Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 59. máls.
131. löggjafarþing 2004–2005.
Þskj. 59 —  59. mál.




Tillaga til þingsályktunar



um stækkun friðlandsins í Þjórsárverum.

Flm.: Kolbrún Halldórsdóttir, Jón Bjarnason, Steingrímur J. Sigfússon,


Þuríður Backman, Ögmundur Jónasson.



    Alþingi ályktar að skora á ríkisstjórnina að beita sér fyrir því að mörkum friðlandsins í Þjórsárverum verði breytt og það stækkað þannig að sem mest af gróðurlendi svæðisins lendi innan friðlýsingarmarkanna. Einnig að áætlun verði gerð um friðun Þjórsár frá mörkum friðlandsins í Þjórsárverum til suðurs að Sultartangalóni.

Greinargerð.


    Tillaga þessi var flutt á 127., 128. og 130. löggjafarþingi, en hefur ekki enn fengist útrædd. Hún hefur verið send til umsagnar nokkurs fjölda aðila er tengjast málinu og hlotið afar jákvæðar undirtektir. Af þeim sem gáfu umsögn um tillöguna á sínum tíma voru eingöngu Landsvirkjun og hreppsnefnd Ásahrepps á móti henni. Frá því að tillagan var upphaflega lögð fram hefur baráttan um Þjórsárver magnast og nú er svo komið að Landsvirkjun hefur sett sér það markmið að reisa Norðlingaölduveitu með Norðlingaöldulóni í 568 m hæð yfir sjávarmáli ásamt set- og veitulóni sunnan Þjórsárjökuls. Bæði lónin mundu skerða náttúruverndargildi veranna en einnig minnka ósnortin víðerni á hálendi Íslands umtalsvert. Mat flutningsmanna tillögunnar er að búið sé að sauma nóg að Þjórsárverum með veitu- og virkjanaframkvæmdum og nú sé rétt að tryggja vernd þeirra til frambúðar með því að stækka friðlandið svo mikið að ekki verði af frekari framkvæmdum í næsta nágrenni þeirra.

Dýrmætasta gróðurvin á hálendi Íslands.
    Þjórsárver er sú gróðurvin á hálendi Íslands sem talin er hvað dýrmætust. Kemur þar margt til, landslag er þar stórbrotið, vatnafarið einstaklega öflugur þáttur í lífríkinu og vistkerfi veranna er óvenjutegundaríkt og mikilvægt til viðhalds margra tegunda dýra og plantna. Í Þjórsárverum er að finna fjölbreyttar búsvæðagerðir, þar eru rústir, sífreri og flæðiengi. Verin eru vel afmörkuð heild og það svæði á Íslandi þar sem áhrifa manna gætir hvað minnst. Þau eru gífurlega mikilvæg varpstöð fyrir heiðagæsarstofninn og fleiri fugla. Gróðursamfélagið er afar fjölbreytt. Á svæðinu hafa fundist um 183 tegundir háplantna, eða meira en þriðjungur íslensku flórunnar, 225 mosategundir, eða um 38% íslensku mosaflórunnar, og heildarfjöldi fléttutegunda sem greindur hefur verið í Þjórsárverum er um 148. Í Þjórsárverum er að finna síðustu leifar gróðurs sem áður mun hafa þakið mun stærra svæði af öræfunum, gróðurs sem sums staðar teygir sig upp í 1.000–1.100 m hæð yfir sjávarmáli, þ.e. í hlíðum Arnarfells hins mikla og Arnarfells hins litla.
    Í Árbók Ferðafélags Íslands 1988 skrifar dr. Þóra Ellen Þórhallsdóttir um Þjórsárver: „Nálægt miðju Íslands, suður af Hofsjökli, þar sem stærstu upptakakvíslar Þjórsár koma saman, eru víðáttumikil gróðurlendi sem einu nafni kallast Þjórsárver. Þau eru ein stærsta en jafnframt einangraðasta gróðurvin á miðhálendi Íslands. Að norðan skríða fram jökultungur Hofsjökuls en annars liggja að þeim eyðisandar. Í suðvestri er Fjórðungssandur. Sprengisandur er í norðaustri, en öræfin í austri og suðri eru nafnlaus. Allar bera þessar auðnir líkan svip; gráir melar á mishæðóttu landi þar sem hver ávöl og dökkleit aldan tekur við af annarri.“

Samþykktir Gnúpverja.
    
Þjórsárver njóta sérstakrar verndar bæði sem friðland og sem Ramsar-svæði, sem staðfestir sérstöðu og mikilvægi þess sem votlendis á heimsvísu. Til Þjórsárverafriðlands var stofnað árið 1981 með heimild í lögum um náttúruvernd. Þá höfðu um nokkurt skeið verið uppi hugmyndir um stórt uppistöðulón í verunum í allt að 593,5 m yfir sjávarmáli. Þær hugmyndir mættu strax talsverðri andstöðu. Til marks um það er eftirfarandi ályktun almenns sveitarfundar Gnúpverja, sem haldinn var í Árnesi 17. mars 1972.
    ,,Fjölmennur sveitarfundur Gnúpverja haldinn að tilhlutan landgræðslunefndar Ungmennafélags Gnúpverja í félagsheimilinu Árnesi 17. mars 1972, lýsir yfir eindreginni andstöðu við rafvæðingaráætlanir þar sem gert er ráð fyrir myndun uppistöðulóns í Þjórsárverum. Fundurinn vekur athygli á nokkrum mikilvægum atriðum varðandi Þjórsárver:
     a.      Þjórsárver eru geysistór og einstæð vin á miðhálendi Íslands. Þau eru umlukin auðnum á alla vegu og eiga ekki sinn líka hvað varðar fjölbreytilegan gróður og fuglalíf.
     b.      Gróðureyðing í aldaraðir er alvarlegasta vandamál náttúruverndar á Íslandi. — Verði Þjórsárver sett undir vatn er gróðri og gróðurfari landsins unnið óbætanlegt tjón. Auk þess eru miklar líkur á því að mismunandi hæð yfirborðs vatnsins í fyrirhuguðu lóni í Þjórsárverum orsaki uppblástur.
     c.      Þjórsárver eru verðmætt beitiland.
     d.      Talið er að ¾ hlutar alls heiðagæsastofnsins í heiminum verpi í Þjórsárverum. Margar fuglategundir í heiminum eiga nú á hættu að verða útrýmt. Röskun í Þjórsárverum stofnar varplöndum heiðagæsarinnar í hættu.
    Af ofangreindum ástæðum andmælir fundurinn hvers konar röskun á náttúru Þjórsárvera og skorar á almenning í landinu að sameinast um að varðveita þessa einstæðu perlu íslenskra öræfa.“

Framkvæmdir hingað til.
    Á þessum tíma var náttúruvernd á Íslandi ekki fyrirferðarmikil í dægurmálaumræðunni og ekki margir sem þekktu þá gersemi sem kúrði í miðri sandauðn miðhálendisins uppi undir Hofsjökli umgirt jökulkvíslum og erfið aðkomu, nema kannski fyrir fuglinn fljúgandi. Það munu helst hafa verið fjallmenn, sem smalað höfðu öræfin upp undir jökla, sem þekktu leyndardóm veranna. Stærsti hluti Þjórsárvera er á afrétti Gnúpverja og þekktar eru sagnir fjallmanna sem sneru aftur af fjalli með leyndardóminn í hjartanu og ævintýrið í augunum. Þetta mun vera drjúgur hluti ástæðunnar fyrir andstöðu Gnúpverja við hugmyndir um miðlunarlón í Þjórsárverum. Umræðan um náttúruverndargildi veranna og ásetningur Landsvirkjunar um miðlunarlón og virkjanir á efra vatnasviði Þjórsár leiddu til þess að Þjórsárver voru friðlýst með auglýsingu í desember 1981. Í friðlýsingunni var gert ráð fyrir þeim möguleika að uppistöðulóni yrði valinn staður í námunda við hið friðlýsta svæði, en þó var tekin afgerandi ákvörðun varðandi stærð mögulegs lóns. Þannig var verunum forðað frá algerri eyðileggingu og komið í veg fyrir þau áform Landsvirkjunar að sökkva þeim í heilu lagi undir 200 km 2 miðlunarlón. Hins vegar gerði friðlýsingin ráð fyrir undanþágu frá ákvæðum friðlýsingarinnar „til þess að gera uppistöðulón með stíflu við Norðlingaöldu í allt að 581 m y.s. enda sýni rannsóknir að slík lónsmyndun sé framkvæmanleg án þess að náttúruverndargildi Þjórsárvera rýrni óhæfilega að mati [Náttúruverndar ríkisins].“ Þetta kom þó ekki í veg fyrir að heimilaðar yrðu veitur austanvert í verunum, austan Þjórsár; Kvíslarveitur 1.–5. áfangi. Þannig voru upptakakvíslir Þjórsár af Sprengisandi og austurþverár hennar teknar í áföngum og þeim veitt í Þórisvatn. Komið er stórt lón, Kvíslavötn, sem er um 30 km 2 og stíflur í þverár Þjórsár, Eyvindarverskvísl, Þúfuverskvísl og í Þjórsá sjálfa ofan Hreysis. Þessar aðgerðir hafa valdið talsverðum spjöllum á Þjórsárverum, 6 km 2 af grónu landi hefur verið sökkt undir vatn, auk þess sem umtalsvert landsvæði hefur farið undir veituskurði. Þá hefur meðalrennsli Þjórsár minnkað um allt að 40%, sem spillt hefur ýmsum einstökum fossum, Kjálkaversfossi, Dynk og Gljúfurleitarfossi.

Athugasemdir við skipulag miðhálendisins.
    Í svæðisskipulagi miðhálendisins, sem gildir fram til ársins 2015, er fjallað um Norðlingaölduveitu og hugsanlegt lónstæði auðkennt með blandaðri landnotkun; orkuvinnsla/náttúruvernd. Þegar svæðisskipulagið var á umsagnarstigi mótmæltu þessu meðal annarra hreppsnefnd Gnúpverja og Náttúruverndarsamtök Íslands. Í athugasemdum Náttúruverndarsamtakanna við tillögu að svæðisskipulagi miðhálendis Íslands segir: „Í greinargerð samvinnunefndarinnar er talað um þrjú fyrirhuguð orkuvinnslusvæði eða virkjanahugmyndir í Rangárvallasýslu: Búðahálsvirkjun í Tungnaá, Vatnsfellsvirkjun og loks Norðlingaölduveitu. Í ritinu Innlendar orkulindir til vinnslu raforku, Iðnaðarráðuneytið 1994, er hins vegar að auki greint frá áformum um Markarfljótsvirkjun. Náttúruverndarsamtök Íslands telja að það brjóti í bága við tilmæli skipulagsreglugerðar að gera ekki grein fyrir og sýna ekki á skipulagsuppdrætti allar fyrirliggjandi frumforsendur um landnotkun, þ.m.t. virkjunarhugmyndir. Annars fæst röng mynd af landnotkuninni og forsendur fyrir skipulaginu verða þar með rangar. Úr þessu þarf að bæta. Varðandi Norðlingaölduveitu leggja samtökin ríka áherslu á að stífluhæð við Norðlingaöldu verði ekki meiri en svo að ekki gangi frekar á gróðurlendi Þjórsárvera sunnan Hofsjökuls en nú er. Þjórsárver eru einstök náttúruperla og eitt stærsta samfellda gróðurlendi miðhálendisins með einstökum heimskautagróðri. Þá telja samtökin, eftir því sem best verður séð, að auðkenni samvinnunefndarinnar á Norðlingaölduveitulóni sem „blönduð landnotkun þar sem fleiri en ein gerð landnotkunar fer saman, t.d. landgræðsla og verndun“ sé óraunsæ vægast sagt.“
    Í athugasemdum hreppsnefndar Gnúpverja segir: „Í greinargerð er gert ráð fyrir sérstöku náttúruverndarsvæði, nefnt Þjórsárver – Kerlingarfjöll, þar sem eru tilgreind m.a. Þjórsárver og svæðið með Þjórsá frá Gljúfraá að Kisu. Jafnframt er tilgreint fyrirhugað orkuvinnslusvæði í neðsta hluta Þjórsárvera, nefnt Norðlingaölduveita. Um friðland í Þjórsárverum gildir reglugerð frá 1979 og á grundvelli hennar er unnið að rannsóknum af Landsvirkjun, Náttúruvernd ríkisins og sveitarstjórnum.
    Hreppsnefnd telur ljóst að áhrif af Norðlingaölduveitu yrðu ekki síður veruleg á farveg Þjórsár milli væntanlegs Norðlingaöldulóns og Sultartangalóns, þar sem landslag er sérstætt og stórfenglegt og gróðurfar gróskumikið.
    Hreppsnefnd álítur að varðveita beri þennan hluta Þjórsár í þeirri mynd sem hann er nú. Vatnsmagn árinnar hefur stórminnkað með Kvíslaveitum og frekari miðlun spillir hinum einstæðu fossum hennar.
    Það er því álit hreppsnefndar að gerð Norðlingaölduveitu stangist á við áform um sérstakt náttúruverndarsvæði með Þjórsá og undirstrikar mikilvægi svæðisins sem útivistar- og ferðamannasvæðis.“

Afstaða Þjórsárveranefndar.
    Eftir að Landsvirkjun tók að sýna á ný áhuga á 6. áfanga Kvíslaveitu og ljóst var að í uppsiglingu væru endurnýjuð áform um veituframkvæmdir í verunum hófust miklar bollaleggingar í Þjórsárveranefnd, sem er ráðgjafarnefnd Náttúruverndar ríkisins (nú Umhverfisstofnunar) samkvæmt auglýsingu um friðlandið frá 1981. Loks fór það svo að Þjórsárveranefnd lagðist endanlega gegn hugmyndum um 6. áfanga Kvíslaveitu á fundi sínum 3. maí 2001. Á þeim fundi var eftirfarandi tillaga samþykkt einróma:
    „Þjórsárveranefnd hafnar áformum um 6. áfanga Kvíslaveitu. Nefndin hafnar einnig öllum hugmyndum um lón sem eru hærri en 575 m y.s. Nefndin samþykkir að fresta ákvörðun um lón í 575 m y.s., þar sem hluti nefndarmanna telur nauðsynlegt að fá fyllri úttekt á áhrifum þeirrar lónshæðar á náttúruverndargildi Þjórsárvera.“ Þjórsárveranefnd taldi nauðsynlegt að sýna varkárni í ljósi þess hversu mikið virkjanaframkvæmdir í Þjórsárverum höfðu þegar skaðað verin og dregið úr verndargildi þeirra. Þessi afgreiðsla nefndarinnar á málinu olli talsverðum titringi meðal þeirra sem voru áfram um framkvæmdir á svæðinu og fór það svo að tíu dögum eftir þessa samþykkt Þjórsárveranefndar kallaði iðnaðarráðherra eftir lögfræðilegri álitsgerð, þar sem svarað yrði til um valdsvið nefndarinnar og það hver hefði að lögum vald til að veita Landsvirkjun leyfi til að gera uppistöðulón við Norðlingaölduveitu. Álitsgerð Páls Hreinssonar lagaprófessors lá fyrir 1. júní 2001.
    Þjórsárveranefnd var síðan kölluð saman til að gefa umsögn um matsskýrslu Landsvirkjunar sem út kom 30. apríl 2002 og var eftirfarandi umsögn samþykkt af meirihluta nefndarmanna 27. júní 2002:
    „Þjórsárveranefnd beinir því til Náttúruverndar ríkisins að heimila ekki frekari virkjanaframkvæmdir í Þjórsárverum. Búið er að raska verum austan Þjórsár og með framkvæmdum við Norðlingaöldu myndi náttúruverndargildi Þjórsárvera rýrna óhæfilega samanber meðfylgjandi greinargerð. Þjórsárveranefnd hvetur Náttúruvernd ríkisins að vinna áfram að stækkun friðlandsins í Þjórsárverum.“

Ný samþykkt Gnúpverja 2001.
    Fyrr í þessari greinargerð er sagt frá almennum sveitarfundi, sem haldinn var í Árnesi í Gnúpverjahreppi 1972. Það gerðist síðan á vordögum 2001 að Gnúpverjar sáu á ný ástæðu til að álykta um framtíð Þjórsárvera. Það var gert í Árnesi 24. maí 2001 og var ályktunin svohljóðandi:
    „Almennur sveitarfundur haldinn í Árnesi 24. maí 2001 lýsir eindreginni andstöðu við Norðlingaölduveitu og aðrar fyrirhugaðar virkjunarframkvæmdir í Þjórsárverum og efri hluta Þjórsár.
     Þjórsárver og efri hluta Þjórsár ber að vernda sem einstætt vistkerfi og landslagsheild og minnt skal á að framkvæmdir á þessu svæði verða ekki aftur teknar.
     Fundurinn bendir á að margþættar rannsóknir færustu vísindamanna sem sanna sérstöðu svæðisins í íslenskri náttúru þar sem þeir vara við allri röskun af mannavöldum enda er svæðið þekkt víða um heim og stór hluti þess friðlýstur.
     Fundurinn vekur athygli á því að nú þegar hefur orðið veruleg röskun á vatnafari Þjórsár með 1.–5. áfanga Kvíslaveitu.
     Fundurinn minnir á ályktun fundar í Árnesi 17. mars 1972 og ítrekar fyrri mótmæli þar.“
     Formlegur áhugahópur um verndun Þjórsárvera var stofnaður og þann 26. júní 2001 afhenti hópurinn Siv Friðleifsdóttur umhverfisráðherra, Valgerði Sverrisdóttur iðnaðarráðherra og Katrínu Fjeldsted alþingismanni, fyrir hönd umhverfisnefndar Alþingis, undirskriftalista sem áhugahópurinn stóð fyrir að safna í Gnúpverjahreppi 23.–25. júní 2001. 72% atkvæðisbærra Gnúpverja til kosningar til sveitarstjórnar undirrituðu áskorunina. Í henni er skorað á stjórnvöld að tryggja til frambúðar verndun Þjórsárvera og heimila engar frekari virkjunarframkvæmdir þar eða í efri hluta Þjórsár. Sveitarstjórn Gnúpverjahrepps voru afhentir sömu undirskriftalistar.

Frekari framkvæmdum mótmælt.
     Eftir að matsskýrsla Landsvirkjunar vegna Norðlingaölduveitu kom fram 30. apríl 2002 hljóp mikill kraftur í baráttuna fyrir stækkun friðlandsins. Skipulagsstofnun bárust um 90 athugasemdir sem flestar voru frá fólki sem vildi að framkvæmdinni yrði hafnað. Í mörgum athugasemdanna var lýst stuðningi við fram komnar hugmyndir um stækkun friðlandsins. Eftir að úrskurður Skipulagsstofnunar var kynntur 12. ágúst 2002 og ljóst var að stofnunin heimilaði framkvæmdirnar með skilyrðum, fór af stað mikil mótmælaalda. Úrskurðurinn var kærður af 11 aðilum og þann 7. september 2002 birtu á þriðja hundrað manns eftirfarandi texta í fjölmiðlum:
    „Til varnar Þjórsárverum. Þjórsárver eru einstakt vistkerfi og landslagsheild á hálendi Íslands. Þjórsárver eru gróðurvin með árþúsunda samfellda sögu þróttmikils lífríkis. Þjórsárver eru náttúrugersemi með viðurkennt alþjóðlegt gildi. Með fyrirætlunum um byggingu mannvirkja og gerð uppistöðulóns í Þjórsárverum er stefnt í hættu ómetanlegum verðmætum sem hvorki við né næstu kynslóðir getum endurheimt. Varúðar skal gætt. Dýrmætustu gróðurvin hálendisins má ekki stofna í hættu fyrir von um skjótfenginn gróða. Við undirrituð skorum á þjóðina að standa vörð um þau verðmæti sem við eigum í fegurð náttúrunnar á hálendi Íslands og segjum því nei við áformum um Norðlingaölduveitu. Stækkum friðland Þjórsárvera og verndum þau til framtíðar.“

Ályktun baráttufundar í Austurbæjarbíói.
    Áhugahópur um verndun Þjórsárvera gekkst fyrir baráttufundi í Austurbæjarbíói 4. nóvember 2002 og talið er að um 1.000 manns hafi mætt til fundarins, sem er talsvert meira en húsið rúmar. Eftirfarandi ályktun var samþykkt á fundinum:
    „Almennur fundur haldinn í Austurbæjarbíói 4. nóvember 2002 lýsir yfir eindreginni andstöðu við fyrirhugaðar virkjunarframkvæmdir með gerð uppistöðulóns í Þjórsárverum og mótmælir harðlega þeim vinnubrögðum sem beitt hefur verið til að fá samþykki fyrir þeim.
    Með framkvæmdunum yrði spillt einstakri gróðurvin á hálendi Íslands sem á sér árþúsunda sögu þróttmikils lífríkis. Um leið yrði fórnað verðmætum sem hvorki við né næstu kynslóðir getum nokkurn tíma endurheimt. Verndargildi svæðisins er ótvírætt og því til staðfestingar hafa Íslendingar friðlýst hluta þess og jafnframt gengist undir alþjóðlegar skuldbindingar um að vernda það fyrir ágangi sem leitt getur til skemmda. Engir brýnir almannahagsmunir eru nú fyrir hendi sem réttlætt geta svik við þau fyrirheit.
    Náttúruvernd ríkisins hefur skýrlega mælt gegn fyrirætlunum um virkjunarframkvæmdir í Þjórsárverum og andstaða heimamanna er fyrir löngu ljós. Þá er í skýrslu Skipulagsstofnunar ítrekað bent á hið margfalda tjón sem hlýst af framkvæmdunum. Lokaniðurstaða stofnunarinnar stangast hins vegar á við málatilbúnaðinn að öðru leyti og vekur það spurningar um afgreiðslu málsins.
    Almenn andstaða er í landinu við þær ráðagerðir sem nú eru uppi, og sjónarmið náttúruverndar fá síaukinn stuðning. Ráðamenn verða að hlusta á ákall tímans og taka tillit til nútímaviðhorfa.
    Fundarmenn kalla á forystumenn þjóðarinnar til að standa vörð um verðmætin sem við eigum í einstæðri náttúru á hálendi Íslands. Þjórsárver eru náttúrugersemi sem öll þjóðin ber ábyrgð á og þeim má aldrei tortíma fyrir von um skjótfenginn gróða. Næstu kynslóðir eiga sinn rétt til auðæfanna sem ofar standa hagsmunum líðandi stundar og þann rétt verður að virða.“

Settur umhverfisráðherra úrskurðar.
     Eins og fram hefur komið hér að framan kærðu 11 aðilar úrskurð Skipulagsstofnunar vegna Norðlingaölduveitu til umhverfisráðherra. Siv Friðleifsdóttir lýsti sig vanhæfa í málinu og kom það í hlut heilbrigðisráðherra, Jóns Kristjánssonar, að úrskurða í hennar stað. Úrskurður Jóns var birtur 30. janúar 2003. Í honum fólst að Norðlingaöldulón skyldi alfarið vera utan friðlandsmarka og fylgdi úrskurðinum forathugun á nýrri tilhögun frá Verkfræðistofu Sigurðar Thoroddsen hf., þar sem sýnt er fram á að mögulegt sé að koma fyrir lóni sem nái ekki hærra en í 566 m hæð yfir sjávarmáli. Voru margir til að fagna úrskurði þessum og töldu að með honum væri miðlað málum milli þeirra sem vildu umfram allt vernda Þjórsárver og hinna sem vildu að allir möguleikar svæðisins til orkunýtingar yrðu settir í framkvæmd.
    Á 128. löggjafarþingi lagði iðnaðarráðherra, Valgerður Sverrisdóttir, fram frumvarp til laga um breytingu á lögum um raforkuver þar sem þess er farið á leit að Alþingi samþykki heimildir til ráðherra um að leyfa gerð Norðlingaölduveitu (þingmál 670, þskj. 1090). Greinargerð með frumvarpinu fylgdi fylgiskjal frá Landsvirkjun þar sem fram kemur að Landsvirkjun hafi ekki unnist tími til að fullmóta framkvæmdatilhögun en ljóst er að hún telur sig ekki bundna af tillögu þeirri sem fylgdi úrskurði setts umhverfisráðherra. Á síðustu dögum 128. löggjafarþings var málið afgreitt í miklum flýti, svo ekki gafst nægilegt svigrúm til að skoða alla þætti þess. Þannig var aldrei svarað til um einn þátt úrskurðar Jóns Kristjánssonar, sem laut að set- og veitulóni sunnan undir Þjórsárjökli, en það lón setti ráðherrann fram sem mótvægisaðgerð í úrskurðinum og var því mótmælt af þingmönnum Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs, sem töldu að hér væri um slíka framkvæmd að ræða að hún ætti að lúta sjálfstæðu mati á umhverfisáhrifum samkvæmt lögum, enda væri stærð lónsins slík að hún rúmaðist ekki innan heimilda laga um mat á umhverfisáhrifum, nr. 106/2000, um undanþágu frá mati.
    Varðandi núverandi áform Landsvirkjunar og væntanlega tilhögun framkvæmdanna, þá féllst hreppsnefnd Skeiða- og Gnúpverjahrepps á það í sumar að setja framkvæmdina inn á aðalskipulag þar sem miðað yrði við að lónhæð næði 566 m y.s. að sumarlagi og 567,5 m y.s. að vetrarlagi. Þá mun nefnd um svæðisskipulag miðhálendisins vera að vinna samsvarandi breytingar á svæðisskipulaginu. Þar með er ekki sagt að auðsótt verði að afla framkvæmdaleyfis fyrir Norðlingaölduveitu þar sem enn eru skiptar skoðanir í hreppunum um ágæti framkvæmdanna.

Umhverfisstofnun leggur til stækkun friðlandsins.
    Hér að framan hefur verið greint frá ályktunum og samþykktum Gnúpverja varðandi Þjórsárver og greint frá baráttu áhugahóps um verndun Þjórsárvera. Hópurinn hefur farið þess á leit við Náttúruvernd ríkisins (nú Umhverfisstofnun) að skoðaðir verði möguleikar á stækkun friðlandsins og einnig kannaðir möguleikar á friðlýsingu Þjórsár frá friðlandsmörkunum að Sultartangalóni. Í greinargerð með tillögum hópsins segir: „Umtalsvert gróðurlendi er utan núverandi marka sem líta verður á sem hluta af heildarsvæðinu og myndar, ásamt verunum og jökulkvíslunum, einstakt vistkerfi. Má þar helst nefna svæðið austan Arnarfells og niður með vestustu kvísl Þjórsár, svæðið sunnan og suðaustan Sóleyjarhöfða suður fyrir Svartá, Eyvafen og drög þess til norðvesturs og Hnífárbotna. Í Þjórsá eru fossarnir Kjálkaversfoss (Hvanngiljafoss), Dynkur og Gljúfurleitarfoss, hver um sig sérstakur og áhugaverður og ekki síður sem röð í stórfenglegu landslagi með aðliggjandi svæði í Búðarhálsi að austan og Norðurleit og Gljúfurleit að vestan þar sem er að finna fjölbreytt og gróskumikið gróðurfar, fuglalíf og lindasvæði. Friðlýsing eins og hér er lagt til stuðlar að mun víðtækari og markvissari verndun en nú er á þeirri sérstöku landslagsheild sem svæðið er.“
    Umhverfisstofnun birti 13. maí 2003 drög að náttúruverndaráætlun, sem lögum samkvæmt hefði átt að leggja fyrir Alþingi 2002 (sjá 65. grein laga um náttúruvernd og ákvæði til bráðabirgða I). Í drögum þessum er gert ráð fyrir að friðland Þjórsárvera verði stækkað til samræmis við tillögu áhugahópsins. Í texta Umhverfisstofnunar er svæðinu lýst á eftirfarandi hátt:
    „Stórbrotið landslag, fjalllendi, jökull, votlendi og áreyrar. Fjölbreyttar búsvæðagerðir, mýrar, flár, flæðiengi, vötn, tjarnir og sífreri á hálendi, allt upp í 1100 m hæð. Þjórsárver eru einstætt vistkerfi á heimsvísu, enda afar tegundaríkt og eitt helsta varpland heiðagæsar í heiminum. Þjórsárver eru ein stærsta og jafnframt ein einangraðasta gróðurvin á miðhálendi landsins. Afar fjölbreytt gróðursamfélag, en þar hafa fundist yfir 180 tegundir háplantna, yfir 220 mosategundir og greindar hafa verið um 150 fléttutegundir. Innan svæðisins eru í Þjórsá fossarnir Kjálkaversfoss (Hvanngiljafoss), Dynkur og Gljúfurleitarfoss. Hver um sig er sérstakur og saman eru þeir afar áhugaverðir sem röð fossa í stórfenglegu landslagi.“ Tillaga Umhverfisstofnunar er flutningsmönnum þessarar tillögu sérstakt fagnaðarefni af augljósum ástæðum.


Fylgiskjal I.


Auglýsing
um friðland í Þjórsárverum.
(Stjórnartíðindi B, nr. 507/1987.)

    Samkvæmt heimild í 24. gr. laga nr. 47/1971 um náttúruvernd hefur [Náttúruvernd ríkisins] fyrir sitt leyti ákveðið að friðlýsa Þjórsárver við Hofsjökul og er svæðið friðland.

    Mörk hins friðlýsta svæðis eru þessi:
    Lína, sem hugsast dregin frá Eiríksnípu sunnan í Hofsjökli norðaustur í ónefnt jökulsker 1 250 m y. s. norður af Arnarfelli hinu litla. Frá jökulskerinu hugsast dregin lína í öldu 644 m y. s. norðaustur af Þúfuveri. Þaðan suður í öldu 642 m y. s. austur af Þúfuveri, þaðan suðsuðvestur í öldu 634 m y. s. sunnan Þúfuvers, þaðan vestur í öldu 606 m y. s. vestnorðvestur yfir Þjórsá í öldu á Fjórðungssandi 622 m y. s. og þaðan aftur í Eiríksnípu. Línur milli punktanna hugsast beinar og hæðartölur eru samkvæmt uppdrætti Íslands, blöðum 65 og 66, gefnum út af Geodætisk Institut 1954.

Þessar reglur gilda um svæðið:
     1.      Sérstök nefnd [Náttúruvernd ríkisins] er til ráðuneytis um málefni friðlandsins. Hún skal þannig skipuð, að [Náttúruvernd ríkisins], Landsvirkjun, hreppsnefnd Gnúpverjahrepps, stjórn Afréttamálafélags Flóa- og Skeiðamanna tilnefna einn mann hver. Þá tilnefnir Ásahreppur einn fyrir sína hönd og Djúpárhrepps. Starfstímabil fulltrúa hreppanna er hið sama og kjörtímabil þeirra. [Náttúruvernd ríkisins] skipar formann ráðgjafarnefndar.
     2.      Mannvirkjagerð, jarðrask og aðrar breytingar á landi, svo og breytingar á rennsli vatna og vatnsborðshæð, eru óheimilar nema til komi leyfi [Náttúruverndar ríkisins].
     3.      Óheimilt er að skaða gróður og trufla dýralíf, svo og að hrófla við jarðmyndunum, gæsaréttum og öðrum minjum.
     4.      Umferð ökutækja er óheimil utan merktra ökuslóða og skal merking háð samþykki ráðgjafanefndar samkvæmt 1. tölulið. Þó skal heimilt að nota snjóbíla og vélsleða á jökli og einnig á snjó og hjarni þegar gróðri stafar ekki hætta af.
     5.      Á tímabilinu 1. maí til 10. júní er umferð um varplönd heiðagæsar bönnuð.
     6.      Ríðandi mönnum er heimil för um svæðið á hefðbundnum leiðum.
     7.      Flug neðan 3.000 feta hæðar yfir friðlandinu utan jökuls er óheimilt á tímabilinu 10. maí til 10. ágúst.
     8.      Reglur þessar hagga ekki hefðbundnum rétti bænda til umferðar vegna nytja og leita á svæðinu. Um upprekstur á svæðið fer eftir reglum, sem viðkomandi hreppsnefnd eða stjórnir afréttarmála og [Náttúruverndar ríkisins] setja að fengnum tillögum ráðgjafanefndar.
     9.      Notkun skotvopna er óheimil á friðlandinu.
     10.      [Náttúruvernd ríkisins] getur veitt heimild til þess að vikið verði frá reglum þessum í einstökum tilfellum og kveðið nánar á um vernd svæðisins. Með friðlýsingu þessari er engin afstaða tekin til þess hverjir séu eigendur þess lands sem hún tekur til eða eigi þar takmörkuð eignarréttindi.
    Þrátt fyrir ákvæði 2. tl. að ofan er Landsvirkjun heimilt að veita til Þórisvatns úr upptakakvíslum Þjórsár á Sprengisandi og austurþverám hennar, enda verði kappkostað að halda umhverfisáhrifum mannvirkja í lágmarki.
    Ennfremur mun [Náttúruvernd ríkisins] fyrir sitt leyti veita Landsvirkjun undanþágu frá friðlýsingu þessari til að gera uppistöðulón með stíflu við Norðlingaöldu í allt að 581 m y.s., enda sýni rannsóknir að slík lónsmyndun sé framkvæmanleg án þess að náttúruverndargildi Þjórsárvera rýrni óhæfilega að mati [Náttúruverndar ríkisins]. Rannsóknir þessar skulu gerðar á vegum ráðgjafanefndar samkvæmt 1. tl. Skal nefndin ennfremur fjalla um endanleg mörk umræddra mannvirkja, ráðstafanir til að draga úr óæskilegum áhrifum þeirra á vistkerfi Þjórsárvera og hugsanlega endurskoðun á vatnsborðshæð miðlunarlónsins. Nefndin skal og gera tillögu til stjórnar Landsvirkjunar og [Náttúruverndar ríkisins] um nauðsynlegar rannsóknir í þessu sambandi og skal Landsvirkjun kosta þær að svo miklu leyti sem hlutaðeigandi rannsóknaráætlun hlýtur samþykki stjórnar Landsvirkjunar og [Náttúruverndar ríkisins].
    Um viðurlög vegna brota á reglum þessum fer eftir ákvæðum náttúruverndarlaga.
    Ráðuneytið er samþykkt friðlýsingunni, sem tekur gildi við birtingu þessarar auglýsingar í Stjórnartíðindum. Jafnframt er felld úr gildi auglýsing nr. 753/1981 um friðland í Þjórsárverum.

Menntamálaráðuneytið, 10. nóvember 1987.

Birgir Ísl. Gunnarsson.


Fylgiskjal II.



Ályktun þingflokks Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs



samþykkt einróma á opnum þingflokksfundi Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs sem haldinn var í Þjórsárverum laugardaginn 21. júlí 2001.


    Opinn fundur þingflokks Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs haldinn í Þjórsárverum, laugardaginn 21. júlí 2001, telur að vernda eigi Þjórsárver og umhverfi þeirra en ekki spilla þessu einstaka, friðaða landsvæði og umhverfi þess með frekari virkjunum. Fundurinn tekur undir tillögur sem fram hafa komið um að friðlandið verði stækkað og mörk þess dregin þannig að sem mest af gróðurlendi svæðisins lendi innan friðlýsingarmarkanna. Fundurinn mótmælir þess vegna harðlega framkomnum hugmyndum um Norðlingaölduveitu og þeirri skerðingu friðlandsins í Þjórsárverum sem af henni hlytist. Í stað þess að hrófla við Þjórsárverum frekar en orðið er þarf að endurmeta á faglegum forsendum hvar eðlileg mörk friðlandsins eiga að vera og færa þau út í samræmi við það. Þingflokkur Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs mun í upphafi þings beita sér fyrir því að þegar verði hafist handa í þessu máli.

Greinargerð.
    Þjórsárver eru að hluta friðlýst enda þykir svæðið einstakt vegna landslags, gróðurfars og dýralífs. Í friðlýsingu Þjórsárvera kemur fram að ekki skuli virkja ef rannsóknir sýna að lónsmyndun yrði til þess að náttúruverndargildi veranna rýrnaði.
    Nú þegar hefur 40% af Þjórsá verið veitt til Þórisvatns og síður en svo er séð fyrir endann á þeim áhrifum sem þessar veitur munu hafa á umhverfi Þjórsárvera og verin sjálf. Hætt er við að frekari breytingar á vatnafari svæðisins muni hafa ófyrirséð og alvarleg áhrif. Niðurstöður rannsókna dr. Þóru Ellenar Þórhallsdóttur um gróður og miðlunarlón í Þjórsárverum sýna að veruleg áhætta er tekin með myndun uppistöðulóns eins og nú eru hugmyndir um. Slík lónsmyndun hefði mikil áhrif á svæðinu öllu og rýrði náttúruverndargildi veranna umtalsvert. Einnig er nauðsynlegt að hafa í huga að stórframkvæmdir með tilheyrandi vegagerð, línulögnum og öðrum mannvirkjum í nágrenni við friðlýsta svæðið hefðu að sjálfsögðu keðjuverkandi áhrif og kæmu niður á friðlandinu.
    Mikil áhersla hefur á undanförnum árum verið lögð á gróðurvernd og uppgræðslu og kapp lagt á að hefta fok frá hálendi landsins. Hafa verður í huga að lón í Þjórsárverum myndi sökkva 7 km² gróins lands og orsaka öldurof og strandmyndun í vel grónu landi við Þjórsá. Það hefði í för með sér alvarlegan uppblástur og víðtæk áhrif á gróður á stóru svæði. Slíkar framkvæmdir væru því í fullkominni mótsögn við viðleitni til að hefta uppblástur og jarðvegseyðingu á hálendi landsins.
    Umtalsvert gróðurlendi er utan marka núverandi friðlands. Líta verður á það sem hluta af heildarsvæðinu, því ásamt verunum, jökulkvíslunum, jöklinum að baki og aðliggjandi auðnum myndar allt þetta einstakt vistkerfi og er hluti stórfenglegrar landslagsheildar með margbreytilegu fugla- og dýralífi, gróskumiklu gróðurfari og fjölbreyttu vatnakerfi.