Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 98. máls.
131. löggjafarþing 2004–2005.
Þskj. 98  —  98. mál.




Fyrirspurn



til fjármálaráðherra um skattamál í tengslum við Kárahnjúkavirkjun.

Frá Steingrími J. Sigfússyni.



     1.      Hverjar urðu endanlegar tekjur ríkis og sveitarfélaga í formi tekjuskatts og útsvars erlendra starfsmanna sem unnu við Kárahnjúkavirkjun árið 2003?
     2.      Hvernig skiptust þessar tekjur niður á mánuði, hve margir voru greiðendur hverju sinni og til hvaða sveitarfélaga runnu útsvarstekjurnar, sundurliðað eftir mánuðum?
     3.      Hvert runnu útsvör, ef einhver voru, erlendra starfsmanna sem lengur eða skemur unnu við Kárahnjúkavirkjun en voru á svonefndri utangarðsskrá?
     4.      Hvernig gekk innheimta skatttekna af þeim erlendu starfsmönnum á vegum starfsmannaleiga aðal- eða undirverktaka sem dvöldu hér um skamman tíma og hurfu svo aftur úr landi innan ársins, t.d. margra sem unnu við uppsetningu vinnubúða?
     5.      Hve margir erlendir starfsmenn, sem unnu lengur eða skemur við byggingu Kárahnjúkavirkjunar á síðasta ári, skiluðu skattframtali hér á landi vegna tekna ársins, sbr. 90. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt og eignarskatt?
     6.      Hafa verkkaupi, aðalverktaki eða eftir atvikum aðrir hlutaðeigandi uppfyllt staðgreiðsluskyldu sína að fullu, sbr. ákvarðandi bréf ríkisskattstjóra frá 27. ágúst 2003, og einnig þegar í hlut á vinnuafl á vegum undirverktaka eða erlendra starfsmannaleigufyrirtækja?
     7.      Eru ennþá óútkljáð mál tengd Kárahnjúkavirkjun sem varða skattskyldu, skil á staðgreiðslu, skattheimtu og skattaframkvæmd almennt og, ef svo er, hvar eru þau deilumál á vegi stödd?
     8.      Er ráðuneytið enn þeirrar skoðunar að engin sérstök álitamál eða vandamál hafi komið upp, né séu líkleg til þess, í sambandi við skattalega meðferð mála vegna Kárahnjúkavirkjunar, sbr. svar við fyrirspurn á þingskjali 821 á 130. löggjafarþingi?


Skriflegt svar óskast.