Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 38. máls.
130. löggjafarþing 2003–2004.
Þskj. 1750  —  38. mál.




Nefndarálit



um frv. til l. um breyt. á almennum hegningarlögum, nr. 19/1940, með síðari breytingum.

Frá meiri hluta allsherjarnefndar.



    Nefndin hefur fjallað um málið og fékk hún á sinn fund Thomas Ekman, yfirmann teymis gegn vændi og verslun með konur innan lögreglunnar í Gautaborg, Petru Östergren, mannfræðing, Helga Gunnlaugsson, félags- og afbrotafræðing, Róbert Spanó frá refsiréttarnefnd, Björn Þorvaldsson frá embætti ríkislögreglustjóra, Sigríði Friðjónsdóttur frá embætti ríkissaksóknara, Guðrúnu Jónsdóttur frá Stígamótum, Katrínu Önnu Guðmundsdóttur frá Femínistafélagi Íslands, Guðrúnu Agnarsdóttur frá Neyðarmóttöku vegna nauðgana, Jónatan Þórmundsson frá Háskóla Íslands, Svölu Ólafsdóttur frá Háskólanum í Reykjavík, Egil Stephensen og Katrínu Hilmarsdóttur frá lögreglustjóranum í Reykjavík og Brynhildi Flóvenz. Auk þess bárust nefndinni skriflegar umsagnir fjölda aðila.
    Eins og fram kemur í greinargerð með frumvarpinu er þar gerð tillaga um að refsiábyrgð vegna vændis breytist þannig að kaup á vændi og annarri kynlífsþjónustu verði refsiverð en vændi sem stundað er til framfærslu verði ekki lengur refsivert. Fjórtán kvennasamtök og stofnanir styðja að kaup á vændi séu gerð refsiverð og að refsiákvæðum fyrir sölu á vændi verði aflétt. Í umsögn ríkissaksóknara er tekið undir þá tillögu sem felst í frumvarpinu að sala á vændi verði refsilaus.
    Í núverandi löggjöf skiptir það öllu máli hvort vændi er til framfærslu eða ekki. Það sýnir afstöðu löggjafans til vændis á sínum tíma en hún virðist hafa einkennst af því sjónarmiði að ekki hafi verið talin ástæða til að spyrna við fótum fyrr en fjárhagslegir hagsmunir væru í húfi. Vændi er hins vegar alvarlegt samfélagslegt vandamál þar sem í því felst hagnýting á manneskjunni – mannslíkamanum sem þannig er gerður að söluvöru.
    Skilningur löggjafans á vændi sést einna best á því að allt fram til ársins 1992 var ákvæðið um vændi í þeim kafla almennra hegningarlaga sem fjallar um brot á reglum um framfærslu og atvinnuhætti. Meiri hlutinn telur það óforsvaranlegt að fjalla um verslun með líkama fólks eins og hverja aðra vöru.
    Fjöldi umsagna hefur borist nefndinni og hafa umsagnaraðilar bent á margs konar tengsl milli ofbeldis og vændis. Stígamót benda á að um 65–85% þeirra kvenna sem stunda vændi hafi sjálfar áður orðið fyrir kynferðisofbeldi af einhverju tagi. Meiri hlutinn áréttar þá hugmyndafræði sem liggur að baki frumvarpinu, að þeir sem leiðast út í að selja aðgang að líkama sínum geri það af neyð og séu því fórnarlömb aðstæðna sem meðhöndla beri með félagslegum úrræðum frekar en refsiréttarlegum.
    Annað gildir um kaup á vændi þar sem kaupandi vændis hefur ætíð val sem seljandi vændis hefur oftast ekki vegna félagslegrar stöðu sinnar eða þvingunar af hálfu þriðja aðila. Ekkert Norðurlandanna nema Ísland hefur ákvæði í löggjöf sinni sem mælir svo fyrir að þeir einstaklingar sem selja aðgang að líkama sínum baki sér refsiábyrgð. Ef aðstæður eru skoðaðar er augljóslega mikill aðstöðumunur milli vændiskaupandans og hins sem selur. Kaupandi er gerandi í því broti þegar líkami er keyptur til afnota fyrir kynlífsathafnir. Með því að gera þátt kaupandans refsiverðan er stigið mikilvægt skref til að minnka eftirspurn eftir vændi sem einnig dregur úr mansali.
    Meiri hlutinn telur afar mikilvægt að þáttur þess sem stundar vændi verði gerður refsilaus en þar með aukast líkurnar á að hægt verði að koma höndum yfir milligöngumennina sem hafa eymd annarra að féþúfu. Standi sá sem stundar vændi ekki frammi fyrir ákæru og refsiábyrgð má telja að viðkomandi sé bæði líklegri til að vitna gegn milligöngumanninum og að leita sér hjálpar hjá opinberum aðilum.
    Meiri hlutinn fagnar tilkomu þessa frumvarps og telur mikilvægt að löggjafinn lýsi þannig vanþóknun sinni á þeirri háttsemi sem frumvarpið fjallar um. Meiri hlutinn telur þó nauðsynlegt að gera nokkrar breytingar á frumvarpinu. Rétt er að taka fram að breytingartillögur meiri hlutans voru álitnar mjög til bóta af sérfræðingum á sviði lögfræði sem komu á fund nefndarinnar.
    Lagt er til að í stað orðanna „kynlífsþjónustu af nokkru tagi“ í 1. mgr. 1. gr. frumvarpsins komi orðið „vændi“. Meiri hlutinn telur hugtakið vændi uppfylla kröfur um skýrleika og nákvæmni refsiheimilda sem orðin „kynlífsþjónusta af nokkru tagi“ gera ekki.
    Umsagnir refsiréttarnefndar, lögreglustjórans í Reykjavík, Femínistafélags Íslands, laganefndar Lögmannafélags Íslands og fleiri styðja þetta sjónarmið meiri hlutans.
    Skilningur meiri hlutans er að hugtakið „vændi“ feli í sér tvö meginatriði sem bæði þurfa að vera uppfyllt og skulu vera túlkuð rúmt:
     1.      Tilteknar kynlífsathafnir, þ.e. samræði eða önnur kynferðismök, eigi sér stað.
     2.      Greiðslu eða annan ávinning fyrir samræði eða önnur kynferðismök eða loforð um greiðslu. Í þessu tilliti koma ekki einungis til álita beinar peningagreiðslur, heldur og ýmiss konar önnur verðmæti og ígildi peninga, svo sem húsnæði, utanlandsferðir, áfengi, fíkniefni o.fl.
    Þá er rétt að taka fram að í umsögn refsiréttarnefndar kemur fram að hugtakið vændi hafi ekki leitt til erfiðleika í réttarframkvæmd.
    Jafnframt er lagt til að í stað orðsins „greiðir“ í 1. mgr. 1. gr. komi „lætur af hendi eða heitir greiðslu eða öðrum ávinningi“ og er þetta orðalag skýrara. Ef orðin „heitir greiðslu eða öðrum ávinningi“ vantar væri brot ekki fullframið fyrr en sannað væri að greiðsla hefði farið fram.
    Meiri hlutinn leggur einnig til að ákvæði um sektarúrræði verði bætt í 1. og 2. mgr. en slíkt verður að teljast sanngjarnt, sérstaklega í ljósi reynslu Svía af sams konar löggjöf en slíkt úrræði er í sænsku löggjöfinni. Meiri hlutinn telur að sektarúrræði geti gert saksókn líklegri en hafa einungis lágmarksrefsingu í 30 daga fangelsi, m.a. í ljósi f-liðar 2. mgr. 113. gr. laga nr. 19/1991, um meðferð opinberra mála, um niðurfellingu saksóknar.
    Einnig getur sektarúrræði komið að notum þegar lögmælt refsilækkunarástæða er til staðar, t.d. skv. 74. gr. almennra hegningarlaga. Í umsögn Femínistafélags Íslands kemur m.a. fram ósk um að sektarúrræði verði bætt við. Sömuleiðis leggur meiri hlutinn til að hámarksrefsing verði eitt ár í stað tveggja ára en í Svíþjóð er hámarksrefsing fyrir sambærilegt brot sex mánuðir.
    Þá er lagt til að á eftir orðinu ,,tekjur“ í 2. mgr. 1. gr. frumvarpsins komi „eða annan ávinning“. Tekjur skal skýra rúmt í skilningi frumvarpsins og þykir viðbótin renna enn frekari stoðum undir þá túlkun. Breytingin er jafnframt til samræmis við orðalag í 2. mgr. 227. gr. a almennra hegningarlaga. Í ljósi þess að milliganga um vændi í eitt skipti verður refsiverð eftir samþykkt þessa frumvarps telur nefndin rétt að bæta sektarúrræðum við ákvæðið.
    Meiri hlutinn leggur jafnframt til að í stað orðalagsins „stuðla að því að fólk sé flutt úr landi“ komi orðalagið „stuðla að því að nokkur maður flytji úr landi“. Með orðinu „fólk“ er ekki nægilega skýrt að ákvæðið getur átt við eina manneskju á hvaða aldri sem er. Með orðalaginu „flutt“ í stað þess „að stuðla að því að nokkur maður flytji“ er ákvæðið hugsanlega þrengt of mikið því skilja má það svo að áskilið sé að um nauðungarflutninga eða fylgd sé að ræða.
    Lagt er til að orðin ,,hvers kyns klám- eða kynlífsiðnaði“ í 4. mgr. 1. gr. frumvarpsins verði tekin út og orðið ,,vændi“ sett í þeirra stað. Annars yrði lagagreinin of víðtæk og erfitt að framfylgja henni. Laganefnd Lögmannafélags Íslands tekur undir breytingartillögurnar við 4. mgr. 1. gr. frumvarpsins og telur að frumvarpið færi ákvæðið til samræmis við tilmæli ráðherranefndar Evrópuráðsins nr. R 2000/11 frá 19. maí 2000. Svipaðar breytingar eru lagðar til á 5. mgr. 1. gr. frumvarpsins.
    Meiri hluti allsherjarnefndar leggur til að frumvarpið verði samþykkt með framangreindum breytingum sem gerð er tillaga um í sérstöku þingskjali.
    Sigurjón Þórðarson skrifar undir álit þetta með fyrirvara.
    Kolbrún Halldórsdóttir, sem er áheyrnarfulltrúi í nefndinni, er samþykk áliti þessu.

Alþingi, 19. maí 2004.



Ágúst Ólafur Ágústsson,


frsm.


Sigurjón Þórðarson,


með fyrirvara.

Jónína Bjartmarz.



Bryndís Hlöðversdóttir.


Ingibjörg Sólrún Gísladóttir.