Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 895. máls.
130. löggjafarþing 2003–2004.
Þskj. 1835  —  895. mál.




Svar



menntamálaráðherra við fyrirspurn Kristins H. Gunnarssonar um fjarnám á háskólastigi.

    Leitað var eftir upplýsingum til þeirra skóla menntamálaráðuneytisins á háskólastigi sem bjóða upp á fjarnám. Haft var samband við fimm skóla þ.e. Kennaraháskóla Íslands, Háskólann á Akureyri, Háskóla Íslands, Háskólann í Reykjavík og Viðskiptaháskólann á Bifröst sem gáfu eftirfarandi upplýsingar. Skráning fjarnemenda er ekki með sama hætti í öllum skólunum fimm og kaus Háskóli Íslands að svara öllum spurningunum með greinargerð sem er látin fylgja í heild sinni aftast.

     1.      Hve margir eru í fjarnámi á háskólastigi á þessu skólaári, sundurliðað eftir skólum og námsleiðum innan hvers skóla? Hvernig skiptist nemendafjöldi hverrar námsleiðar hvers skóla eftir landshlutum miðað við lögheimili nemenda?
    Nemendur sem skráðir voru í fjarnám á þessu skólaári voru samtals 2.025. Fjarnemendur HR, KHÍ, VHB og HA (1.899) skiptust eftir landshlutum á eftirfarandi hátt. Nemendur HÍ eru 126 en þeir eru ekki hluti af þessum tölum:

Fjöldi Hlutfall
Höfuðborgarsvæðið 757 39,9%
Suðurnes 100 5,3%
Vesturland 122 6,5%
Vestfirðir 100 5,3%
Norðurland vestra 127 6,7%
Norðurland eystra 238 12,5%
Austurland 177 9,3%
Suðurland 191 10,1%
Erlendis 87 4,6%

    Í töflunni hér á eftir er frekari sundurliðun eftir námsleiðum og skólum. Sjá einnig töflu þar sem fram kemur hlutfall nemenda í fjarnámi af heildarfjölda nemenda árið 2003, sundurliðað eftir landshlutum.




Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.


Fjarnemendur eftir námsleiðum og skólum. Nemendur eftir háskólum og landshlutum, 2003.
Tölur Hagstofu Íslands 25.05.04
Höfuðborgarsvæðið Suðurnes Vesturland Vestfirðir Norðurl. vestra Norðurl. eystra Austurland Suðurland
Erlendis

Alls
Háskóli Íslands
Dagskóli 7.107 215 202 94 121 304 164 362 170 8.739
Fjarnám 3 0 1 3 3 5 3 2 0 20
Háskólinn á Akureyri
Dagskóli 80 6 15 15 24 626 35 15 6 822
Fjarnám 173 71 48 37 36 36 51 107 7 566
Háskólinn í Reykjavík
Dagskóli 701 26 15 7 15 26 24 20 5 839
Fjarnám 34 4 1 7 3 4 2 4 2 61
Kennaraháskóli Íslands
Dagskóli 684 43 21 12 13 38 19 45 6 881
Fjarnám 590 95 84 57 58 79 70 146 28 1.207
Viðskiptaháskólinn á Bifröst
Dagskóli 105 13 101 10 8 11 5 16 2 271
Fjarnám 62 3 13 4 1 2 0 1 3 89
Dagskólar alls 8.634 293 266 132 174 996 242 443 190 11.370
Fjarnám alls 862 173 147 108 101 126 126 260 40 1.943
Samtals 9.496 466 413 240 275 1122 368 703 230 13.313
Hlutfall fjarnámsnemenda af heild
9%

37%

36%

45%

37%

11%

34%

37%

17%

15%
Af nemendum þeirra fimm skóla þar sem fjarnám var í boði árið 2003 voru 15% nemenda skólanna skráðir í fjarnám.
Hæsta hlutfall fjarnemenda af heildarfjölda nemenda hvers landshluta í skólunum fimm er á Vestfjörðum, 45%, en ef horft er á fjölda fjarnemenda þá eru þeir flestir á höfuðborgarsvæðinu eða 862.
Í tölum frá Háskóla Íslands eru fjarnámsnemendur vantaldir (sjá skýringar í greinargerð skólans).


     2.      Hve margir sóttu um fjarnám í haust og hve mörgum þurfti að synja um fjarnám, hvort tveggja sundurliðað eftir námsleiðum, skólum og landshlutum miðað við lögheimili umsækjenda?
    Svör skólanna má sjá í eftirfarandi töflu:

Umsóknir um fjarnám og synjanir.
Háskólinn á Akureyri Haustið 2003 skráðu sig 552 nemendur í fjarnám. Engum var hafnað en 25 af þeim nemendum sem voru skráðir ýmist hættu eða hófu ekki í nám. Skipting þeirra eftir landshlutum er eftirfarandi: Höfuðborgarsvæðið 6, Austurland 4, Norðausturland 1, Suðurnes 7, Suðurland 3, Vestfirðir 1, Vesturland 3.
Viðskiptaháskólinn á Bifröst Allir nemendur voru teknir inn í BS-námið en 37 sóttu um meistaranám og 24 voru teknir inn.
Háskólinn í Reykjavík 52 umsóknir bárust um fjarnám í kerfisfræði haustið 2003. 46 umsóknir voru samþykktar og 32 umsækjendur skiluðu sér í nám um haustið.
Sundurliðun umsækjenda var eftirfarandi: Austurland 1, Höfuðborgarsvæðið 27, Norðurland 4, Suðurnes 8, Suðurland 4, Vestfirðir 4, Vesturland 2, lögheimili erlendis 2.
Kennaraháskóli Íslands Skólinn synjaði engum um inngöngu í fjarnám haustið 2003.
Háskóli Íslands Sjá greinargerð skólans.


     3.      Hver eru áform skólanna um framboð á fjarnámi á næstu árum og hver er spá þeirra um aðsókn?

         Svör skólanna má sjá í eftirfarandi töflu:

Háskólinn á Akureyri Framboð skólans í fjarkennslu verður óbreytt næsta skólaár. Þess ber að geta að fjarnám í hjúkrunarfræði verður aðeins í boði fyrir nýnema á Vestfjörðum (Ísafirði) haustið 2004. Ekki er hægt að fullyrða um nemendatölur en þó liggur fyrir að 11 nemendur hafa skráð sig í nám í hjúkrunarfræði á Vestfjörðum.
Viðskiptaháskólinn á Bifröst Viðskiptaháskólinn hefur sl. sex ár staðið fyrir fjarnámi til BS-gráðu í viðskiptafræði. Meistaranám skólans, sem hófst sl. sumar, er einnig hægt að taka í fjarnámi og sér skólinn þar mikla möguleika til vaxtar. Sem fyrr sagði voru 24 nemendur teknir inn í meistaranám sl. ár en reiknað er með að meistaranemar í ár verði um 75. Þá hefur skólinn einnig byggt upp starfstengt nám í fjarnámi, til verslunarstjórnunar í samstarfi við SVÞ og rekstrarnám fyrir konur í atvinnurekstri, „Máttur kvenna“, í samstarfi við Byggðastofnun. Einnig á þessi sviði gerir skólinn ráð fyrir verulegum vexti næstu missirin.
Háskólinn í Reykjavík Fjarnám í tölvunarfræði verður áfram í boði við HR. Skólinn hefur sett sér það markmið að bjóða upp á nýtt fjarnám, mögulega á sviði kennslufræði haustið 2005. Endanleg ákvörðun hefur þó ekki verið tekin á þessu stigi málsins. Ekki er gert ráð fyrir að umsóknum fjölgi í fjarnám í kerfisfræði næstu tvö árin. Má fastlega búast við því að 40–50 nemendur stundi fjarnám næstu missirin
Kennaraháskóli Íslands Í samningi skólans og menntamálaráðuneytisins er eftirfarandi ákvæði: KHÍ vinnur að því, eftir því sem fjármunir og aðstæður leyfa, að bæta aðgengi fólks sem búsett er utan höfuðborgarsvæðisins að menntun, m.a. með starfsemi landsbyggðarsetra sinna og samstarfi við símenntunarmiðstöðvar. Nýting upplýsingatækni í kennslu er mikilvægur þáttur í háskólastarfi og mun KHÍ nýta upplýsinga- og fjarskiptatækni svo sem kostur er í starfsemi sinni, með það að markmiði að bæta kennslu og þjónustu og skapa ný menntunartækifæri. Mun KHÍ eiga samvinnu við aðrar menntastofnanir í þessu skyni.
Háskóli Íslands Sjá greinargerð skólans.


    Hér er svar Háskóla Íslands í heild:

Greinargerð vegna upplýsinga um fjölda nemenda við Háskóla Íslands sem stunda fjarnám.
    Unnið er að endurbótum á nemendakerfi og skráningu fjarnema en eins og sakir standa er ýmsum vankvæðum bundið að hafa nákvæmar tölur á takteinum. Hluti þess vanda verður leystur með breytingum á hugbúnaði og skráningu en að öðru leyti gæti verið um viðvarandi óvissu að ræða. Fullyrða má að þær tölur sem liggja fyrir um fjölda fjarnema á síðustu tveimur missirum eru vanmat eins og ráða má af frekari skýringum.

Nemendaskráning.
    Það er mismunandi eftir skorum hvort fjar- og staðnemum er haldið aðskildum í námskeiðum. Það er einnig mismunandi hvort fjarnemendum er kennt sérstaklega eða hvort þeir eru þátttakendur í sömu dagskrá og staðnemar. Þegar fjarnemum er kennt sérstaklega eru stofnuð sérstök námskeiðsnúmer fyrir þá og því hægur vandi að henda reiðu á hverjir þeir eru. Í öðrum tilvikum eru nemendur skráðir í sömu námskeið og staðnemar og því engin leið að taka þá úr úr hópnum. Margir staðnemar hafa lögheimili á landsbyggðinni og því gefur heimilisfang ekki gagnlegar upplýsingar í þessu tilliti. Í sumar verður bætt í nemendakerfi möguleikum til að merkja fjarnema og tengja þá þjónustuaðila í heimabyggð. Auk þess er framundan vinna í samstarfi kennslumiðstöðvar HÍ og fulltrúa símenntunarmiðstöðva þar sem m.a. verður farið yfir hvernig þessir aðilar muni halda saman þessum upplýsingum í framtíðinni.

Mismunandi áherslur í þróun fjarnáms.
    Háskóli Íslands hefur lagt mikla áherslu á tæknivæðingu skólastarfsins og m.a. aukna netþjónustu. Ugla – upplýsingakerfi HÍ hefur hraðað mjög þessari þróun og nú er svo komið að netþjónusta hefur stóraukið möguleika fólks á að stunda nám við skólans án þess að sitja allar kennslustundir. Í flestum námskeiðum er ekki mætingarskylda og því er hægur vandi að stunda fjarnám við skólann án þess að upplýsa stofnunina um það.
    Dæmi um hvernig þessi þróun getur gengið fyrir sig er framboð enskuskorar á fjarnámi í ensku til 30 eininga. Þar er unnið út frá þeirri hugmynd að efnisgerð vegna fjarkennslu, myndbandsupptökur úr kennslustundum o.fl. skuli vera aðgengilegt og nýtast öllum nemendum óháð búsetu. Fyrir utan vinnulotu í HÍ við upphaf haustmissiris, sem fjarnemum er gert að sækja, er ekki gerður greinarmunur á fjar- og staðnemum. Kennarar búast þó við, eðli málsins samkvæmt, að sjá fjarnema sjaldnar í tímum og þurfa oftar að greiða úr þeirra málum með tölvupósti eða símtölum auk þess sem gera þarf ráð fyrir próftöku utan háskólalóðarinnar. Að öðru leyti snertir búseta nemenda skólann ekki neitt. Vonir standa til að með bættri skráningu og samvinnu við símenntunarmiðstöðvar muni þó vera hægt að hafa á hverjum tíma nokkuð áreiðanlegar upplýsingar um fjölda fjarnema. Minnkandi munur á vinnubrögðum í fjarkennslu og staðkennslu mun þó væntanlega halda áfram að flækja þessa mynd og e.t.v. gera aðgreiningu á þessu tvennu merkingarlausa.

„Óformlegt“ fjarnám.
    Ein stærð í þessari þróun er illviðráðanleg. Hún er fjöldi þeirra nemenda sem skráðir eru í námskeið sem ekki eru skipulögð sem fjarnám og sækja ekki tíma. Með aukinni netþjónustu og nútímasamskiptum verður sífellt auðveldara að fylgjast með og taka þátt í námskeiðum án þess að mæta í fyrirlestra eða aðrar kennslustundir. Það er augljóst að kennarar sem kenna hópum þar sem nemendur skipta hundruðum geta ekki haft eftirlit með því hvaða einstaklingar sitja námskeið og því engin leið að vita hvort nemandi sem ekki mætir í gefinn tíma sé búsettur á Ísafirði eða í Kópavogi eða hvort hann muni mæta í næsta tíma eða e.t.v. alls engan. Hægur vandi er að finna dæmi um nemendur af þessu tagi en hins vegar er ekki eins hægt um vik að hafa nákvæmt yfirlit yfir fjölda eða dreifingu slíkra fjarnema um landið, eða heiminn. Með aukinni netþjónustu í námskeiðum má gera ráð fyrir að þessi hópur „óformlegra“ fjarnema muni stækka verulega.

Fjármagn, þróunarkostnaður.
    Þótt skoðanir á raunkostnaði við fjarkennslu séu skiptar er ekki um það deilt að þróun slíkrar kennslu kostar peninga. Háskóli Íslands hefur varið töluverðu fé til að styrkja fjarkennslu á undanförnum árum, m.a. að frumkvæði rektors. Svigrúm skólans til að leggja fé í þróunina er hins vegar takmarkað. Nú eru fjárveitingar til skólans takmarkaðar við ákveðinn fjölda nemenda samkvæmt kennslusamningi við menntamálaráðuneytið. Því er ljóst að hvatinn fyrir einstakar deildir og skorir til að ráðast í þróun fjarkennslu gæti orðið enn minni en verið hefur undanfarin ár.