Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 638. máls.
130. löggjafarþing 2003–2004.
Þskj. 1778  —  638. mál.




Svar



umhverfisráðherra við fyrirspurn Gunnars Örygssonar um umgengni við hafsbotninn umhverfis landið.

    Fyrirspurnin hljóðar svo:
    Eru fyrirhugaðar lagabreytingar þess efnis að umhverfisráðuneytið hafi umsjá með umgengni við hafsbotninn umhverfis landið?

    Ekki eru fyrirhugaðar breytingar á þeim lögum sem taka til umgengni við hafsbotninn umhverfis landið. Málefni hafsbotnsins varða ábyrgðarsvið þriggja ráðuneyta. Umhverfisráðuneytið fer með náttúruvernd, þar með talda vernd vistkerfa og líffræðilegrar fjölbreytni og með mengunarvarnir. Sjávarútvegsráðuneytið fer með mál er varða rannsóknir á fiskistofnum og verndun og nýtingu þeirra og annarra lifandi auðlinda hafsins og hafsbotnsins, sem og stjórnun svæða þar sem þær eru nýtanlegar. Auðlindanýting á, í eða undir hafsbotni fellur undir iðnaðarráðuneytið.
    Í ljósi þess hve samofin ábyrgð gagnvart málefnum hafsins er innan Stjórnarráðs Íslands hefur ríkisstjórnin markað samþætta stefnu um málefni hafsins og var hún samþykkt í ríkisstjórn í apríl 2004. Meginmarkmið þeirrar stefnu eru að viðhalda heilbrigði, líffræðilegum fjölbreytileika og framleiðslugetu hafsins svo nýta megi lifandi auðlindir þess um alla framtíð. Í því felst sjálfbær nýting, verndun og umgengni er byggist á rannsóknum, tækni og þekkingu, þar sem höfð er í fyrirrúmi virðing fyrir vistkerfi hafsins í heild.
    Í þessari stefnumörkun er gert ráð fyrir því að auðlindanýting og umhverfisvernd verði samþætt með aukinni áherslu á vistkerfisnálgun. Vistkerfisnálgun er í senn verkfæri til að ná fram tilteknum markmiðum um bætta auðlindastjórnun og grunnur að hugmyndafræði. Hún gengur út á vistfræðilega auðlindastjórnun í anda sjálfbærrar þróunar þar sem meðal annars er horft til verndunar líffræðilegrar fjölbreytni, verndunar hafsvæða og varna gegn mengun hafsins.
    Ljóst er að góð umgengi um hafsbotninn og lágmörkun neikvæðra áhrifa veiðarfæra á vistkerfi hans er mikilvægur þáttur í vistkerfisnálgun. Vistkerfi hafsbotnsins gegna mikilvægu hlutverki í lífríki hafsins og er vernd þeirra því einn liður í því að viðhalda framleiðslugetu hafsins.
    Hafréttarsamningurinn leggur lagalegan grunn að rétti ríkja til að nýta auðlindir á og undir sjávarbotni. Í OSPAR-samningnum eru ýmis ákvæði um mannvirki á hafi úti í tengslum við efnavinnslu með það að markmiði að takmarka neikvæð umhverfisáhrif af hennar völdum. Samningurinn um líffræðilega fjölbreytni og Bernarsamningurinn ná einnig til verndunar lífríkis og búsvæða á hafsbotni.
    Íslensk löggjöf um nýtingu auðlinda á, í eða undir hafsbotninum er tiltölulega nýleg. Í lögum um eignarrétt íslenska ríkisins á auðlindum hafsbotnsins, nr. 73/1990, er því lýst að íslenska ríkið sé eigandi allra auðlinda á, í eða undir hafsbotninum utan netlaga og svo langt til hafs sem fullveldisréttur Íslands nær, samkvæmt lögum, alþjóðasamningum eða samningum við einstök ríki. Í umræddum lögum tekur hugtakið auðlind til allra ólífrænna og lífrænna auðlinda hafsbotnsins annarra en lifandi vera. Samkvæmt lögunum er nýting auðlinda hafsbotnsins háð leyfi iðnaðarráðherra. Fram að þessu hafa fyrst og fremst verið gefin út leyfi til malartöku en nýlega einnig til töku kalkþörungasets af sjávarbotni.
    Í lögum um náttúruvernd, nr. 44/1999, er í VI. kafla fjallað um nám jarðefna, þar með talið efnistöku af eða úr hafsbotni. Er þar meðal annars kveðið á um að iðnaðarráðherra beri að leita umsagnar Umhverfisstofnunar áður en leyfi er veitt til efnistöku á hafsbotni og að efnistaka innan netlaga sé háð framkvæmdaleyfi hlutaðeigandi sveitarstjórnar. Efnistaka á hafsbotni fellur undir lög um mat á umhverfisáhrifum.
    Fyrir Alþingi liggur tillaga til þingsályktunar um náttúruverndaráætlun 2004–2008. Beðið er niðurstöðu Alþingis áður en skipulag vinnu við næstu náttúruverndaráætlun hefst, en þá er áætlað að taka á náttúruvernd í sjó sérstaklega. Forsendur náttúruverndaráætlunar byggjast á fyrirliggjandi þekkingu sem að mörgu leyti er mjög brotakennd og á ekki síst við um náttúrufar hafsbotnsins. Ekki var sérstaklega litið til hans að öðru leyti en því sem tengist strandsvæðum við gerð áætlunarinnar.
    Umhverfisstofnun hefur lagt áherslu á skynsamlega efnistöku í hafi og hefur komið á framfæri þeirri stefnu í umsögnum um mat á umhverfisáhrifum og nýtingarleyfum sem iðnaðarráðuneytið gefur út.
    Samkvæmt nýsamþykktum lögum um varnir gegn mengun hafs og stranda skal umhverfisráðherra setja reglugerðir um hvernig staðið skuli að lagningu sæstrengja, neðansjávarleiðslna og hvers konar mannvirkja á hafsbotni, og um vöktun og mælingar, svo sem til þess að fylgjast með hugsanlegum breytingum á mengun hafsins og hvaða rannsóknir og mælingar á mengunarefnum í hafinu, í sjávarlífverum og á hafsbotni skuli fara fram.