Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 747. máls.
130. löggjafarþing 2003–2004.
Þskj. 1757  —  747. mál.




Breytingartillögur



við frv. til l. um jöfnun kostnaðar við dreifingu raforku.

Frá Steingrími J. Sigfússyni.



     1.      Við 1. gr. Greinin orðist svo:
                  Markmið laga þessara er að jafna kostnað við dreifingu raforku til almennra notenda svo að munur á orkuverði haldist ætíð innan hóflegra marka og landsmenn allir fái notið góðs af sameiginlegum orkulindum þjóðarinnar.
     2.      Við 3. gr. Greinin orðist svo:
                  Á hverju gjaldskrársvæði skal vera samræmd gjaldskrá fyrir alla notendur. Ef heimiluð verður sérstök gjaldskrá fyrir þau dreifbýlissvæði sem sannanlega eru dýrari en gjaldskrá þéttbýlis verður það einungis gert að fenginni heimild Orkustofnunar í samræmi við 5. mgr. 17. gr. raforkulaga, nr. 65/2003. Greiða skal niður, með útdeilingu á jöfnunargjaldi, kostnað almennra notenda vegna dreifingar raforku á þeim svæðum þar sem Orkustofnun hefur heimilað sérstakar dreifbýlisgjaldskrár í samræmi við ákvæði 5. mgr. 17. gr. raforkulaga, nr. 65/2003.
                  Til að fjármagna jöfnunargjald, sbr. 1. mgr., skal leggja á orkuframleiðendur sérstakt grunngjald sem samsvarar upphæð árlegs reiknaðs jöfnunargjalds ásamt tilsvarandi eftirlitskostnaði Orkustofnunar og reiknast sem álag á hverja selda orkueiningu sem framleidd er í landinu og fer til flutnings um flutningskerfi Landsnets. Skal framleidd orka sem kann að vera flutt beint frá orkuveri til stóriðju með línu sem stendur utan flutningskerfis Landsnets einnig teljast með í útreikningum á upphæð grunngjaldsins.
        Skilyrði niðurgreiðslu er að meðaldreifingarkostnaður notenda í kr./kWst sé umfram viðmiðunarmörk sem iðnaðarráðherra setur í reglugerð. Við ákvörðun viðmiðunarmarka skal gæta að þau verði aldrei hærri en meðaltal þeirra tveggja gjaldskráa dreifiveitna sem hæstar eru að dreifbýlisgjaldskrám undanskildum. Þeirri fjárhæð sem fengin er með árlegu grunngjaldi á orkuframleiðendur skal skipt hlutfallslega eftir orkunotkun á dreifbýlisgjaldskrársvæði miðað við kostnað dreifiveitu umfram viðmiðunarmörk í reglugerð.
     3.      Við 5. gr. Greinin orðist svo:
                  Orkustofnun hefur eftirlit með framkvæmd laga þessara. Upplýsingar og gögn sem nauðsynleg eru vegna framkvæmdar þeirra skulu liggja fyrir hjá Orkustofnun. Um upplýsingaskyldu Orkustofnunar vegna framkvæmdar laganna gilda ákvæði stjórnsýslulaga og upplýsingalög.
                  Dreifiveitum ber að veita Orkustofnun sundurgreindar upplýsingar um kostnað við dreifingu á gjaldskrársvæði þegar stofnunin fer fram á slíkt. Dreifiveitum ber að veita hagsmunaaðilum, svo sem fulltrúa neytenda og stéttarfélaga, sundurgreindar upplýsingar um kostnað við dreifingu á gjaldskrársvæði, enda fylgi slíkri beiðni málefnalegur rökstuðningur.
                  Orkustofnun skal ár hvert áætla kostnað stofnunarinnar við eftirlit samkvæmt lögum þessum og leggja fyrir iðnaðarráðherra til staðfestingar. Kostnaður við eftirlit Orkustofnunar samkvæmt staðfestri áætlun greiðist af álögðu grunngjaldi, sbr. 3. gr.
     4.      Við bætist ákvæði til bráðabirgða, svohljóðandi:
                  Í framhaldi af setningu laga þessara skal iðnaðarráðherra leita eftir samkomulagi við alla orkuframleiðendur í landinu sem framleiða orku sem flutt er og seld utanaðkomandi aðila og skyldir eru til greiðslu grunngjalds skv. 3. gr. Heimilt er að taka tillit til þess ef orkuframleiðandi er bundinn af samningum um afhendingu orku á föstu verði og ekki næst samkomulag um breytingar á samningnum til hækkunar í samræmi við grunngjaldið innan gildistíma samningsins. Skal ráðherra þá meta hvort afkoma viðkomandi orkufyrirtækis leyfi að það beri grunngjald af þessum hluta framleiðslunnar engu að síður. Nú hefur einörð viðleitni orkufyrirtækis til að fá gildandi samningum breytt til hækkunar vegna greiðslu grunngjalds ekki borið árangur og ráðherra metur það svo að afkoma fyrirtækisins leyfi ekki að það beri gjaldið, og er honum þá heimilt að lækka gjaldið eða fella það niður þar til samningar hafa verið endurnýjaðir en við endurnýjun allra samninga er fyrirtækjum skylt að gera ráð fyrir greiðslu grunngjalds. Það sem vantar upp á að tekjur af innheimtu grunngjalds samsvari heildarfjárhæð jöfnunargjalds, sbr. 2. mgr. 3. gr., skal greiða úr ríkissjóði uns allir orkuframleiðendur greiða sitt grunngjald að fullu.

Greinargerð.


    Tillögur þessar eru hluti breytingartillagna sem flutningsmaður flytur við tengd frumvörp sem öll eru hluti af lagalegum ráðstöfunum vegna upptöku tilskipunar Evrópuþingsins og ráðsins 96/92/EB um sameiginlegar reglur um innri markað fyrir raforku. Megintillaga flutningsmanns er að öllum frekari aðgerðum í átt til markaðsvæðingar íslenska raforkukerfisins verði slegið á frest og stjórnvöldum falið að leita eftir viðræðum við Evrópusambandið um varanlega undanþágu Íslendingum til handa. Tillaga um það er flutt sem breytingartillaga við frumvarp til laga um breytingu á raforkulögum.
    Þær breytingar sem hér eru lagðar til við frumvarp um aðgerðir til að jafna kostnað við dreifingu raforku gera ráð fyrir því að allir orkuframleiðendur í landinu greiði grunngjald sem standi undir jöfnuninni. Jöfnunin sé með öðrum orðum innan kerfisins og allir, einnig framleiðendur orku fyrir stóriðju, taki þátt í henni. Slíku fyrirkomulagi kann að reynast nauðsynlegt að koma á í áföngum vegna gildandi samninga en þess ber þó að geta að ef allir eru þátttakendur í greiðslu gjaldsins er um mjög lágar tölur að ræða, 2–3 aura á kWst. Líta má á gjaldið sem einhvers konar lágmarksaðstöðu- eða auðlindagjald þeirra aðila sem hagnýta sameiginlegar orkulindir þjóðarinnar.