Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 45. máls.
131. löggjafarþing 2004–2005.
Þskj. 45  —  45. mál.




Tillaga til þingsályktunar



um sjálfstæði og eflingu Fjármálaeftirlitsins.

Flm.: Jón Bjarnason, Ögmundur Jónasson.



    Alþingi ályktar að fela ríkisstjórninni að skipa nefnd sem geri úttekt á starfsskilyrðum Fjármálaeftirlitsins og stöðu þess gagnvart ráðherra, ríkisstjórn og aðilum á fjármálamarkaði. Nefndin geri tillögur um hvernig sjálfstæði Fjármálaeftirlitsins verði best tryggt og starfsemi þess efld. Í því skyni skoði nefndin m.a. stjórnsýslulega stöðu þess og hvort heppilegast sé að það heyri undir Alþingi.

Greinargerð.


    Tillaga þessi var flutt á síðasta löggjafarþingi en varð þá eigi útrædd. Miklar hræringar á fjármálamarkaði síðan þá gefa enn meira tilefni en áður til að huga rækilega að stjórnsýslulegri stöðu og aðstæðum Fjármálaeftirlitsins til að sinna þeim mikilvægu skyldum sem því eru lagðar á herðar. Því er enn brýnna en áður að ráðast í endurbætur á grundvelli úttektar á borð við þá sem hér er lögð til.
    Fjármálaeftirlitið er ríkisstofnun með sérstaka stjórn en heyrir undir viðskiptaráðherra. Stofnunin gegnir lykilhlutverki á íslenskum fjármálamarkaði. Henni er ætlað afar mikilvægt opinbert eftirlitshlutverk og getur með aðgerðum sínum haft stefnumarkandi áhrif á allar athafnir og þróun á fjármálamarkaði. Því er mikilvægt að sjálfstæði stofnunarinnar sé tryggt þannig að hún geti starfað óháð handhöfum framkvæmdarvaldsins og hagsmunaaðilum. Að sama skapi er ljóst að búa verður þannig að Fjármálaeftirlitinu að það geti sinnt sínum mikilvægu verkefnum af myndarskap og afgreitt þau mál, sem því berast eða það tekur upp að eigin frumkvæði, fljótt og vel. Þess vegna gerir tillagan jafnframt ráð fyrir að nefndarstarfið miði að því að skoða hvernig efla megi starfsemi Fjármálaeftirlitsins.
    Í ljósi mikilla og umdeildra hræringa á íslenskum fjármálamarkaði er brýnt að vinnu nefndarinnar verði hraðað sem kostur er.
    Fjármálaeftirlitinu var komið á fót með lögum nr. 87/1998 og það fer með þá starfsemi sem áður var í höndum bankaeftirlits Seðlabanka Íslands og Vátryggingaeftirlitsins. Þar var valin sú leið að setja stofnunina undir viðskiptaráðherra en það val verður að teljast hæpið, m.a. í ljósi þess að viðskiptaráðherra hefur með sölu banka verið einhver atkvæðamesti aðilinn á íslenskum fjármálamarkaði á síðustu árum. Það er breytilegt eftir löndum hvar ríkisstofnunum, sem fara með sambærilegt hlutverk og Fjármálaeftirlitið gerir, er skipað í stjórnsýslunni. Breyting á stjórnsýslulegri stöðu Fjármálaeftirlitsins, þannig að það verði fært undan viðskiptaráðherra, gæti styrkt stofnunina sem óháðan eftirlitsaðila og jafnframt eflt traust hennar og trú manna á íslenskum fjármálamarkaði. Sá möguleiki, sem gert er ráð fyrir að skoðaður verði samkvæmt tillögunni, að færa stofnunina undir Alþingi, gæti komið bæði Alþingi og Fjármálaeftirlitinu verulega til góða þar sem hvor aðilinn gæti styrkt hinn í eftirlitshlutverki þeirra.
    Það að færa mikilvægar eftirlitsstofnanir undir Alþingi er ekki ný hugmynd. Þingmennirnir Steingrímur J. Sigfússon og Ögmundur Jónasson fluttu tillögu til þingsályktunar á 127. löggjafarþingi þar sem lagt var til að kannaðir yrðu kostir þess að færa Þjóðhagsstofnun undir Alþingi. Þar var bent á að breytingar á stöðu Ríkisendurskoðunar, sem var færð undir yfirstjórn Alþingis frá framkvæmdarvaldinu, urðu til þess að styrkja þá stofnun mjög sem sjálfstæðan, óháðan og faglegan eftirlitsaðila. Allt fram til ársins 1987 heyrði hún undir fjármálaráðherra. Þar var einnig bent á stöðu umboðsmanns Alþingis þó að ekki sé um efnislega sambærilega hluti að ræða. Þessum aðilum hefur reynst það vel að heyra undir Alþingi fremur en ráðherra og það hefur reynst þeim haldgóð trygging fyrir því að þeir njóti óskoraðs trausts og virðingar og að fagleg og hlutlæg vinnubrögð þeirra séu ekki dregin í efa vegna stöðu þeirra í stjórnsýslunni. Tillaga þessi gerir þó ekki ráð fyrir að aðeins sé kannaður sá kostur að færa Fjármálaeftirlitið undir Alþingi heldur skulu aðrir kostir skoðaðir og samanburður gerður á hvar sjálfstæði stofnunarinnar verður best tryggt.
    Flutningsmenn leggja áherslu á að allar breytingar sem gerðar kunna að verða á starfsemi og stöðu stofnunarinnar séu yfirvegaðar og vandlega undirbúnar, í góðu samstarfi við starfsmenn og samtök þeirra.