Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 959. máls.
130. löggjafarþing 2003–2004.
Þskj. 1740  —  959. mál.




Svar



félagsmálaráðherra við fyrirspurn Össurar Skarphéðinssonar um erlenda starfsmenn á Kárahnjúkasvæðinu.

     1.      Hversu margir erlendir starfsmenn hafa verið á Kárahnjúkasvæðinu frá því að framkvæmdir hófust?
    Vinnumálastofnun veitir starfsleyfi í umboði félagsmálaráðherra skv. 2. mgr. 4. gr. laga um atvinnuréttindi útlendinga, nr. 97/2002. Samkvæmt upplýsingum stofnunarinnar hefur hún aðeins upplýsingar um fjölda erlendra starfsmanna sem koma frá ríkjum utan Evrópska efnahagssvæðisins á grundvelli tímabundinna atvinnuleyfa. Frá því að framkvæmdir hófust hefur ítalska fyrirtækinu Impregilo S.p.A. verið veitt 161 leyfi og útibúi Váhostav á Íslandi 45 leyfi. Þá voru veitt leyfi vegna 132 starfsmanna við uppsetningu vinnubúða en þeir eru nú allir farnir.
    Samkvæmt upplýsingum Útlendingastofnunar hafa 405 útlendingar af Evrópska efnahagssvæðinu fengið dvalarleyfi til starfa á Kárahnjúkasvæðinu. Bent er á að EES-búar þurfa ekki dvalarleyfi hér á landi nema þeir dvelji lengur en þrjá mánuði. Enn fremur er vakin athygli á því að eftirlit með útlendingum á umræddu svæði heyrir undir lögregluna á Seyðisfirði.

     2.      Hversu margir þeirra hófu strax við komu störf á vinnuvélum eða ökutækjum þar sem krafist er meiraprófs eða annarra starfsréttinda án afskipta Vinnueftirlitsins?
    Samkvæmt upplýsingum Vinnueftirlitsins liggja ekki fyrir upplýsingar um hversu margir hófu störf við stjórn vinnuvéla að þeim undanskildum sem sóttu um viðurkenningu á vinnuvélaréttindum sínum til Vinnueftirlitsins.
    Ekki liggja fyrir upplýsingar um hversu margir hafa meiraprófsréttindi.

     3.      Hversu margir þeirra höfðu tilskilin réttindi er þeir hófu störf á svæðinu og hversu margir hafa tekið próf á vegum Vinnueftirlitsins? Óskað er sundurgreiningar á vinnuvélaprófum og meiraprófum.
    Samkvæmt upplýsingum Vinnueftirlitsins eru erlendir stjórnendur vinnuvéla 98 talsins, þar af 27 Kínverjar og 71 Portúgali. Tekið skal fram að á Kárahnjúkasvæðinu eru 75 vélar sem krafist er réttinda til að stjórna.
    Kínverjarnir skiluðu við komu inn vottorðum um vinnuvélaréttindi sín, þýdd á ensku. Nýi ökuskólinn hélt námskeið fyrir þá og kannaði þekkingu þeirra. Kínverjarnir tóku síðan próf á vegum Vinnueftirlitsins og í kjölfarið fengu þeir innlend skírteini.
    Réttindi Portúgalanna voru afgreidd í samræmi við ákvæði tilskipunar ráðsins 92/51/EBE. Í Portúgal er starfsgreinin ekki lögvernduð og því ekki krafist skírteina til staðfestingar á því að viðkomandi megi stjórna vinnuvél. Krafðist Vinnueftirlitið þess – í samræmi við tilskipunina – að hver umsækjandi legði fram vottorð þar sem fram kemur að hann hafi lagt stund á starfsgreinina í a.m.k. tvö ár á undangengnum tíu árum. Auk þessa tóku þessir starfsmenn verklegt próf þar sem einnig voru lagðar fyrir þá munnlegar spurningar. Um framkvæmd prófsins sáu starfsmenn Vinnueftirlitsins.
     4.      Hversu margir hinna erlendu starfsmanna hafa sinnt störfum þar sem krafist er starfsréttinda iðnaðarmanna?
    Samkvæmt upplýsingum frá Vinnumálastofnun og Impregilo liggja ekki fyrir upplýsingar um hversu margir erlendir starfsmenn hafa sinnt störfum þar sem krafist er starfsréttinda iðnaðarmanna.

     5.      Hversu margir hinna erlendu starfsmanna, sem hafa verið skráðir inn í landið vegna Kárahnjúkaframkvæmdanna, hafa komið hingað sem iðnaðarmenn?
    Impregilo hefur verið veitt leyfi til að ráða 13 iðnaðarmenn (þar af fjóra yfirmenn). Engar upplýsingar liggja fyrir um störf ríkisborgara af Evrópska efnahagssvæðinu.
    EES-borgarar sem fá hér dvalarleyfi þurfa ekki atvinnuleyfi og því liggja ekki fyrir upplýsingar um fjölda þeirra. EES-borgarar sem dvelja hér skemur en þrjá mánuði þurfa hvorki dvalar- né atvinnuleyfi.

     6.      Hversu margir hinna erlendu iðnaðarmanna höfðu tilskilda starfsmenntun?
    Af framangreindum 13 leyfum vegna iðnaðarmanna voru sjö rafvirkjar sem allir höfðu tilskilda starfsmenntun. Hinir sex starfa í greinum þar sem starfsmenntunar er ekki krafist í heimalandi.
    
     7.      Hversu margir hinna erlendu starfsmanna hafa komið frá ríkjum utan Evrópska efnahagssvæðisins?
    Sjá svar við 1. lið fyrirspurnarinnar.