búvörum til stutts tíma í senn, svokallað markmiðsverð. Er einkum höfð hliðsjón af hagsmunum bænda, þ.e. að tryggja þeim mannsæmandi lífskjör, þó einnig sé tekið tillit til hættu á offramboði og kaupgetu neytenda. Stofnanir ESB beita aðallega eftirfarandi úrræðum til að tryggja að verð landbúnaðarafurða sé nálægt markmiðsverði: Opinberar stofnanir eru í vissum tilfellum skyldugar til að kaupa búvörur á ákveðnu verði ef verð á markaði er eftir atvikum 5–10% lægra en markmiðsverð. Það verð er nefnt íhlutunarverð. Innfluttar vörur til ESB eru hækkaðar í verði þar til þær eru á sambærilegu verði og búvörur innan ESB.
    Í Noregi hefur bændum og samvinnufélögum framleiðenda verið heimilað að hafa samráð sín á milli um verð og aðra skilmála við sölu á landbúnaðarafurðum, sbr. ný samkeppnislög þar í landi sem tóku gildi 1. maí sl. Er ríkisstjórninni í þeim lögum veitt heimild til að undanskilja ákveðnar atvinnugreinar gildissviði samkeppnislaga með reglusetningu og er gert ráð fyrir í lögunum að landbúnaður verði ein þeirra atvinnugreina.
    Alþjóðavæðing hefur einnig vaxandi áhrif á samkeppnishæfni íslensks landbúnaðar í víðu samhengi og eykur skuldbindingar íslenska ríkisins til þess að opna fyrir aukinn innflutning og draga úr framleiðslu- og markaðstruflandi stuðningi við landbúnað. Slíkar breytingar hafa augljóslega áhrif á íslenskan markað, fyrir framleiðendur og söluaðila jafnt sem neytendur. Mikilvægasta alþjóðastefnumörkunin og sú sem hefur mest áhrif hér á landi er stefnuákvörðun Alþjóðaviðskiptastofnunarinnar.
    Innanlandsstuðningur samkvæmt stefnuákvörðuninni er flokkaður eftir eðli sínu í þrjá liti: Grænn stuðningur er leyfður án takmarkana og á ekki að tengjast framleiðslu eða hafa nema óveruleg markaðstruflandi áhrif. Íslensk stjórnvöld flokka t.d. stuðning við sauðfjárrækt sem grænan stuðning. Undir bláan stuðning geta fallið framleiðslutakmarkandi áætlanir sem uppfylla skilgreind skilyrði. Gulur stuðningur telst síðastur og í þann flokk falla aðgerðir sem ekki geta flokkast sem bláar eða grænar.
    Aðgerðir þjóða eru síðan flokkaðar í samræmi við framangreint. Útkoman hvað varðar gulan stuðning er mæld í svokölluðum heildarstuðningi við landbúnað, AMS (Aggregate Measurement of Support) sem hámarksheimild ríkis til að stunda framleiðslutengdan eða markaðstruflandi stuðning við landbúnað. Samþykkt samningsins í Úrúgvæ felur í sér að á tímabilinu 1995–2000 áttu samningsríkin að lækka áðurgreindan stuðning um 20%. Eftir árið 2000 hafa þjóðir innan Alþjóðaviðskiptastofnunarinnar rætt framhald samningsins, m.a. í Doha í Katar árið 2001 þar sem ákveðið var að hefja aðra samningalotu.
    Hins vegar hefur ekki náðst samstaða milli ríkja innan Alþjóðaviðskiptastofnunarinnar um hvernig haga skuli málum og aðgerðum gegn stuðningi við landbúnað í framhaldinu. Niðurstaða þeirra viðræðna mun óneitanlega hafa áhrif við mat á afmörkun markaðar fyrir íslenskar landbúnaðarafurðir, breyta markaðsaðstæðum og líklega leiða til frekari endurskoðunar á búvörulögunum.
    Í frumvarpinu er því fylgt landbúnaðarstefnu búvörulaga eins og hún kemur fram í 1. gr. þeirra. Birtast þar glögglega markmið um að tryggja jöfnuð á milli framleiðenda og viðunandi kjör bænda. Jafnframt kemur þar fram sú stefna löggjafans að framleiðsla búvara til neyslu og iðnaðar verði í sem nánustu samræmi við þarfir þjóðarinnar og tryggi ávallt nægjanlegt vöruframboð við breytilegar aðstæður í landinu.
    Í 51. gr. búvörulaga er síðan sérstaklega vikið að markmiðum X. kafla laganna sem fjallar um framleiðslu og greiðslumark mjólkur á árunum 1998–2005. Á meðal markmiðanna er að skapa rekstrarumhverfi fyrir framleiðslu og vinnslu mjólkurafurða sem leiði af sér aukna hagkvæmni, bæta afkomumöguleika í mjólkurframleiðslu og jafnframt að viðhalda þeim stöðugleika sem náðst hefur milli framleiðslu og eftirspurnar. Þá er stefnt að því að nýta á sem bestan hátt skilyrði til framleiðslu mjólkur fyrir markað innan lands og aðra þá markaði sem teljast hagkvæmir.
    Í samræmi við framangreind sjónarmið er í frumvarpinu miðað við að ákveðnum greinum búvörulaganna verði breytt til þess að gera afurðastöðvum í mjólkuriðnaði kleift að mæta harðnandi samkeppi erlendis frá þar sem líklegt er að tollar muni lækka á samkeppnisvörum í kjölfar skuldbindinga ríkisins vegna samninga aðildarríkja Alþjóðaviðskiptastofnunarinnar og þeirrar stefnu stjórnvalda að verðlagning á landbúnaðarvörum verði gefin frjáls þegar markaðsaðstæður skapast til þess að verðmyndun geti orðið á grundvelli framboðs og eftirspurnar.
    Þar til markaðurinn getur talist þroskaður í þeim skilningi er hins vegar miðað við að starfsemi afurðastöðva í mjólkuriðnaði verði undanskilin gildissviði samkeppnislaga en á móti verði heildsöluverð helstu mjólkurafurða ákveðið af verðlagsnefnd eins og verið hefur. Með því ætti að nást fram nauðsynleg hagræðing hjá afurðastöðvunum án þess að verð nauðsynjavara hækki til neytenda.
    Rétt er að vekja sérstaka athygli á að heimild verðlagsnefnda til þess að hætta afskiptum að heildsöluverði einstakra afurða, sbr. 16. gr. búvörulaga, mun verða óbreytt og sá möguleiki haldast opinn.

Athugasemdir við einstakar greinar frumvarpsins.


Um 1. gr.


    Samkvæmt 3. mgr. 13. gr. búvörulaga getur verðlagsnefnd, að fengnum tillögum afurðastöðva eða samtaka þeirra, heimilað afurðastöðvum að gera samninga sín á milli um verðtilfærslu milli tiltekinna afurða. Samningar þessir skulu hljóta staðfestingu verðlagsnefndar.
    Verðlagsnefnd hefur heimilað afurðastöðvum í mjólkuriðnaði að gera samning sín á milli um verðtilfærslu á milli tiltekinna afurða. Samtök afurðastöðva í mjólkuriðnaði (SAM) annast framkvæmd þessarar verðtilfærslu í umboði Bændasamtaka Íslands, sbr. 2. mgr. 6. gr. samnings milli Bændasamtakanna og SAM, dags. 24. febrúar 2000, en það fyrirkomulag á sér stoð í 24. gr. búvörulaga.
    Í framkvæmd fer verðtilfærslan þannig fram að stjórn SAM gerir fyrir hönd aðildarfélaga tillögur um verðtilfærslu mjólkur og mjólkurafurða sem síðan eru háðar staðfestingu verðlagsnefndar. Í tillögunum er lagt til að innheimt verði mánaðarlega verðtilfærslugjald á ýmsum mjólkurafurðum og að tilteknar mjólkurafurðir hljóti mánaðarlega endurgreiðslur úr verðtilfærslusjóði SAM. Verðtilfærslugjald er innheimt á grundvelli 22. gr. búvörulaga. Samningur um verðtilfærslu bindur ekki aðrar afurðastöðvar en þær sem að honum standa. Sem stendur eru hins vegar allar mjólkurafurðastöðvar aðilar að samkomulaginu.
    Með breytingunni er því aðeins verið að færa formið og ábyrgðina til afurðastöðvanna frá verðlagsnefnd í samræmi við venjubundna framkvæmd samkvæmt búvörulögum og undanskilja verðtilfærsluna skýrlega gildissviði samkeppnislaga. Þó er talið rétt að verðlagsnefnd sé upplýst um þessa samninga og því er lögð skylda á afurðastöðvarnar að senda nefndinni þá til upplýsingar. Breytingarnar kalla hvorki á afnám lögbundins verðtilfærslugjalds skv. 22. gr. búvörulaga, en það gjald stendur undir verðtilfærslu milli tiltekinna mjólkurafurða, né breytingar á verðmiðlunargjaldi skv. 19. gr. búvörulaga.

Um 2. gr.


    Í 71. gr. búvörulaga er kveðið á um heimild til handa afurðastöðvum í mjólkuriðnaði að gera samkomulag um verkaskiptingu um framleiðslu einstakra mjólkurvara. Samkomulagið öðlast þó ekki gildi fyrr en landbúnaðarráðherra hefur staðfest það. Í frumvarpi til breytinga á búvörulögum (þskj. 466, 299. mál 116. löggjafarþings 1992–93) segir um samsvarandi ákvæði að í ljósi þess að vænta megi erlendrar samkeppni við mjólkuriðnaðinn þyki eðlilegt að afurðastöðvarnar hafi áfram möguleika á að starfa saman, ef þær svo kjósa, til að styrkja samkeppnisstöðu sína. Var heimild til samkomulags um verðtilfærslu jafnframt bundin við slíka verkaskiptingu.
    Í 1. kafla áðurgreinds samkomulags milli SAM og Bændasamtaka Íslands, sem staðfest er af landbúnaðarráðherra, er fjallað m.a. um áætlanir fyrir innanlandsmarkað og birgðastjórnun. Í 2. gr. kemur fram að samningsaðilar skuli gera áætlun um sölu mjólkurvara á innlendum markaði fyrir viðkomandi verðlagsár. Áætlunin skuli gerð fyrir allar afurðastöðvar á landinu og sýna tegundir mjólkurvara, framleiðslu, sölu og líklegar birgðir í lok verðlagsársins. Við gerð áætlunarinnar skuli m.a. hafa hliðsjón af þörf markaðarins fyrir einstakar vörutegundir. Í 3. gr. samningsins kemur fram að birgðir mjólkurvara skulu á hverjum tíma vera sem næst þörf innanlandsmarkaðar. Síðan segir að SAM annist eftirlit með heildarbirgðum mjólkurvara sem og samsetningu þeirra og að samtökin skuli grípa til nauðsynlegra ráðstafana í framleiðslustjórnun hjá afurðastöðvum til að sjá um að birgðahald falli að þörfum innanlandsmarkaðar.
    Með breytingunum er verið að styrkja framangreindan grundvöll til hagræðingar og tryggja eðlilega að sú hagræðing njóti enn um sinn undanþágu frá gildissviði samkeppnislaga ef það er gert í þeim tilgangi að halda niðri kostnaði við framleiðslu, geymslu og dreifingu mjólkurafurða. Í breytingunni felst einnig að afurðastöðvarnar þurfa ekki lengur leyfi landbúnaðarráðherra til þess að sameinast, gera með sér samkomulag um verkaskiptingu milli mjólkursamlaga að því er varðar framleiðslu einstakra mjólkurvara og hafa með sér annars konar samstarf til samræmis við aukna ábyrgð afurðastöðvanna sjálfra á verðlagningu.

Um 3. gr.


    Greinin þarfnast ekki skýringar.



Fylgiskjal.

Fjármálaráðuneyti,
fjárlagaskrifstofa:


Umsögn um frumvarp til laga um breytingu á lögum nr. 99/1993,
um framleiðslu, verðlagningu og sölu á búvörum, með síðari breytingum.

    Tilgangurinn með frumvarpinu er að lögfesta ákvæði um að samráð, samruni og verðtilfærsla í mjólkuriðnaði sé undanskilið gildissviði samkeppnislaga. Verði frumvarpið óbreytt að lögum verður ekki séð að það hafi kostnaðarauka í för með sér fyrir ríkissjóð.
Neðanmálsgrein: 1
    1     Verðlagsnefnd ákveður nú heildsöluverð eftirtalinna vara: nýmjólk (allar umbúðastærðir), rjómi, undanrenna, skyr (ópakkað), smjör (allir flokkar), ostur (17% og 26%), nýmjólkurduft og undanrennuduft, sbr. grein 6.3 í samningi um starfsskilyrði mjólkurframleiðslu, dags. 17. desember 1997.