Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 824. máls.
130. löggjafarþing 2003–2004.
Þskj. 1699  —  824. mál.




Svar



menntamálaráðherra við fyrirspurn Guðrúnar Ögmundsdóttur um brottfall nemenda úr framhaldsskólum.

    Fyrirspurnin hljóðar svo:
     1.      Hversu mörgum nemendum á fyrsta ári framhaldsskóla hefur verið vikið úr námi fyrir lélega mætingu sl. fjögur ár?
     2.      Hversu margir nemendur framhaldsskóla hafa sl. fjögur ár:
                  a.      fallið á prófum fyrsta árs,
                  b.      ekki skráð sig á nýjan leik eftir fyrsta ár?
     3.      Hversu margir af þessum nemendum áttu við sértæka námsörðugleika að ræða, svo sem lesblindu?
     4.      Hvernig er greitt til framhaldsskólanna með þeim nemendum sem falla á fyrsta ári?


    Þar sem hvorki menntamálaráðuneytið né Hagstofa Íslands hafa safnað þeim upplýsingum sem óskað er eftir í 1. tölulið, a-lið 2. töluliðar og 3. tölulið fyrirspurnarinnar sendi ráðuneytið spurningalista til skólameistara framhaldsskóla til að kanna hvort þeir gætu veitt þessar upplýsingar. Svör bárust frá 25 skólum. Svörin og athugasemdir með þeim báru með sér að það er annmörkum háð að veita áreiðanleg svör við þessum liðum en almenn og kerfisbundin söfnun upplýsinga hefur ekki átt sér stað um þessa þætti. Á það ekki síst við um 1. og 3. tölulið. Ráðuneytið vann niðurstöðutölur úr þeim upplýsingum sem bárust frá skólunum fyrir skólaárin 2001/2002 og 2002/2003, en með þeim fyrirvara sem áður getur um áreiðanleika upplýsinganna og einnig að upplýsingar bárust ekki frá öllum framhaldsskólum og í sumum tilvikum aðeins svör við hluta spurninganna.
    Hagstofa Íslands vann svar við b-lið 2. töluliðar.

    1. Í ljósi þeirra fyrirvara sem eru gerðir við upplýsingarnar frá skólunum er hér aðeins fjallað um tölur fyrir skólaárin 2001/2002 og 2002/2003. 24 skólar svöruðu spurningunni og í níu þeirra var engum nemanda vikið úr skóla vegna lélegrar mætingar skólaárið 2001/2002. Frá 15 skólum bárust upplýsingar um að alls 102 fyrsta árs nemendum hefði verið vikið úr skóla það skólaár vegna lélegrar mætingar, eða 3,4% fyrsta árs nemenda í þeim skólum sem svöruðu. Skólaárið 2002/2003 var engum nemanda vísað úr skóla vegna lélegrar skólasóknar í 10 af 24 skólum. Alls var 78 fyrsta árs nemendum vísað úr hinum 14 skólunum þetta skólaár, eða um 2,6% af fyrsta árs nemendum í þeim skólum sem svöruðu könnuninni.

    2a. Miðað við svör frá 22 framhaldsskólum féllu 511 fyrsta árs nemar á prófum fyrsta árs í þessum skólum skólaárið 2001/2002 samkvæmt viðmiðum Aðalnámskrár framhaldsskóla. Skólaárið 2002/2003 voru þeir 450. Í þessum sömu skólum voru 2.600 fyrsta árs nemar haustið 2001 og 2.655 haustið 2002. Hér var því um að ræða 19,65 % fyrsta árs nemenda í þessum skólum fyrra árið og 16,95% seinna árið. Vakin er athygli á að svör vantar frá allmörgum skólum.
    2b. Í svari frá Hagstofu Íslands um brottfall fyrsta árs nema í framhaldsskólum 1999–2003 kemur m.a. fram að hlutfall þeirra sem hættu námi lækkaði frá skólaárinu 1999/2000 til skólaársins 2002/2003 úr 16,5% í 11,5%.
    Taldir eru saman nemendur í dagskóla á framhaldsskólastigi um miðjan október á hverju ári samkvæmt nemendaskrá Hagstofu Íslands og þeir bornir saman við skráða nemendur í öllum skólum á landinu (framhaldsskólum, háskólum, sérskólum og tónlistarskólum og með skráða iðnsamninga) ári seinna. Eingöngu eru taldir nemendur á fyrsta ári sem eru yngri en 17 ára. Nemendur að hausti sem ekki eru í námi haustið á eftir eru bornir saman við útskrifaða nemendur í öllum skólum frá 1. desember til 30. nóvember ári seinna samkvæmt prófaskrá Hagstofu Íslands. Þeir nemendur sem hvorki hafa útskrifast á þessu tímabili né koma fram í nemendaskrá haustið á eftir teljast hafa hætt námi viðkomandi ár.

Heildarbrottfall.
1999 2000 2001 2002
Fjöldi nemenda að hausti 3.833 3.684 3.503 3.542
Nemendur að hausti sem ekki koma fram í skóla eða á skráðum iðnsamningi haustið eftir
639

512

461

422
Þar af brautskráðir frá 1. desember til 30. nóvember ári seinna 8 13 15 13
Brottfallnir nemendur 631 499 446 409
Brottfall í % 16,5 13,5 12,7 11,5


Brottfall eftir kyni.
1999–2000 2000–2001 2001–2002 2002–2003
Nem. Brottfall Nem. Brottfall Nem. Brottfall Nem. Brottfall
1999 Fjöldi % 2000 Fjöldi % 2001 Fjöldi % 2002 Fjöldi %
Piltar 1.871 356 19,0 1.844 271 14,7 1.692 237 14,0 1.765 218 12,4
Stúlkur 1.962 275 14,0 1.840 228 12,4 1.811 209 11,5 1.777 191 10,7
Alls 3.833 631 16,5 3.684 499 13,5 3.503 446 12,7 3.542 409 11,5


Brottfall eftir flokkun náms.
1999–2000 2000–2001 2001–2002 2002–2003
Nem. Brottfall Nem. Brottfall Nem. Brottfall Nem. Brottfall
1999 Fjöldi % 2000 Fjöldi % 2001 Fjöldi % 2002 Fjöldi %
Bóknám 2.932 443 15,1 2.760 371 13,4 2.658 345 13,0 2684 297 11,1
Starfsnám 901 188 20,9 924 128 13,9 845 101 12,0 858 112 13,1
Alls 3.833 631 16,5 3.684 499 13,5 3.503 446 12,7 3.542 409 11,5
Athugasemdir:
Nemendur á almennri braut eru taldir með nemendum í bóknámi og nemendur í listnámi með nemendum í starfsnámi.
Nemendur eru stundum skráðir í fleiri en einn skóla. Þá eru þeir settir í þann skóla þar sem þeir stunda aðallega nám samkvæmt nemendaskrá Hagstofu Íslands. Þó eru nemendur í listaskólum sem líka stunda nám í öðrum skólum settir í aðra skóla en listaskóla.


    3. Aðeins 13 framhaldsskólar veittu einhverjar tölulegar upplýsingar um sértæka námsörðugleika viðkomandi nemenda skólaárið 2001/2002 og 14 skólaárið 2002/2003 þannig að hæpið er að draga ályktanir af þeim svörum. Samkvæmt upplýsingunum sem bárust frá þessum skólum áttu 57 nemendur af þeim sem höfðu fallið á prófum fyrsta árs eða ekki skráð sig á nýjan leik eftir fyrsta ár við sértæka námsörðugleika að etja skólaárið 2001/2002. Skólaárið 2002/2003 var um 72 nemendur að ræða í þessum sömu skólum.

    4. Greiðslur vegna nemenda sem falla í framhaldsskólum eru eins og vegna nemenda sem standast próf, svo framarlega sem þeir gangast undir próf eða sæta öðru námsmati.