Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 982. máls.
130. löggjafarþing 2003–2004.
Þskj. 1685  —  982. mál.




Svar



utanríkisráðherra við fyrirspurn Helga Hjörvars um upptöku gerða í EES-samninginn.

     1.      Hafa Norðmenn nýtt stjórnarskrárákvæði um aukinn meiri hluta við innleiðingu þeirra gerða sem teknar hafa verið upp í samninginn um Evrópska efnahagssvæðið í sameiginlegu EES-nefndinni, eftir að hún var sett á fót? Ef svo er, hve margar gerðir voru taldar þurfa aukinn meiri hluta og hverjar eru þær?
    Í 93. gr. stjórnarskrár Noregs er að finna heimild til framsals ríkisvalds til alþjóðlegra stofnana. Slíkt framsal krefst 3/ 4 hluta atkvæða í norska Stórþinginu. Samkvæmt upplýsingum þaðan hefur aldrei reynt á þetta ákvæði, hvorki við afgreiðslu ákvarðana sameiginlegu EES- nefndarinnar né annarra milliríkjasamninga sem Noregur hefur gerst aðili að.

     2.      Ef um slíkar gerðir er að ræða, hver var afstaða íslenskra stjórnvalda til upptöku þeirra og á hvaða lagagrunni var byggt? Er ástæða til þess að ætla að óvissa sé um lagastoð þessara gerða, þar sem engin ákvæði eru í íslensku stjórnarskránni sambærileg við hin norsku? Ef svo er, hvaða afleiðingar getur það haft?
    Eins og fram kemur í svari við 1. lið eru þess ekki dæmi að samþykki ákvarðana sameiginlegu EES-nefndarinnar hafi kallað á þá málsmeðferð sem 93. gr. stjórnarskrár Noregs mælir fyrir um. Ákvarðanir sameiginlegu EES-nefndarinnar um breytingar á viðaukum eða bókunum við EES-samninginn eru þjóðréttarsamningar. Fer um samþykki þeirra skv. 21. gr. stjórnarskrár lýðveldisins Íslands. Undanfarin ár hefur meðferð þeirra ákvarðana sameiginlegu EES-nefndarinnar sem kalla á lagabreytingar hér á landi því verið færð til samræmis við almenna meðferð þjóðréttarsamninga. Í því felst að almennt er leitað sérstaklega eftir samþykki Alþingis til staðfestingar á þeim ákvörðunum sameiginlegu EES-nefndarinnar sem kalla á lagabreytingar. Slíks samþykkis er leitað í formi þingsályktunar. Samhliða undirbýr viðkomandi ráðuneyti nauðsynleg frumvörp til lagabreytinga til að laga megi íslenska löggjöf að þeim skuldbindingum sem leiðir af ákvörðuninni. Er það í samræmi við þá reglu íslensks réttar (hina svonefndu tvíeðliskenningu) að þær þjóðréttarlegu skuldbindingar sem íslenska ríkið hefur gengist undir binda aðeins ríkið sjálft en ekki stofnanir þess eða einkaaðila. Þarf Alþingi því að samþykkja breytingar á innlendum lögum til að beita megi þeim reglum sem leiðir af umræddri þjóðréttarskuldbindingu gagnvart innlendum aðilum. Með hliðsjón af framangreindu verður ekki talið að þetta vinnulag leiði til lagalegrar óvissu, enda samræmist það að fullu stjórnarskránni og þeim stjórnskipunarvenjum sem skapast hafa hér á landi.