Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 823. máls.
130. löggjafarþing 2003–2004.
Þskj. 1694  —  823. mál.




Svar



menntamálaráðherra við fyrirspurn Guðrúnar Ögmundsdóttur um samstarfssamninga við lýðháskóla.

    Fyrirspurnin hljóðar svo:
    Hvaða samstarfssamningar eru til milli menntamálaráðuneytis og lýðháskóla á Norðurlöndunum? Ef þeir eru til, hvað er þá greitt með hverjum nemanda og hvaða aðrir framfærslustyrkir standa ungmennum til boða sem þennan valkost kjósa að loknum grunnskóla?


    Enginn samstarfssamningur er til milli ráðuneytisins og lýðháskóla á Norðurlöndunum.
    Íslenskir námsmenn og aðrir norrænir námsmenn hafa fram til síðustu áramóta notið norrænna styrkja til að sækja nám í lýðháskólum á Norðurlöndum, en þá voru styrkirnir lækkaðir og þeim breytt í ferðastyrki. Upphæðin sem íslenskir námsmenn fá nemur nú 2.000 dönskum krónum. Til stendur að reyna að hækka þessa upphæð um helming frá og með næstu áramótum.
    Ástæðan fyrir þessum breytingum er niðurstaða úttektar á styrkveitingakerfi til fullorðinsfræðslu sem Norræna ráðherranefndin stóð fyrir á síðasta ári. Mikillar óánægju var farið að gæta meðal þeirra er hlut áttu að máli í hinum norrænu ríkjunum. Annars vegar yfir því hversu ójöfn styrkupphæð var til nemenda eftir löndum og hins vegar vegna þess hversu hátt hlutfall heildarupphæðarinnar rann til Íslands, eða rúmlega þriðjungur. Íslenskur nemandi fékk allt að því 3–7 sinnum hærri styrk en aðrir nemendur árin 2001 og 2002.
    Þessi mismunur stafaði af því að styrkirnir áttu að koma til móts við eigið framlag nemenda. Gengið var út frá því við úthlutun styrkjanna að ef nemendur gætu ekki sjálfir lagt fram slíkt fjármagn ættu þeir kost á láni eða styrk frá innlendum lánasjóðum. Sú hefur ekki verið raunin hér á landi. Í svari frá LÍN um aðstoð við nemendur er sækja nám í lýðháskólum kom fram að LÍN teldi það ekki vera verkefni sitt að styrkja nemendur til náms í lýðháskólum þar sem það teldist ekki jafnt eða ígildi háskólanáms.
    Til að gera ekki íslenskum nemendum ókleift að sækja nám í lýðháskólum var ákveðið á sínum tíma innan fullorðinsfræðslunefndar Norrænu ráðherranefndarinnar að framlag til íslenskra nema hækkaði til að jafna þennan mismun. Í tímans rás hefur upphæðin hins vegar hækkað umfram það sem ákveðið var í byrjun. Þetta var m.a. ein ástæða þess að fyrrnefnd úttekt var gerð.