Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 643. máls.
130. löggjafarþing 2003–2004.
Þskj. 1797  —  643. mál.




Svar



umhverfisráðherra við fyrirspurn Gunnars Örlygssonar um móbergsfell við Þingvallavatn.

     1.      Er fyrirhugað að friðlýsa öll móbergsfell við Þingvallavatn til frambúðar?
    Sem stendur er ekki unnið að friðlýsingu móbergsfella við Þingvallavatn. Síðastliðið haust kom tillaga frá Umhverfisstofnun um að svæði við Þingvallavatn sem nái m.a. yfir móbergsfellin við og norður af Þingvallavatni yrðu tekin með í náttúruverndaráætlun 2004–2008. Svæðið náði hins vegar ekki inn á þann 14 svæða forgangslista sem er í áætluninni þannig að ekki er á stefnuskránni að hefja vinnu við verndun þessa svæðis næstu fimm árin. Það er hins vegar ljóst að móberg er eitt af því sem gerir jarðfræði Ísland sérstæða og því kann að vera rík ástæða til þess að vernda móbergsfellin við Þingvallavatn. Því er vel hugsanlegt, þegar búið verður að skoða og meta verndargildi jarðfræðilegra fyrirbæra landsins betur, að í næstu náttúruverndaráætlun eftir fimm ár verði lögð áhersla á verndun þessa svæðis.

     2.      Mun ráðherra sjá til þess að efnisnáma í Miðfelli (Stekkjarhorni) verði lagfærð?
    Náman í Miðfelli er gömul náma Vegagerðar ríkisins og ljóst er að við vinnslu í henni var farið hærra eftir efni en ráð var fyrir gert í upphafi og því reyndist erfitt að ganga frá henni á sínum tíma. Það er hins vegar ljóst að nauðsynlegt er að ganga frá námunni í samræmi við ákvæði laga um náttúruvernd.
    Undanfarið hefur verið unnið að framkvæmd ákvæðis til bráðabirgða II í lögum um náttúruvernd, nr. 44/1999, um frágang gamalla efnisnáma í samvinnu Umhverfisstofnunar, Náttúrufræðistofnunar Íslands, Vegagerðar ríkisins og Sambands íslenskra sveitarfélaga. Samkvæmt ákvæðinu skal umhverfisráðherra fela Umhverfisstofnun, í samráði við hlutaðeigandi ráðuneyti, stofnanir, sveitarfélög og framkvæmdaraðila, að gera tillögur um frágang efnistökusvæða sem hætt er að nota og eftir atvikum þeirra sem nú eru í notkun og ekki liggur fyrir áætlun um frágang á. Skal stofnunin gera áætlun um frágang svæðanna og kostnað við hann, svo og tillögur um greiðslu kostnaðar. Þá skal stofnunin enn fremur hafa umsjón með frágangi svæðanna. Skal honum lokið eigi síðar en árið 2003.
    Vegna fjölda náma og mikils umfangs verkefnisins hefur ekki tekist að ljúka því en í samvinnu við Vegagerð ríkisins vinnur Umhverfisstofnun að því að ljúka þessu verkefni á næstu missirum og hluti af því er náman í Miðfelli.